Kort DMA og samstarf við Landmælingar (87)

Eftir miðja síðustu öld þegar AMS (Army Map Service) hafði gefið út Íslandskortin í mælikvarða 1:50 000 (C762) og minni mælikvörðum fól NATO bandarísku kortastofnuninni að kortleggja Ísland í mælikvarða 1:25 000 (Ágúst Böðvarsson, 1996). Kortagerðin var samkvæmt samningi landanna hluti af hernaðarlegu samstarfi innan NATO og átti upphaflega, í samræmi við stefnu sem þá var í kortlagningu margra landa, að vera í mælikvarða 1:25 000. Vegna strjálbýlis landsins og kostnaðarþátta munu Bandaríkjamenn hafa óskað eftir því árið 1960 við íslensk stjórnvöld að mælikvarðinn yrði 1:50 000 (C761) og var orðið við því. Skýrir það hvers vegna fyrstu kortafilmurnar þ.e. af suðvesturhluta landsins eru í mælikvarðanum 1:25 000.

Til að gera verkefnið mögulegt fór fram loftmyndataka af nær öllu landinu á tímabilinu 1956-1961, en vegna óhagstæðrar veðráttu náðist ekki að taka loftmyndir af hluta suðausturlands. Þar varð að notast við eldri loftmyndir (AMS) og eldri kort. Jafnframt voru gerðar nýjar þríhyrningamælingar af landinu vegna verkefnisins 1955-1956.

Fyrstu 10 kortin komu út af Reykjanesskaga á árunum eftir landmælingarnar og loftmyndatökuna og náðu þau norður fyrir Hvalfjörð og austur fyrir Þingvallavatn. Kortin byggðu á sömu breidd og eldri blaðskipting AMS korta en tvö kort þöktu nú sambærilegt svæði og þrjú gerðu áður. Einhvern tíma á þessum árum hafði bandarísku herkortastofnuninni verið breytt og fékk hún eftir það nýtt nafn DMA (Defence Mapping Agency) og hefur kortaröðin síðan verið kennd við þá stofnun, sem DMA kortin. Eftir fyrstu útgáfuna stöðvaðist verkefnið meðal annars vegna hernaðarbrölts Bandaríkjamanna í Víetnam, en það mun hafa verið vegna ákvæða í samningnum um að ef álagstímar væru við kortlagningu annars staðar í heiminum mætti tefja verkið á Íslandi. Þessi staða átti eftir að koma oftar upp af svipuðum ástæðum, en nær ekkert var unnið við verkefnið fyrr en á seinni hluta níunda áratugarins.

Kortin 10 voru endurskoðuð og endurútgefin í lok áttunda áratugarins, en það var svo um miðjan níunda áratuginn sem verkefnið komst á skrið aftur. Þá var farið í átak og á endanum voru 1988 komin út 102 kortblöð af þeim 200 sem fyrirhugað var að gefa út. Þá var bandaríska kortastofnunin, sem hafði enn gengið í gegn um einhverjar nafnabreytingar í millitíðinni verið lögð niður. Kortin í kortaröðinni urðu því ekki fleiri, en nokkur kort til viðbótar voru nánast komin á prenthæft stig og eru því aðeins til sem litaprufur hjá Landmælingum Íslands. Landmælingar gáfu hins vegar öll þessi 102 kort út á geisladiski árið 2005, þar sem hægt er að skoða þau í heild í samsettri rastaþekju með tilheyrandi hugbúnaði á diskinum. Stofnunin gaf út fjóra slíka geisladiska með kortum á fyrstu árum þessarar aldar með öllum þeim kortum stofnunarinnar sem þá var haldið við og voru á markaði.

Þorvaldur Bragason

Nánari upplýsingar: Ágúst Böðvarsson, 1996: Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .