Kortagerð og útgáfa í mælikvarða 1:250 000 (84)

Þegar Atlasblöðin (1:100 000) voru til orðin af hluta landsins leið ekki á löngu þar til farið var að huga að nýrri kortaröð í mælikvarða 1:250 000, en elsta kortblaðið í þeirri kortaröð er líklega af Suðvesturlandi gefið út árið 1930. Grunnar frá Atlasblöðunum hafa verið minnkaðir og skeyttir saman auk þess sem ýmis fyrirbæri voru dregin upp með öðrum hætti til þess að kortin væru læsilegri. Í því sambandi var t.d. staðanöfnum fækkað. Níu blaða blaðskipting var valin og kortin gefin út sem svonefnd Aðalkort, hugsuð fyrst og fremst sem ferðakort. Skýringar voru settar upp á íslensku, ensku og dönsku og blaðstærðin þannig valin að hún hentaði í hefðbundnar prentvélar.

Aðalkortin voru gefin út sem stök kortblöð þar sem öðrum megin var sjálft kortið og er tímar liðu var hinum megin örnefnalisti tengdur kortinu. Þar sem blaðskiptingarnar þveruðu landshluta á óhentugum stöðum með tilliti til ferðalaga, þurfti ferðafólk stundum að kaupa a.m.k. tvö kort og var farið út í að gefa út svonefndar ferðaútgáfur þar sem tvö aðliggjandi kort voru  prentuð báðum megin á blaðið, en með því móti var hægt að fá allt landið í þessum mælikvarða á fimm brotnum kortum (þar sem Mið Ísland var aðeins með korti öðrum megin á blaðinu).

Þegar Aðalkortin sem byggðu á grunni Geodætisk Institut þóttu orðin of „gamaldags“ hófust Landmælingar Íslands handa um nýja kortaútgáfu í þessum mælikvarða sem byggði á sömu blaðskiptingu. Hæðarlínu- og vatnafarsgrunnurinn að þeim kortum var gerður eftir minnkuðum filmum af AMS kortum í mælikvarða 1:50 000, en sú kortaröð var unnin og kom út á árunum 1948-1950. Ný landgreining var gerð og kortin sett fram með mjög breyttu útliti. Útgáfurnar komu út á sama hátt og áður sem níu stök blöð og sem fjórar ferðaútgáfur. Leiðandi í vinnunni við þennan nýja kortaflokk voru þeir Ólafur Valsson og Svavar Berg Pálsson. Þessi kortaútgáfa LMÍ var á markaði í rúma tvo áratugi og þegar allt landið var til orðið í nýja kortgrunninum var eldri útgáfan sem byggði á störfum Geodætisk Institut tekin af markaði.

Eftir síðustu aldamót, þegar stofnunin hafði verið flutt til Akraness var tekin ákvörðun um endurskoðun kortaútgáfunnar í mælikvarða 1:250 000. Gerður hafði verið nýr stafrænn kortagrunnur í mælikvarða 1:250 000 vegna útgáfu hinna nýju ferðakorta, en þessi kortagerð var að mestu í höndum Jean Pierre Biard. Með samstarfi við sænsku kortastofnunina Lantmäteriet í Gävle var mögulegt að fá prentað það stórt kortblað (86×138 cm) að allt landið náðist á þrjú kortblöð. Blaðskiptingin sem og brotið var mjög handhægt og skörun milli blaða var einnig umtalsverð, þannig að þó heildarkortflöturinn væri mjög stór var auðvelt að hafa mjög lítinn hluta kortsins opinn í einu þegar kortin voru til notkunar í brotinni útgáfu á ferðalögum. Með þessum hætti var til dæmis hægt að láta sér nægja að kaupa eitt kortblað fyrir allt svæðið frá Snæfellsnesi, sem sýndi Vesturland, miðhálendið norður fyrir jökla og Suðurland að Vatnajökli. Ókosturinn fyrir framleiðandann, Landmælingar Íslands, var að prenta þurfti kortin erlendis og senda mann með til að fylgja prentuninni eftir, sem var bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Þar sem undirbúningur útgáfunnar var oft seinni en áætlað hafði verið komust kortin stundum ekki á markaðinn fyrr en komið var nokkuð inn í aðalferðamannatímabilið á sumrin.

Þegar Landmælingum Íslands var gert að selja alla kortalagera og kortagrunna sem nýttir voru vegna framleiðslu korta, hafði þessi kortaflokkur verið á markaðnum í nokkur ár. Nýr framleiðandi og útgefandi, Iðnú, sem bauð í og hreppti í útboði kortalagera og fyrrnefndan kortgrunn 1:250 000, breytti fljótlega útgáfunni. Grunnurinn var „minnkaður“ fyrir útgáfu og nú notaður til vinnslu korta í mælikvarða 1:300 000 í stað 1:250 000, en með þeim hætti var hægt að prenta kortin í prentvélum á Íslandi (70×100 cm) á fjögur kortblöð. Útgáfan hefur verið til á fimm blöðum þar sem miðhálendið er nú til sem sérstakt kort, en það skarast eins og lög gera ráð fyrir að öllu leyti við kortflöt hinna kortanna.

Enn ein kortaröð staðfræðikorta er til af Íslandi í mælikvarða 1:250 000. Sú kortaröð var útgefin af Bandaríkjamönnum á árinu 1951. Hún telur 14 kortblöð og er ekki tekin til umfjöllunar hér enda aldrei verið á almennum markaði á Íslandi, nema sem afbrigði af útgáfunni í formi upphleyptra korta.  Umfjöllun um þennan kortaflokk verður í öðrum pistli.

Af framansögðu má ráða að margbreytileikinn innan flokka staðfræðikorta í mælikvarða 1:250 000 er allnokkur. Um er að ræða nokkra kortaflokka, en eins og staðan er með Atlaskortin er ólíklegt að á einum stað megi finna upplýsingar um allar útgáfur, endurprentanir og endurskoðanir kortanna í mælikvarða 1:250 000. Til þess að halda sögunni til haga þarf að finna allar útgáfur og í því þarf að koma til samstarf margra. Framsetning upplýsinga um kort sem falla undir blaðskiptingar þessara mismunandi kortaraða í sérstökum gagnaþekjum vegna aðgengis í kortasjám mun krefjast nokkurrar yfirlegu og grúsks, ekki síst vegna þess að gefnar voru út fleiri kortaraðir sem notuðu hina upphaflegu níu kortblaða skiptingu að hluta eða heild, þar má meðal annars nefna bæði jarðfræðikort og segulkort.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .