Nokkur umræða hefur orðið hérlendis á liðnum árum um útgefin og óútgefin eldri kort, sem víða eru óskráð eða lítt skráð og geymd í geymsluhúsnæði stofnana, sveitarfélaga og safna. Til að vekja athygli á bágri stöðu margra safna sem geyma landfræðileg gögn á Íslandi og auka umræður um mögulegar úrbætur var vefgáttin kortsafn.is sett upp á Netinu í apríl 2007. Kortasafn.is var tenglavefgátt (e. catalog geoportal) sem notaði sama hugbúnað og eldri gerð landakort.is og var hún unnin og rekin samhliða þeirri vefgátt. Vefgáttinni kortasafn.is var lokað árið 2014 og ákvörðun tekin um að samtvinna efni hennar við landakort.is ásamt því að útfæra verksviðið að sama skapi.
Landfræðileg gögn; kort, loftmyndir, gervitunglagögn, stafræn kortagögn og önnur staðtengd töluleg gögn, eru dreifð um allt samfélagið. Þau eru í mörgum tilfellum lítt skráð, ósamræmd, skrár eru sjaldnast birtar á veraldarvefnum, auk þess sem mörg safnanna eru geymd við óhentugar, jafnvel óviðunandi aðstæður. Samræmd skráning landfræðilegra gagna, markvissari varðveisla og birting upplýsinga um þau á Netinu er mikilvægur undanfari umræðu um að koma upp samræmdu vefviðmóti fyrir aðgengi að slíkum gögnum hér á landi. Markmiðið með umræðunni er einnig að stuðla að því að til verði aðgengilegri korta- og fjarkönnunargagnasöfn hér á landi og að farið verði að vinna markvisst að því að þróa samræmd upplýsingaverkefni á þessu sviði sem og að birta gögn og upplýsingar um gögnin með sértækari hætti á veraldarvefnum.
Hugmyndafræðin bak við kortasafn.is var í samræmi við tillögur sem settar voru fram í meistaraverkefni undirritaðs við Háskóla Íslands, sem lokið var í febrúar 2007 og bar það heitið „Miðlun upplýsinga um landfræðileg gögn á Íslandi. Aðgengi, skráning og varðveisla“. Á kortasafn.is voru birtir tenglar í sértækara efni á vefsíðum sem ætlað var að nýta í áðurnefndum tilgangi og birtar greinar eða tenglar í greinar og sambærilegt efni sem skrifað hefur verið hér á landi um málefni tengd landfræðilegum gögnum.
Kortasafn.is var í eigu sama aðila og landakort.is og verkefnið rekið án styrkja og utanaðkomandi fjármögnunar. Af hagkvæmnisástæðum og til að einfalda aðgengi að upplýsingum var ákveðið að sameina landakort.is og kortasafn.is í eina vefgátt til birtingar og nota til þess slóðina landakort.is. Breytingin birtist í nýju útliti 2015, en byggt er á öðrum hugbúnaði. Reynslan hefur sýnt að óþarflega hátt flækjustig er á að reka tvær slíkar vefgáttir, enda nokkur skörun á milli, einkum hvað varðar tilvísanir með tenglum.
Á meðan lítið þokaðist í þessum málaflokki hér á landi þótti ástæða til að endurmeta stöðuna. Sameining þessara tveggja vefgátta var liður í því að styrkja framsetningu á einum stað á Netinu og hafa víðara hlutverk að leiðarljósi. Pistlaskrifum er jafnframt ætlað að halda utan um ákveðnar faglegar staðreyndir, birta þær á einum stað og reka áróður fyrir auknu gagnaöryggi og bættu aðgengi að landfræðilegum upplýsingum um kort og önnur landræn gögn á Netinu. Vefslóðin kortasafn.is er áfram frátekin þó hún sé ekki notuð sem stendur. Henni er haldið til haga með greiðslu árgjalda ef til þess kæmi að á næstu árum myndi skapast forsenda til samstarfsverkefnis safna og stofnana hér á landi um aðgengi að upplýsingum um kort og fjarkönnunargögn sem orðið hafa til og eru annað hvort geymd á Íslandi eða erlendis. Engin önnur vefslóð myndi henta betur fyrir slíkt verkefni.
Þorvaldur Bragason