Kortasafn Landsbókasafns Íslands (76)

Kortasafn Landsbókasafns er lykilkortasafn Íslands. Þar eru varðveitt útgefin Íslandskort frá 16. öld fram á okkar daga. Safnið byggir á langri skráningar- og varðveisluhefð sem reis líklega hæst með starfi Haraldar Sigurðssonar bókavarðar og ritun hans á Kortasögu Íslands, sem kom út í tveimur stórum bindum 1971 og 1978. Þar er kortasaga landsins rakin með ítarlegum hætti og fjallað um hinn ómetanlega safnkost eldri Íslandskorta fram yfir kortagerð Björns Gunnlaugssonar um miðja nítjándu öld. Þar sem Landsbókasafn er hið íslenska þjóðbókasafn kemur fram í lögum um prentskil að skila beri til safnsins eintökum af öllum útgefnum kortum sem koma út af landinu. Þetta hefði átt að tryggja að safnið ætti eintök af öllum útgáfum íslenskra korta, en misbrestur hefur orðið á því að kortaútgefendur og prentsmiðjur virði umrædd lagaákvæði. Það hefur ekki alltaf verið skilningur í samfélaginu á mikilvægi þess að á einum stað sé hægt að ganga að íslenskum kortum, án þess að hafa fyrirvara um að fleira sé líklega til annars staðar. Þess má geta í þessu sambandi að Landmælingar Íslands og Landsbókasafn hafa haft samstarf um upplýsingamiðlum um safnkort kortasafna sinna og hafa afrit af skrám hvors annars og svo er um útgefin kort fleiri stofnana.

Safnkostur korta í Landsbókasafni, einkum eldri hluti hans, hefur varið skannaður og hafa upplýsingar ásamt niðurhlaðanlegum útgáfum kortanna verið settar á netið í gegnum vefinn Íslandskort.is. Þar eru viðamiklar upplýsingar um öll helstu Íslandskort fram undir lok nítjándu aldar. Einnig hefur verið bætt við kortum landmælingadeildar danska herforingjaráðsins og Geodætisk Institut auk elstu útgáfu korta Bandaríkjamanna (Army Map Service) í mælikvarða 1:50 000. Kortavefurinn Íslandskort.is varð til m.a. með tilstyrk NORDINFO (Norræna samvinnunefndin um vísindalegar upplýsingar) árið 1987, eftir að unnið hafði verið að skönnun þess hluta safnkostsins sem nær fram til ársins 1900. Vefsíðan var því fyrst um sinn eingöngu með þann hluta safnkostsins sem oft er í daglegu tali kallaður fornkort (Antique Maps). Vefurinn er stórfróðlegur og algjör grundvallarheimild á netinu um íslensk fornkort sem og önnur eldri Íslandskort. Þess má geta að söfn fornkorta eru til hjá fleiri aðilum á Íslandi, m.a. Seðlabanka Íslands, en kort safnsins voru mynduð árin 2003-2004 og gerð aðgengileg við hlið annarra eldri korta Landsbókasafns á Íslandskortavefnum. Þá eiga Háskóli Íslands og Landmælingar Íslands einnig minni fornkortasöfn. Endurhönnun á  Íslandskort.is fór fram árið 2012, en þá voru öll kortin mynduð á ný í betri upplausn til notkunar og niðurhals og einnig bætt við ákveðnum kortaröðum frá Dönum og Bandaríkjamönnum.

Þó að eldri hluti kortasafnkosts Landsbókasafns sé nú að stærstum hluta aðgengilegur á netinu, eru einnig til frá fyrri tíð merkilegir kortaflokkar sem bíða frekari rannsókna og birtingar. Þar má til dæmis nefna stórmerkilegan kortaflokk breskra korta frá síðari heimsstyrjöldinni og fleiri kort annarra þjóða frá styrjaldartímanum.

Kortasafnið er varðveitt við góðar aðstæður í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar og þarf að fá aðgengi að því með aðstoð starfsmanns safnsins, enda um mikla dýrgripi að ræða sem þarf að varðveita vel. Umsjónarmaður kortasafnsins og vefsins Íslandskort.is er Jökull Sævarsson sem hefur starfað lengi að þessum málum á safninu.

Landsbókasafn Íslands er á margan hátt mjög formföst stofnun. Þar, eins og í mörgum kortasöfnum þjóðbókasafna eða stofnana um allan heim sem varðveita stór kortasöfn, er oft litið tiltölulega þröngt á lagaskyldu og verksvið í gildandi lögum, þar eru því oft eingöngu varðveitt prentuð útgefin kort. Þess vegna er safnkostur kortasafns Landsbókasafns aðeins ákveðinn hluti þeirra Íslandskorta sem gerð hafa verið. Safnið tekur ekki við óútgefnum kortum sem skipta þúsundum titla hér á landi (m.a. framkvæmda- og tæknikort). Íslandskort, t.d. erlend ferðakort útgefin á liðnum áratugum, sem gefin hafa verið út af erlendum kortaútgáfufyrirtækjum, hafa ekki alltaf skilað sér til safnsins. Þá má skilja á starfsmönnum safnsins að enn sé pottur brotinn í skilum íslenskra ferðakorta til Landsbókasafns þrátt fyrir lagaskyldu, en nú er íslensk ferðakortaútgáfa eingöngu í höndum einkaaðila í samkeppni á markaði.

Safnkostur Landsbókasafns hefur ekki verið skráður með hornhnitum korta, miðað við eldri skráningarreglur, en frá og með nýjum skráningarreglum RDA fyrir kort (Resource Description & Access and Cartographic Resources) verða væntanlega breytingar þar á. Slík skráning eldri korta í safninu, sem og sambærileg skráning allra annarra korta af landinu, útgefinna sem óútgefinna, er lykilforsenda þess að hægt verið að útbúa leitarbærar heildarlausnir fyrir íslenska kortaflokka í kortasjám í framtíðinni.

Það er mikilvægt að allir sem til þekkja leggist nú á árarnar með safninu um upplýsingaöflun og söfnun korta þannig að í skrám safnsins megi á endanum finna sem allra ítarlegasta skrá um útgáfur íslenskra korta. Til þess að auðvelda þá vinnu og samanburð á safnkosti milli stofnana og safna þyrfti Landsbókasafn að veita einhvers konar opið aðgengi að kortaskrá sinni á netinu.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .