Kortasafn Orkustofnunar til Landsbókasafns (132)

Kortasafn Orkustofnunar, eitt þeirra þriggja kortasafna sem hægt hefur verið að skoða á netinu, hefur verið afhent Landsbókasafni Íslands til varðveislu. Um er að ræða alls á fjórða þúsund prentuð íslensk kort, en þar af eru um eitt þúsund kort sem Orkustofnun eða stofnanir tengdar henni hafa unnið og gefið út. Orkustofnun ber því skráningarlega ábyrgð á þessum þúsund kortum og hefur séð til þess að þau séu vandlega skráð og aðgengileg á netinu.Kort Orkustofnunar voru fyrir rúmum áratug skönnuð í hárri upplausn og fékk fjöldi stofnana og fyrirtækja afrit af þeim. Meðan stofnunin veitir aðgang að kortunum í kortasjám á netinu og meðan aðgengi er tryggt fyrir alla gegnum opinn vefþjón, er almennt ekki talin þörf á prentuðu kortunum til daglegrar notkunar á stofnuninni. Ef slík þörf kemur upp er hægt að komast í kortin hjá Landsbókasafni.

En hvers vegna var þörf á að koma kortunum frá stofnuninni til safnsins á síðasta ári? Orkustofnun gengur þessi misserin í gengum miklar breytingar varðandi hlutverk og verkefni og kynslóðaskipti hafa orðið í hópi starfsmanna meðal annars á sviði safnamála.

Hið gróna rannsóknarbókasafn sem rekið hafði verið á stofnuninni í samstarfi við ÍSOR og Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna var aflagt á síðasta ári og ástæðurnar sagðar  kostnaðarlegs eðlis. Samstarfsaðilarnir höfðu flutt úr Orkugarði og sagt sig frá rekstri safnsins og talin var þörf á að nýta húsnæðið fyrir annað.

Rannsóknarbókasöfn á sviði náttúruvísinda á stofnunum og hjá opinberum fyrirtækjum hér á landi hafa á undanförnum tveimur áratugum verið að týna tölunni. Þeir sem taka ákvarðanir um lokanir nefna oft að söfnin taki of mikið rými og að í staðinn eigi að nota netið til efnisöflunar.  Hins vegar vita þeir sem til þekkja að á mörgum sviðum vantar töluvert uppá að allt efni safnanna sé rafrænt á netinu og á það ekki síst við um margs konar íslenskt efni. Því er í mörgum tilfellum um verulega afturför að ræða í aðgangi að heimildum.

Um árabil hafa birst pistlar um landfræðileg gagnamál á landakort.is og í tengslum við það hafa vefgáttin landkönnun.is og kortasjáin Vefkortasafnið verið opnaðar á netinu til að gefa betra og samræmdara aðgengi að landfræðilegum gögnum á Íslandi. Þar hefur meðal annars verið bent á að kort landsins séu ekki nema að hluta aðgengileg á netinu. Illa hefur gengið að fá ýmsa sem að málinu þurfa að koma til að horfast í augu við þá staðreynd að íslensk kort fara ekki á netið nema það sé gert skipulega og með markvissri áætlun sem byggir á aðkomu margra. Það er gott til þess að vita að kortasafn Orkustofnunar sé komið til Landsbókasafns, því þar með er tryggt að það verði til áfram og í því eru örugglega einhver kort frá öðrum útgefendum sem Landsbókasafn hefur ekki fengið í prentskilum eins og lög segja þó til um.

Kortasafn Orkustofnunar er fullskráð, aðgengilegt og til fyrirmyndar varðandi það hvernig stofnanir geta stutt við mikilvæg varðveislu- og aðgengismálefni eldri heimildasafna landsins. Öll kort Orkustofnunar hafa um töluverðan tíma verið aðgengileg á netinu í nokkrum kortasjám, meðal annars eru kortin nú tengd “Vefkortasafninu” þar sem unnið er að því að koma sem flestum kortum hinna ólíku stofnana á framfæri á einum stað gegnum yfirlitkort með blaðskiptingum helstu flokka Íslandskorta.

Kortaskrá Orkustofnunar, Kortasjá Orkustofnunar, Kortasafn Orkustofnunar, Vefkortasafnið.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...