Kortasagan í kortasjánum (9)

Stafræn kort sem birtast í kortasjám verða hluti af kortasögu Íslands eins og hefðbundin kort á filmum eða pappír, en eru líklega sá hluti sögunnar sem auðveldast er að þurrka út og gleyma. Yfirlit vantar yfir íslenskar kortasjár sem margar hafa verið aflagðar, svo ekki er vitað hvaða kort voru birt í þeim, enda er útlitsafritun kortasjáa í molum.

En hvers konar kort eru helst birt í kortasjám? Við skulum afmarka okkur við staðfræðikort og myndgrunna. Það er auðvitað hægt að skanna fyrirliggjandi kort og loftmyndir eða gervitunglagögn og birta sem óuppréttar myndir á Netinu en aðallega er þó um tvo meginflokka kortagagna að ræða; a) hefðbundin útgefin kort sem hafa verið skönnuð, rétt upp og sett saman í samfelldar þekjur til birtingar í gegnum vefþjónustur og b) sérstakir kortgrunnar eða myndgrunnar sem unnir hafa verið út frá stafrænum landupplýsingagögnum af ýmsu tagi og hugsaðir fyrir birtingu í kortasjám og/eða í öppum fyrir snjallsíma. Dæmi um hið fyrrnefnda eru Atlaskortin, sem gerð voru upphaflega af Geodætisk Institut í Danmörku í mælikvarða 1:100 000, síðan uppfærð af Landmælingum Íslands og birt samsett (87 kortblöð) í kortasjám á vegum Landmælinga Íslands, eftir að hafa áður komið út á geisladiski með viðeigandi skoðunarhugbúnaði.  Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna kortagrunninn sem Samsýn vann og hefur verið notaður í Já.is og kortagrunn Loftmynda ehf, hvort tveggja kortgrunnar sem nota má endurgjaldslaust á Netinu og á ýmsan hátt í snjalltækjum. Ýmsar fleiri kortaþjónustur eru í boði eins og Open Street Map, en þekktasta erlenda kortaþjónustan á Netinu er án efa Google Maps og þekktasta erlenda myndgagnaþjónustan Google Earth. Nákvæmasti heildarmyndgrunnurinn af Íslandi á Netinu er loftmyndagrunnur Loftmynda ehf, en einnig eru til gervitunglamyndgrunnar af Íslandi með minni upplausn (Landsat (30×30 metrar) og Spot (5×5 metrar)) sem gerðir hafa verið að frumkvæði Landmælinga Íslands.

Notandinn þarf ekki að hugsa um hvað liggur að baki. Hann opnar einfaldlega kortaþjónusturnar, notar efni þeirra og slekkur þegar hann hefur fundið og gert það sem þarf. Það er hins vegar gífurleg vinna og kostnaður fólginn í gerð þessara kortagagna og í viðhaldi þeirra þannig að gögnin séu uppfærð reglubundið og notandinn hafi ávallt sem „réttust“. En hvernig getur notandinn vitað hvort hann er með nýuppfærð kortagögn? Leiðin til þess er í gegnum skoðun lýsigagna, sem eru upplýsingar um gögnin. Ef þau eru skráð með skipulegum og reglubundnum hætti og gerð aðgengileg með kortagögnunum ætti notandinn að vita hvað hann er með í höndunum. Hins vegar hefur oft verið misbrestur á þessari skráningu eða birtingu lýsigagnanna. Það felur þó alls ekki í sér að gæði sjálfra gagnanna þurfi að vera á neinn hátt minni.

Skráning opinberra stafrænna kortagagna á samkvæmt Evróputilskipuninni INSPIRE um grunngerð stafrænna landupplýsinga að birtast á lýsigagnavefsíðum hvers lands (hér á landi Landupplýsingagátt LMÍ), varpa skráningum áfram í samevrópsku lýsigagnagáttina INSPIRE Geoportal. Fyrirtækjum á markaði ber hins vegar ekki skylda til að skrá upplýsingar sínar í þessa opinberu grunna og vefgáttir og því verður ekki endilega hægt að fá heildarsýn yfir þær þar.

Þegar kortagrunnar eða myndgrunnar byggðir á fjarkönnunargögnum (loftmyndir eða gervitunglagögn) eru uppfærðir ætti í hvert skipti að uppfæra lýsigagnaskrá fyrir hverja útgáfu (e. version). Kortagrunnarnir sem haldið er við og byggt á þegar kortaþjónustunni er varpað út eru yfirleitt álitin „lifandi“ verkefni, sem þýðir að það eru stöðugt gerðar breytingar á þeim. Því þarf að finna lausn á lýsigagnaskráningu slíkra verkefna, enda er kortagrunnurinn í landupplýsingakerfinu eitt og afleiða hans sem birtist í gegnum kortaþjónustuna annað. Þar þarf tvenns konar skráningarferla. Það er hins vegar oft auðveldara að halda utan um breytingasögu grunna sem byggðir eru á fjarkönnunargögnum, enda er þar skipt út myndefni með því að klippa út búta og setja nýja inn. Þar þyrfti að vera hægt að sjá hvaða hlutar gagnasettanna hafa tekið breytingum milli útgáfa.

Af þessu má sjá að það er ekki endilega auðvelt að hafa yfirlit yfir þá kortagrunna og fjarkönnunargagnagrunna sem við getum notað á Netinu, hvað þá breytingasögu þeirra. Þegar kemur að því að skoða breytingasögu er þetta lykilatriði, þó margir myndu líklega fara í frummyndir en ekki grunnana ef um erfið álitamál eins og samanburð gagna frá mismunandi tímum vegna vísindarannsókna eða dómsmála væri að ræða.

Skráning og greining á íslenskum kortasjám, fyrr og síðar, og tillögugerð um úrbætur á þessu sviði væri þarft námsverkefni á Háskólastigi, sem gæti hjálpað til við að koma í veg fyrir að upplýsingar um helstu birtingargerðir og birtingarleiðir korta og annarra landrænna gagna á okkar tímum glatist. Því lengra sem dregst að þessi vinna hefjist, minnka líkurnar á að hægt verði að ná utan um upphaf þess tíma er kortasjár og „kortaöpp“ í snjallsímum héldu innreið sína og byltu kortanotkun almennings.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .