Kortasafn Orkustofnunar (50)

Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar og hjá forvera hennar Raforkumálaskrifstofunni og hins vegar af kortum sem aflað hefur verið frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis. Safnið var lengi óskráð, en samræmd rafræn skráning safnkostsins í kortabrunn OS hófst árið 2008. Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort eru þeir kortaflokkar sem Orkustofnun er talin bera ábyrgð á að skrá og varðveita. Skráningu þeirra í gagnagrunn Orkustofnunar lauk á árinu 2011, en þar koma fram helstu skráningarþættir sem tengjast kortunum. Með tengingu á gagnatöflum í gagnagrunni og staðsetningargögnum í landupplýsingakerfi voru síðan gerðar formskrár til birtingar í Orkuvefsjá. Þar er nú opið aðgengi að upplýsingum um öll kortin í þessum flokkum og mögulegt að skoða reiti með svæðisþekjum og myndir af öllum kortunum.

Orkustofnun hefur lengi haft þá stefnu að gera þau gögn sem unnin hafa verið fyrir opinbert fé á vegum stofnunarinnar aðgengileg öðrum án gjaldtöku. Þannig geta þeir sem þurfa á gögnunum að halda eða upplýsingum um þau, til dæmis fengið afrit af skönnuðum kortum í hágæða upplausan (tiff) hjá stofnuninni eða nálgast þau á léttara formi (jpg) í gegnum Orkuvefsjá á Netinu. Til að auðvelda aðgengið enn frekar voru nokkrir efnisþættir úr kortaskrá fyrir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort gerðir leitarhæfir í sérstakri skrá á vefsíðu stofnunarinnar á árinu 2013 .

Þar er hægt að leita að upplýsingum um kortin eftir ýmsum leiðum. Má þar fyrst nefna safnnúmer, sem er númer korts í Kortasafni OS og kortnúmer, sem er númer korts í kortaröð. Þá koma titill, mælikvarði, útgáfuár og kortaröð, þ.e. annað hvort Orkugrunnkort – OGK (1958-1998) eða Jarðkönnunarkort – JKK (1972-2002). Hægt er að leita eftir formgerð (filma/útprentað, ljósritað, prentað/útgefið og útprentað), efnisflokkum (dæmi: berggrunnskort, jarðgrunnskort, jarðhitakort) og ábyrgðaraðila. Með því að smella á safnnúmer opnast skannað kort þar sem ítarlegri upplýsingar m.a. um alla ábyrgðaraðila og höfunda koma fram.

Þó kortaflokkarnir séu nú ítarlega skráðir, allar upplýsingar um kortin vel aðgengilegar á veraldarvefnum og búið að tryggja varðveislu frumgagna í Þjóðskjalasafni Íslands, er enn eftir að skrá sögu þessarar kortagerðar. Með skráningaverkefninu eru nú til góðar heimildir um öll kortin, mælikvarða, nákvæmni, svæðin sem þau þekja, hver vann þau og hver greiddi fyrir gerð þeirra svo eitthvað sé nefnt. Til þess að hægt verði í framtíðinni að skrifa kaflann um þau í Kortasögu Íslands, vantar enn sjálfa söguna um allt sem meðal annars tengdist forsendunum fyrir gerð þeirra, nýtingu þeirra við rannsóknir og framkvæmdir og vinnsluferli þeirra þ.m.t. landmælingar, myndmælingar, landgreining og kortateiknun. Enn eru menn til frásagnar um þessa sögu, en tíminn til að skrifa hana er hins vegar ekki ótakmarkaður. Þegar sagan hefur verið skráð verður fyrst hægt að segja að vinnunni við varðveislu og aðgengi að þessum kortaflokki sé lokið.   Kortaskrá á vef OS.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .