Kortavefsjá 1:25 000

Tilraunaverkefni um kortavefsjá – Kortagerð 1:25 000

kortavefsja-jpg

Tilraunaverkefninu um Kortavefsjá – fyrir kort í mælikvarða 1:25 000 er ætlað að veita innsýn í eldra kortagerðarverkefni sem miðaði að því að samræma kortagerð á Íslandi í nýjum kortaflokki í mælikvarða 1:25 000. Kortagerðin hófst fyrir rúmum þremur áratugum, en kortaraðir af landinu höfðu fram að því verið til í ýmsum ólíkum mælikvörðum, blaðskiptingum og vörpunum.

Mikið hafði á árunum þar á undan verið rætt um þörf fyrir samræmdan kortagrunn af landinu og með samstöðu margra stofnana var lagt upp með að Íslendingar eignuðust nýjan samstæðan kortgrunn í mælikvarða 1:25 000, sem mætti nýta við margs konar kortagerð (staðfræðikort, gróður- og jarðakort, vatnafarskort og jarðfræðikort svo eitthvað sé nefnt).  Stofnanirnar sem unnu að kortagerðinni voru: Landmælingar Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og Landsvirkjun. Vinnan dagaði hins vegar uppi á tíunda áratugnum einkum þar sem stuðningur fékkst ekki hjá stjórnvöldum til að fjármagna verkefnið. Áður höfðu verið skrifaðar fjölmargar vinnuskýrslur sem tengdust starfi níu vinnunefnda í tilraunaverkefni um kortagerð 1:25 000, sem unnið var á vegum umhverfisráðuneytisins á tímabilinu 1992-1994. Afrakstur þessarar vinnu var þrátt fyrir það mjög merkilegur, sem skilaði sér meðal annars í  a.m.k. 164 kortatitlum, þar sem 63 voru prentuð og formlega útgefin kort. Önnur kort voru grunnkort af ýmsum gerðum.

Blaðskipting kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000 gerði ráð fyrir um 730 kortarömmum af landinu öllu. Nokkrar stofnanir hófu samstarf á ýmsum sviðum og þróuðust kortgrunnar hjá nokkrum þeirra, en grunnarnir voru einnig notaðir við vinnslu og til útgáfu staðfræðikorta (LMÍ), gróður- og jarðakorta (RALA/Náttúrufræðistofnun), vatnafarskorta, berggrunnskorta og jarðgrunnskorta (OS). Skráningu kortasafns OS lauk á árunum 2011-2012 og með birtingu upplýsinga um kortasafn stofnunarinnar í Orkuvefsjá á Netinu urðu til í gagnagrunni og landupplýsingakerfi OS upplýsingar sem gerðu það kleift að ná utan um það verkefni að birta yfirlit og almennar upplýsingar um öll kort sem þekkt eru í mælikvarða 1:25 000 frá árabilinu 1984-2000. Aðgreinanlegir flokkar innan kortaflokksins eru í kortavefsjárverkefni Orkustofnunar 2014 taldir alls 11, þ.e. fimm flokkar útgefinna korta og sex flokkar óútgefinna grunnkorta (einn þeirra eru kortgrunnar frá Army Map Service AMS). Kortblaðarammarnir sem birtast á yfirlitsmynd sýna kortlögð svæði, en bak við hvern reit eru jafnvel fjölmörg kort sem eru skoðanleg með því að smella á eina þekju í einu. Framsetning upplýsinga um kortin í kortavefsjá sýnir einnig dæmi um þá möguleika sem felast í að geta skoðað blaðskiptingar korta og fengið þar upplýsingar um undirflokka eftir gerð, efni um hvert einstakt kort og skannaða útgáfu af kortinu sjálfu.

Upplýsingar um afrakstur kortagerðarinnar í mælikvarða 1:25 000 eru nú aðgengilegar í opinni kortavefsjá á Netinu.

Nánari upplýsingar:  „Kortagerð í mælikvarða 1: 25 000“, pistill nr. 36, birtur á Landakort.is, 28. júní 2016 og „Tilraunaverkefni – Kortavefsjá 1:25 000“, pistill nr. 39 birtur á Landakort.is 9. ágúst 2016.