Landakort.is 10 ára (61)

Landakort.is er 10 ára um þessar mundir. Um er að ræða vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi og tilheyrir hún flokki landrænna tenglagátta (e. catalog geoportals), en megintilgangur þeirra er að gefa yfirsýn og vísa á efni á netinu á ákveðnu fagsviði, í þessu tilfelli á landfræðilegt efni.
Upphaflegri útgáfu vefgáttarinnar, sem opnuð var á netinu í mars 2007, var þá sem nú ætlað að vera vettvangur fyrir upplýsingamiðlun um landfræðilegt efni sem birtist á veraldarvefnum og lagt upp með að hún næði bæði til sérfræðinga og almennings. Upphaflega útgáfan birti tengla í kortasjár og vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan, auk vefsíðna um ferðamál. Vefsíðunum var raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir voru á forsíðu, en stutt skýring fylgdi hverri skráningu. Hægt var í upphafi að leita að efni eftir 12 meginflokkum og 40 undirflokkum og gera nákvæmari leit eftir völdum efnisorðum eða eftir stafrófsröðun. Þessum flokkum hefur síðan fjölgað lítillega. Á forsíðunni voru beinir tenglar í ýmsar íslenskar kortasjár og vefsíður á sviði landfræðilegra upplýsinga sem þægilegt er að geta nálgast á einum stað.
Landakort.is fékk strax í upphafi mikla athygli og aðsókn og gaf mörgum aðgang að landfræðilegum upplýsingum sem þeir höfðu ekki áður haft aðgengi að á einum stað. Þörfin fyrir slíkan vef hefur komið skýrt í ljós þar sem mikið hefur verið um fyrirspurnir í gegnum árin og hefur verið reynt að svara þeim beint eða vísa fyrirspyrjendum á nánari gögn, stofnanir eða heimildamenn.
Landakort.is er í eigu undirritaðs og er vefgáttin rekin án utanaðkomandi fjármögnunar. Vinna við uppsetningu, viðhald efnis og rekstur er því ólaunað áhugamál, sem hefur eðlilega haft einhver áhrif á það hvernig verkefnið hefur þróast. Á nokkurra ára bili var viðhald og uppfærsla vefgáttarinnar takmörkuð, sem skapaðist meðal annars af gamalli útgáfu opins hugbúnaðar sem kostnaðarsamt var að laga og uppfæra. Á árinu 2015 var hugbúnaðinum skipt út og nýr tekinn í notkun um leið og hugmyndafræðin í framsetningu upplýsinganna var endurskoðuð. Fólst það meðal annars í því að efni vefsins „kortasafn.is“ og hugmyndafræði var sameinuð landakort.is.
Nýja framsetningin byggir eins og áður á birtingu fjölbreytilegra tengla í landfræðilegar vefsíður á netinu, með áherslu á beint aðgengi að öllum þekktum íslenskum kortasjám á forsíðunni. Þá birtust á fyrsta ári nýju uppfærslunnar vikulegir pistlar um ýmsa gagnaflokka og málefni sem tengjast landfræðilegum gögnum, með höfuðáherslu á vefaðgengi þeirra, skráningu og varðveislu. Tíðni pistlanna er nú tveir í mánuði.
Landakort.is er yfirlitssíða fyrir hina fjölbreyttu landfræðilegu efnisflokka á netinu og er hún sú eina sinnar tegundar hér á landi. Reksturinn hefur gengið eins og vænst var miðað við verkefni sem hefur engar tekjur, en stefnt er að áframhaldandi starfsemi og þróun verkefnisins á næstu misserum. Greinilegt er að mikil þörf er fyrir slíkt vefverkefni, enda hefur öll árin verið mikið um fyrirspurnir í tölvupósti um hin ýmsu málefni á þessu sviði og skoðun síðunnar hefur samkvæmt mælingum verið umtalsverð. Verkefnið er klárlega að uppfylla ýmsar samfélagslegar þarfir, en enginn einn opinber aðili hefur þó ábyrgð eða skyldur til að sinna slíku verkefni samkvæmt lögum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .