Landfræðifélagið var stofnað 23. apríl 1979 og var félagið frá byrjun opið öllum sem áhuga höfðu á landfræði og landfræðilegum málefnum. Landafræði var fyrst kennd innan Heimspekideildar Háskóla Íslands frá haustinu 1951 og þá til BA prófs, en árið 1969 þegar kennsla hófst í raungreinum var farið að kenna landfræði til BSc prófs. Fyrsti landfræðingurinn með þá prófgráðu, Ólafur Örn Haraldsson, var útskrifaður árið 1972 og í kjölfarið fylgdu meðal annarra þeir Sigfús Jónsson, Bjarni Reynarsson, Tryggvi Jakobsson og Eggert Lárusson sem allir voru forvígismenn að stofnun Landfræðifélagsins. Eggert varð fyrsti formaðurinn og Sigfús fyrsti ritstjóri Landabréfsins sem var fréttabréf Landfræðifélagsins frá stofnun. Verkefni Landfræðifélagsins voru margvísleg í byrjun og lögð veruleg áhersla á stöðu landfræðinnar í skólakerfinu. Á þeim tíma voru miklar umræður um stöðu landfræðinnar í grunnskólunum, en þá var innleiðing samfélagsfræðinnar ofarlega á baugi. Félagið beitti sé mjög í því að tryggja stöðu landfræðinnar í grunnskólunum við þá breytingu.
Annað verkefni félagsins kom til af því vandamáli að ekki var til nægilega hentugt kennsluefni fyrir landfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Beitti stjórn félagsins sér fyrir því að þýðingar hófust á danskri kennslubók sem talin var henta í þessu sambandi. Skiptu margir félagsmenn á milli sín köflum bókarinnar til þýðingar, en í stuttu máli gekk seint að klára verkið og koma því út sem var að lokum gert í endanlegri útgáfu árið 1985. Fyrirhugað hafði verið að félagsmenn ynnu þýðinguna í sjálfboðavinnu og yrðu ritlaun notuð til að hefja útgáfu vandaðs tímarits um landfræðileg málefni, en þar sem fjármagn fékkst ekki í því samhengi varð tímaritið ekki að raunveruleika á þeim tíma. Áherslan á þýðingu bókarinnar og áralöng töf á útkomunni tók mikinn tíma frá mörgum forvígismönnum félagsins og gerði það að verkum að annars konar starf varð minna en margir höfðu vænst, sem dró aftur úr áhuga á þátttöku í félagsstarfinu. Þegar frumkvöðlar félagsins drógu sig í hlé frá stjórnarstarfi breyttust áherslurnar og jókst þá starfsemi tengd náttúrulandafræði og ferðamálum. Í forsvari fyrir félagið var þá um tíma Einar Egilsson, mikill áhugamaður um útivist og náttúruvernd, en var ekki menntaður landfræðingur.
Frá því farið var að útskrifa landfræðinga með BSc gráðu frá Háskóla Íslands í byrjun áttunda áratugarins fram á miðjan níunda áratuginn útskrifuðust fjölmargir landfræðingar og var svo komið árið 1986 að hópurinn var farinn að skipta tugum. Mörgum þeirra þótti vanta vettvang til að fjalla sérstaklega um fagmálefni landfræðinga og halda á lofti ýmsum málefnum sem vegna eðlis hins opna Landfræðifélags átti þar ekki heima. Leiddi það til stofnunar félags landfræðinga, sem stofnað var 5. nóvember 1986. Flestir héldu þó áfram að taka þátt í starfi beggja félaganna um sinn. Landfræðifélagið missti þó smám saman úr virku starfi bæði frumkvöðlana og aðra sem komið höfðu að málum síðar og var félagið á endanum lagt niður í byrjun tíunda áratugarins.
Draumar forvígismanna Landfræðifélagsins lifðu hins vegar áfram í nýju félagi, en það tengist einkum hugmyndum um útgáfu fagtímarits sem kom reyndar til síðar í veglegri útgáfu. Innan Landfræðifélagsins hófst útgáfustarf Landabréfsins strax eftir stofnun félagsins, en hugmyndir um stofnun fagtímarits var fylgt eftir með skipan ritnefndar í ágúst 1980. Leiðbeiningar til höfunda voru gerðar það sama ár og segja má að fagtímaritið hafi verið til á tímabilinu 1981-1984 í formi veglegri útgáfu í A5 broti og formi fréttabréfsins Landabréf. Þar birtust fjölbreyttar greinar eftir landfræðinga um landfræðileg efni. Forvígismenn þessarar útgáfu voru fyrst Sigfús Jónsson og síðar Bjarni Reynarsson. Þegar litið er til baka er ljóst að hugsjónirnar og fórnfýsi frumkvöðla Landfræðifélagsins hafði mikið að segja. Þar voru lagðar línur að umræðu og mótun málefna sem landfræðingum eru hugleikin, en hið opna form félagsins hentaði ekki til lengdar eftir að útskrifuðum landfræðingum fjölgaði, sem áhuga höfðu á öðrum áherslum í starfinu. (Meginheimild: Vefsíða félags landfræðinga).
Þorvaldur Bragason