Landfræðilegt eða landrænt (41)

Þeir sem lærðu landafræði í barna- og gagnfræðaskóla fyrir áratugum síðan, þ.e. fyrir daga samfélagsfræðinnar, þekkja áhersluna á fróðleik um Ísland auk þess að læra um önnur lönd og þjóðir, það sem almennt hefur verið nefnt svæðalandafræði. Þeir sem fara í gegnum nám í landfræði í háskóla eru nefndir landfræðingar en ekki landafræðingar, en landafræði sem svæðalandafræði er þrengra hugtak en landfræði. Hugtakið landfræði er gamalt í málinu. Eitt þekktasta dæmi um það er heiti hins merka ritverks Þorvaldar Thoroddsen um landfræðisögu Íslands (titillinn þar er reyndar „Landfræðissaga Íslands“) sem gefið var út fyrir rúmum hundarð árum. Hugtakið landfræði hefur því afar breiða skírskotun, í raun fellur undir það allt sem tengist landi á einhvern hátt. Í gegnum tíðina hefur því flest sem um hefur verið rætt á þessu breiða sviði á einhvern hátt verið „landfræðilegt“ og ætti að vera tengjanlegt stað eða svæði á yfirborði jarðar með staðsetningarhnitum. Við höfum talað um ýmsar undirgreinar eins og svæðalandafræði, hagræna landafræði og mannvistarlandafræði svo eitthvað sé nefnt og við höfum unnið með landfræðileg gögn og í því samhengi einnig talað um landupplýsingar.

Með umræðu um grunngerð landupplýsinga og grunngerð landgagna á heimsvísu og með stofnun samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) 1994 var farið að huga meira hér á landi að þýðingum hugtaka sem taka þurfti afstöðu til með nýrri tækni í kortagerð og tengdum greinum við vinnslu landupplýsinga. Fljótlega eftir stofnun samtakanna varð til Orðanefnd LÍSU sem hefur unnið mikið starf á þessu sviði og birt orðalista með þýðingum hugtaka. Nefndin hefur hins vegar ekki alltaf fengið nægilega umræðu um tillögur sínar eins og hún hefur óskað. Jafnframt eru til hliðar við verkefni nefndarinnar jaðarsvið sem nefndin hefur ekki haft á sinni verkefnaskrá eins og dæmi má sjá um í landrænum efnisorðalista.

Þegar ég fór að vinna að verkefni sem meðal annars fjallaði um upplýsingaaðgengi „landfræðilegra“ gagna, vantaði hentug íslensk orð fyrir ákveðin hugtök. Ritaður texti í því verkefni fjallaði að einhverju leyti um undirgrein upplýsingafræðinnar sem á ensku hefur verið nefnd „map librarianship“, en það er gamalt heiti til komið fyrir byltinguna í kortagerð sem varð með tilkomu landupplýsingakerfa. Þar er í raun verið að fjalla um þá undirgrein upplýsingafræðinnar sem fjallar um landfræðileg gögn (kort, loftmyndir, gervitunglagögn, stafræn landgögn og ýmis staðtengd rannsóknagögn). Á þeim tíma var rætt um „landfræðilega upplýsingafræði“, sem hljómar ekki nógu vel. Til þess að finna meðal annars lausn á þessu kom nokkrum árum síðar upp hugmynd um að nota orðið „landrænt“ samhliða hugtakinu „landfræðilegt“, sem færi stundum betur í umræðunni t.d. um fræðigreinina „landræna upplýsingafræði“. Í Orðabók Menningarsjóðs er landrænt veðurfar notað um meginlandsveðurfar. Þar sem við höfum á liðnum áratugum tekið upp notkun margs konar orða af svipuðum toga þótti þetta áhugaverð hugmynd. Því til stuðnings má nefna mikið notuð hugtök eins og; stafrænt, rafrænt, myndrænt, hagrænt, vélrænt, hnattrænt, jarðrænt, ljóðrænt og hví þá ekki landrænt í merkingunni allt sem tengist landfræðilegum málefnum. Tillaga um þetta var send Orðanefnd LÍSU sem tók orðið inn í orðalista sinn.

Samkvæmt hugmyndafræði kerfisbundins efnisorðalista væri því landfræði eða landfræðilegt (e. geography/geographical) víðasta heiti. Orðið landrænt er samheiti við landfræðilegt, landræn gögn samheiti við landfræðileg gögn (e. geographical data), þ.e. gögn sem tengjast ákveðnum stað eða svæði. Landafræði er þá fræðigreinin sem fjallar um lönd og álfur og er þrengra hugtak en landfræði. Landupplýsingar (e. spatial information) hef ég litið á sem þrengra heiti en landfræðileg/landræn gögn. Landgögn (e. spatial data) sem nokkuð var fjallað um vegna þýðinga í tengslum við INSPIRE tilskipunina, eiga við stafræn landfræðileg gögn og væru því  þrengra heiti en bæði landfræðileg gögn og landupplýsingar. Það er líklega einhver skoðanamunur milli sérfræðinga á orðanotkun í þessu samhengi og hér á örugglega eftir að fara fram frekari umræða.

Upplýsingafræði er víðtæk fræðigrein og landræn upplýsingafræði þrengra hugtak, þ.e. fræðigreinin sem fjallar meðal annars um safna-, skráningar og varðveislumál landfræðilegra gagna. Sama er að segja um lýsigögn, gögn sem lýsa öðrum gögnum (e. metadata) sem er yfirheiti með víða skírskotun, en landræn lýsigögn (e. spatial metadata) er þrengra heiti og undirflokkur. Það á einnig við hugtakið „landlýsigögn“ sem samheiti við landræn lýsigögn, þ.e lýsigögn fyrir landgögn. Eitt hugtak til viðbótar tengist mjög framsetningu landrænna lýsigagna en það er landrænn rammi (e. geographic bounding box), þar sem staðsetningarhnit eða lengdar- og breiddarbaugar afmarka svæði innan ramma sem sýnir ytri mörk svæðis sem landrænt gagnasett eða kort þekur.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...