Landgrunnsvefsjá (23)

Landgrunnsvefsjá er hugsuð sem kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar upplýsinga um gögn sem tengjast landgrunni Íslands og þá fyrst um sinn einkum af Drekasvæðinu, en hvatinn að verkefninu var fyrsta útboð á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á hafsbotni.  Kortasjáin var opnuð í ársbyrjun 2009 og var efni hennar frá upphafi birt bæði á íslensku og ensku. Landgrunnsvefsjá nýtir hugbúnað (Flashmap) sem þróaður var af hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín vegna verkefnis um Náttúruvefsjá, en til þess að geta notað hugbúnaðinn þurfti að bæta við nýjum tækniútfærslum.

Landgrunnsvefsjáin gerir fjölbreyttar upplýsingar um gögn varðandi landgrunnið aðgengilegri á veraldarvefnum, en þar eru m.a. sýnd reitakerfi fyrir rannsóknasvæði, yfirlit yfir hafsbotnsgögn og upplýsingar um gögn frá leiðöngrum á Drekasvæðinu. Kortasjánni er meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar varðandi rannsóknir og vinnslu kolvetna að finna hvaða gögn eru til, af hvaða svæðum, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar er mögulegt að fá aðgang að gögnunum. Til fróðleiks eru í kortasjánni birtir stuttir textar til að gefa fyllri upplýsingar um svæðið og gögn sem þar hefur verið aflað, auk þess sem tenglar og tilvísanir eru í ítarefni m.a. á vefsíðu Orkustofnunar.

Landgrunnsvefsjá birtir gagnaþekjur sem unnar hafa verið vegna verkefnisins m.a. í samstarfi Orkustofnunar við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), auk rastamynda sem aðgengilegar eru gegnum vefþjónustur. Þar er þekja með gráðureitum sem sýnir reitakerfi fyrir norðausturhluta íslenska landgrunnsins, afmörkun norðurhluta Drekasvæðisins, reitakerfis innan þess, Jan Mayen samkomulagssvæðið og þekja sem sýnir sérleyfissvæði. Síðan eru nokkrar vektorþekjur sem gefa yfirlit yfir gögn úr rannsóknaleiðöngrum á norðurhluta Drekasvæðisins svo sem um hljóðendurvarpsmælingar, fjölgeislamælingar, rannsóknarborholur og yfirborðssýni. Í gegnum rastaþjónustu má kalla fram þekjur sem sýna litaskiptar myndir gerðar eftir gagnasettum með dýptargögnum, einnig er rastaþjónusta með örnefnum af landgrunninu og hafsvæðunum kringum Ísland. Landgrunnsvefsjá hefur fengið góða umsögn bæði innanlands sem utan þar sem hún er talin gefa gott yfirlit yfir mikilvæg gögn sem erfitt er að fá yfirsýn yfir með öðrum hætti. Eftir er að útbúa töluvert af gögnum af íslenska landgrunninu til birtingar í Landgrunnsvefsjá, meðal annars af fleiri svæðum, en þeim gögnum mun verða bætt við eftir því sem verkefnin þróast á næstu árum.

Þorvaldur Bragason

 

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .