Orkustofnun hefur tekið í notkun nýja vefsjá vegna umsýslu sinnar um auðlindir á landgrunni Íslands, en hana má finna á vefslóðinni www.landgrunnsvefsja.is. Vefsjánni er fyrst um sinn ætlað að gefa yfirlit yfir gögn sem tengjast Drekasvæðinu og gera upplýsingar um þau aðgengilegri á veraldarvefnum, en opnun vefsjárinnar tengist 1. útboði vegna rannsóknaleyfa á kolvetni á norðanverðu Drekasvæðinu.
Í vefsjánni má sjá yfirlitsgögn yfir hafsbotninn á svæðinu, fá fram upplýsingar um rannsóknaleiðangra, einkum hljóðendurvarpsmælingar og fjölgeislamælingar og sjá reitakerfi fyrir landgrunnið norðaustur af Íslandi sem og fyrir Drekasvæðið. Markmiðið með vefsjánni er ekki að birta sjálf frumgögnin, heldur auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar að finna hvaða gögn eru til, af hvaða svæðum, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og vísa til þess hvar mögulegt er að fá aðgang að gögnunum sjálfum. Til fróðleiks eru í vefsjánni birtir stuttir textakaflar til að gefa fyllri upplýsingar um svæðið og gögn sem þar hefur verið aflað. Gert er ráð fyrir að birta síðar í vefsjánni niðurstöður leyfisveitinga til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetna á norðurhluta Drekasvæðisins ásamt yfirliti um þær rannsóknir sem þar verða gerðar, svo sem um boranir.
Landgrunnsvefsjáin nýtir vefhugbúnað sem upphaflega var þróaður af hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín vegna verkefnis um Náttúruvefsjá, en fyrir Landgrunnsvefsjána hefur fyrirtækið bætt við fleiri þáttum í veflausnina. Þar ber helst að nefna möguleikann á birtingu upplýsinga á tveimur tungumálum, en allur texti er birtur bæði á íslensku og ensku. Vefsjáin gefur því kost á að miðla ýmiss konar upplýsingum eins og fróðleik, lýsigögnum og ítarefni, þar sem vísað er til annars efnis með tenglum í gagnatöflur, vefsíðu Orkustofnunar og vefsíður ýmissa erlendra aðila. Gögnin í Landgrunnsvefsjánni eru bæði vektor gagnasöfn og rastamyndir sem aðgengilegar eru gegnum vefþjónustu, en yfirlitsgögnin hafa flest verið unnin vegna verkefnisins í samstarfi Orkustofnunar við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR).