Landlýsing  2000-2014 (27)

Árið 2000 var Landlýsing, fyrsti íslenski lýsigagnavefurinn fyrir landupplýsingar opnaður á Netinu. Vefurinn var samstarfsverkefni Landmælinga Íslands og samtaka um landupplýsingar á Íslandi – LÍSA, hugsaður til að birta landræn lýsigögn fyrir íslensk gagnasett frá stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þegar hætt var að bæta við lýsigagnaskráningum í Landlýsingu árið 2012 voru 201 gagnasett skráð þar, en vefnum var lokað á netinu seint á árinu 2014. Landlýsing var í meira en áratug eini lýsigagnavefurinn á Íslandi þar sem hægt var að fá yfirsýn yfir landupplýsingagögn í eigu stofnana og sveitarfélaga. Verkefnið hefur haft mótandi áhrif á umræður um landupplýsingamál á Íslandi á liðnum árum, skapað farveg og forsendur fyrir nýtt verkefni á þessu sviði og orðið mikilvæg heimild um þróun gagna á sviði landupplýsinga hér á landi. Hugbúnaðurinn var upphaflega fenginn frá dönsku kortastofnuninni KMS, sem hafði þróað hann í samstarfi við DTU og opnað á Netinu fyrir dönsk gagnasett árið 1997. Hugbúnaðurinn þótti mjög framsækinn á sínum tíma, en hann byggði á lýsigagnastaðli sem hefur nú verið aflagður (CEN TC 287). Hér á landi hefur nú orðið til nýr landrænn lýsigagnavefur, Landupplýsingagátt, gerður í samræmi við alþjóðlegan lýsigagnastaðal (ISO 19115) og inntak INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins.

Til að gefa yfirlit yfir efni Landlýsingar við lokun verkefnisins er áhugavert að skoða nokkrar lykiltölur. Í Landlýsingu voru árið 2012 eins og fyrr sagði skráð 201 gagnasett.  Aðilar að verkefninu voru 34, lýsigögnin voru fyrir gagnasett frá 33 aðilum, þ.e. 17 stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins og 16 sveitarfélögum og fyrirtækjum á vegum og í eigu sveitarfélaga. Eitt einkafyrirtæki var í þátttakendahópnum, en skráði ekki eigin gögn heldur gögn sem fyrirtækið hélt utan um fyrir sveitarfélag. Gagnasett frá opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins voru 82 (41%), en fjöldi gagnasetta í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum voru 119 (59%).

Þegar litið er til 18 efnisflokka lýsigagnafærslnanna kemur í ljós að í 186 tilfellum (93%) hefur flokkun verið skráð. Stærstu flokkarnir voru: samgöngur (29), lagnir og veitur (26), skipulag, landnotkun, atvinnugreinar (19), jarðfræði (18), landslag og hæðarlínur (13), mannvirki og fasteignir (12), vatnafar (10) og gróður (8).

Viðmiðunarmælikvarði gagnasetta var skráður í rúmum helmingi tilfella (113) og var mikill meirihluti þeirra í stórum mælikvarða (<1:15 000), sem skýrist af því að meirihluti lýsigagnanna tengist landupplýsingagögnum sveitarfélaga. Þá voru 63 gagnasett (30%) talin ná yfir allt landið, eða öll fyrirbæri ákveðinnar gerðar á landinu. Í Landlýsingu voru síðan sýnishorn í viðhengi sem sýndu útlit  og dæmi um framsetningu gagnasettanna og átti það við helming lýsigagnafærslnanna.

Ef litið er til þróunar Landlýsingar frá upphafi kemur í ljós nokkuð jöfn uppbygging, en að meðaltali voru um 20 nýjar lýsigagnaskráningar á ári fram til ársins 2009 þegar farið var að ræða drög að nýjum lögum um grunngerð stafrænna landupplýsinga, þar sem nýr lýsigagnavefur átti að vera eitt fyrsta verkefnið.

Starf í tengslum við Landlýsingu gekk allan tímann, samhliða upplýsingasöfnun um landfræðileg gögn hjá stofnunum og sveitarfélögum innan LÍSU samtakanna, út á það að leiðbeina og útskýra mikilvægi samræmdrar skráningar upplýsinga um landfræðileg gögn, útskýra hugtök, eðli ólíkra þátta í vinnslu landfræðilegra gagna og mikilvægi þess að allir hefðu á einum stað aðgang að yfirliti yfir slík gögn á landsvísu. Skipuleg og stöðluð framsetning upplýsinga á þessu sviði, reyndist mörgum framandi einkum í fyrstu, en með stöðugri umræðu í verkefninu hefur lýsigagnahugtakið stimplast inn hjá þeim sem vinna á sviði landupplýsinga. Í niðurstöðum könnunar sem birtar voru árið 2006 á viðhorfi til Landlýsingar meðal þriggja hópa starfsmanna þátttökustofnana í verkefninu; stjórnenda, landupplýsingasérfræðinga og safnasérfræðinga, kemur skýrt fram munurinn á skilningi á málaflokknum eftir því hvaða störfum starfsmenn gegndu hjá þeim stofnunum og sveitarfélögum sem þátt tóku í Landlýsingu. Landupplýsingasérfræðingarnir höfðu eðli málsins samkvæmt skýrasta sýn á það sem um var rætt en stjórnendur og safnasérfræðingarnir þekktu minna til mála. Orðanotkun á sviði landupplýsinga er sértæk og oft torskilin þeim sem ekki þekkja vel til. Því hafa margir það viðhorf að lýsigagnavefir fyrir landupplýsingar séu verkefni fyrir sérfræðinga, en með aukinni notkun landfræðilegra gagna í samfélaginu almennt ætti vitundin um sértæk hugtök að aukast og auðvelda notkunina. Með lögum nr. 44/2011, sem sett voru um grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi 2011, var Landmælingum Íslands falið að setja upp nýtt verkefni á þessu sviði, sem birtist síðan á Netinu árið 2012. LÍSU samtökin hafa því ekki lengur það verkefni að standa að rekstri lýsigagnavefs.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .