Landræn efnisorð (14)

Á liðnum áratugum hefur orðið bylting í gerð korta og vinnslu annarra upplýsinga sem byggja á staðsetningarhnitum og tengjast afmörkuðum svæðum á yfirborði jarðar. Stafræn tækni á þessu sviði hefur leitt af sér ný hugtök sem reynt hefur verið að þýða á íslensku. Orðalisti LÍSU samtakanna er helsta heimildin um þessi mál en orðalistinn er hins vegar ekki flokkaður eftir tengslum hugtaka og aðeins að takmörkuðu leyti settur fram með skilgreiningum orða. Jafnframt er til annar listi „Lykilskrá“, byggð á hugmyndafræði um kerfisbundinn efnisorðalykil, en leita má í þeim lista á vefsíðu Landsbókasafns, þó listinn sjálfur sé ekki aðgengilegur þar.

Frumkvæðið í verkefni á þessu sviði hér á landi má rekja til orðaskrár bókasafns- og upplýsingafræðinganna Margrétar Loftsdóttur og Þórdísar T. Þórarinsdóttur, sem fyrst kom út árið 1992 (Kerfisbundin efnisorðaskrá (thesaurus) fyrir bókasöfn). Þar var settur upp listi þar sem tekið var á tengslum lykil- eða efnisorða, þannig að sjá mátti meðal annars hvort um var að ræða samheiti, skyld heiti, þrengri heiti og víðari heiti þar sem þau voru þekkt. Um gríðarlega víðfeðmt og sérhæft verkefni er að ræða og því ekki hægt að ætlast til að á öllum sérsviðum sé hægt að kafa mjög djúpt í tengsl orða og hugtaka nema til komi sérfræðiþekking frá einhverjum í hinum ýmsu fagmálaflokkum. Listi Landsbókasafns hefur byggt á vinnu Margrétar og Þórdísar, en listinn er frekar efnislítill þegar kemur að landfræðilegum orðum og hugtökum.

Það væri mjög áhugavert að til yrði slíkur efnisorðalisti fyrir landfræðileg orð og hugtök hér á landi. Þar mætti í upphafi ræða einkum um orð sem notuð hafa verið á sviði landupplýsinga, fjarkönnunar og annarra tæknilegra sérsviða innan landfræðinnar. Með því má fá umræðu um notkun lykilhugtaka á þessu fagsviði þannig að þau nýtist við að bæta hinn opinbera lista á þessu sviði. Ef við sem störfum á sviði landupplýsinga viljum að í framtíðinni verði hægt að finna það efni sem ritað hefur verið og verður ritað, þarf að sjá til þess að bókasafns- og upplýsingafræðingar sem skrá það efni í söfnum hafi fyrir framan sig yfirfarinn samræmdan efnisorðalista sem skilar okkur og þeim sem á eftir koma skilvirku aðgengi að landfræðilegu efni safnanna. Sem innlegg í þessa umræðu hefur verið birtur 60 orða listi hér á landakort.is í kaflanum „Landræn efnisorð“, en þar er gerð grein fyrir hugtökum og nýyrðum á sviði landupplýsinga og fjarkönnunar sem notuð eru og verða notuð á næstunni í pistlum vefsíðunnar. Þar er bæði sýnt samhengi nýyrða og eldri orða við ensk hugtök, gerð stutt grein fyrir því yfir hvað orðin eru helst notuð og síðan vísað til samhengis í orðanotkun (víðari heiti, þrengri heiti, samheiti og skyld heiti). Vonandi er að birting listans kveiki umræður sem að gagni mega koma til að landfræðilegt efni verði finnanlegt í framtíðinni undir þeim lykil- og efnisorðum sem okkur sem vinnum innan málaflokksins eru tömust.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .