Lýsigögn, í merkingunni gögn sem lýsa öðrum gögnum (e. metadata), hafa lengi verið búin til og notuð í ýmsum tilgangi. Flestir þekkja spjaldskrár bókasafna og skýringar á kortum, en það eru góð dæmi um lýsigögn sem notuð hafa verið í aldanna rás. Lýsigögn eru með öðrum orðum skipulega framsett gögn sem lýsa innihaldi annarra gagna. Þau eru venjulega sett fram samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og þar sem lýsigögn fyrir landupplýsingar eru nokkuð sértækari en almenn lýsigögn er talað um landræn lýsigögn (e. spatial/geographical metadata). Um þau gilda sértækir staðlar þar sem tekið er sérstaklega á landfræðilegum skráningarþáttum. Til þess að halda utan um landræna gagnaflokka og gagnasett er mikilvægt að upplýsingar um gögnin séu vel skráðar, helst í gagnagrunn, en við sérhverja uppfærslu eða breytingu gagnasetts þarf nýja lýsigagnafærslu, en jafnframt þarf að geyma færsluna sem lýsir eldri útgáfu gagnasettsins.
Á síðustu áratugum liðinnar aldar hafði framleiðsla á stafrænum landupplýsingagögnum aukist mjög um allan heim, en sú þróun fylgdi innleiðingu og aukinni notkun landupplýsingakerfa. Að fá góða yfirsýn yfir gögn varð því stöðugt flóknara og erfiðara fyrir notendur m.a. að vita hvaða gögn væru til, hvaða lönd eða svæði þau sýndu og hvar þau væru geymd. Leiðin í þessu efni var því að þróa staðla, setja lýsigögnin í gagnagrunna og birta þau síðan á Netinu í lýsigagnagáttum. Árið 1988 er talið að hugtakið lýsigögn (e. metadata) hafi fyrst komið fram á prenti í merkingunni „gögn um gögn“, en þar var verið að fjalla um samskipti með stafræn landfræðileg gagnasöfn. Fljótlega urðu til vel skilgreindir staðlar til að lýsa landfræðilegum gögnum og gagnasettum, t.d. hjá FGDC í Bandaríkjunum, CEN/TC 287 í Evrópu og ANZLIC í Ástralíu og Nýja Sjálandi.
Til þess að skrá lýsigögn urðu í framhaldinu til sérstakir gagnagrunnar fyrir landræn lýsigögn í mörgum löndum þar sem byggt var á hinum ýmsu stöðlum eftir því hvar í heiminum gögnin voru unnin og notaðar misjafnlega notendavænar vefsíður til að veita aðgengi að upplýsingum. Þegar kom fram á tíunda áratug síðustu aldar var farið að leita leiða til að fá fram notendavænni lausnir til að auka aðgengi að upplýsingum um stafræn landupplýsingagögn. Umræða um þessi mál var sterk meðal kortastofnana í Evrópu, sem leiddi til nýrra lausna í mörgum löndum, þar á meðal í Danmörku þar sem Íslendingar leituðu fyrirmynda, þ.e.a.s. fyrir lýsigagnaverkefnið Landlýsingu.
Lýsigagnahugtakið var ekki mikið í umræðu á Íslandi fyrr en undir síðustu aldamót. Það var þekkt í heimi bókasafna samanber Dublin Core lýsigagnastaðalinn, en umræða um hugtakið jókst eftir stofnun samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) 1994 og lýsigagnanefndar á vegum samtakanna, en lýsigögn fyrir landupplýsingar lúta á ýmsan hátt öðrum lögmálum en almenn lýsigögn í söfnum.
Sérstaða landrænna lýsigagna felst í hinni landfræðilegu vídd, þar sem staðsetningu, eðli og eiginleikum landfræðilegra gagna er lýst. Þau fjalla því meðal annars um það af hvaða stað eða svæði gögnin eru, hvaða eða hvers konar gögn er um að ræða, hver gerði þau, hvernig eða með hvaða hætti og hvers vegna þau voru unnin og hvenær þau voru gerð eða fyrir hvaða tímabil þau gilda. Þau svara því spurningum eins og HVAÐ, HVER, HVAR, HVENÆR, HVERS VEGNA, HVERNIG um gögnin.
Í landupplýsingavinnslu eru tengdar saman upplýsingar sem byggja á staðsetningu og þær birtar á kortum eða sem gagnasett og vefþjónustur í kortasjám á Netinu. Landræn lýsigögn eru yfirleitt notuð til að lýsa hinum stafrænu gagnasettum og eru því grundvallarþáttur í tengslum við landupplýsingavinnslu. Fyrir flesta skiptir máli að vita hvað til er af gögnum af þeim svæðum sem verið er að vinna með. Það þarf að vera hægt að sjá á hverju gögnin byggjast og hvernig má nota þau, en þá þarf aðgengið að slíkum upplýsingum að vera gott. Því eru lýsigagnagrunnar og lýsigagnagáttir á netinu mikilvæg fyrirbæri.
Þorvaldur Bragason