Hvað sem segja má um mikilvægi og forgangsröðun landfræðilegra upplýsingaverkefna, þá er forsenda allra slíkra verka áhugi einstaklinga, hvort sem þeir eru starfsmenn stofnana sem vinna slík verkefni innan fjárheimilda, hvort sem þeir eru sjálfstæðir aðilar á markaði eða námsfólk sem vinnur að lokaverkefnum í námi. Í þessum efnum er nauðsynlegur hvati að geta fengið einhvern fjárhagslegan stuðning sem ræður yfirleitt úrslitum um það hvort verkefni verða að veruleika eða ekki.
Landfræðileg upplýsingaverkefni eiga möguleika á fjármögnun gegnum Rannsóknasjóð Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar.
Haraldur Sigurðsson (1908-1995) var merkasti sérfræðingur Íslendinga á sviði kortasögu landsins. Hann skildi eftir sig ómetanlegt ævistarf eins og ritverk hans bera með sér, en hann ritaði meðal annars Kortasögu Íslands frá „öndverðu“ til 1848 sem kom út í tveimur stórum bindum á árunum 1971 og 1978. Rannsóknasjóðurinn var stofnaður af konu hans árið 2008, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Haraldar. Markmiðið sjóðsins er að veita styrki til að efla rannsóknir á korta- og landfræðisögu Íslands og íslenskri bókfræði og stuðla að útgáfu rita um þau efni. Sjóðurinn er rekinn undir hatti Rannís og skipa þriggja manna stjórn hans á hverjum tíma: bókavörður sem sér um kortasafn Landsbókasafns Íslands, stjórnarmaður tilnefndur af líf- og umhverfisvísindadeild verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og vísindamaður tilnefndur af fagráði félags- og hugvísinda hjá Rannsóknasjóði. Umsóknir um styrki úr sjóðnum lúta sömu lögmálum og almennt gerist um sjóði á vegum Rannís. Frá árinu 2009 til 2015 voru styrkir veittir árlega en verða nú á tveggja ára fresti og er næsti umsóknafrestur til 2. maí 2017.
Þegar litið er til þess hverjir hafa hlotið styrki úr sjóðnum á liðnum árum má ætla að styrkirnir skiptist í meginatriðum til helminga á milli verkefna sem tengjast annars vegar kortum og landfræði og hins vegar verkefnum sem tengjast íslenskri bókfræði. Sjóðstjórnin metur og velur úr umsóknum samkvæmt reglum sjóðsins og í reglunum er rakið hvernig matsferli nýrra umsókna er háttað svo og eftirliti með styrktum verkefnum og birtingu niðurstaðna.
Langflest verkefnanna sem hlotið hafa styrki hafa einhvers konar sagnfræðilega skírskotun, enda fer það saman við tilgang sjóðsins. Það hefur hins vegar ekki verið mikið um umsóknir sem tengjast því beinlínis að auðvelda síðar skrif á framhaldi kortasögunnar, einkum þess sem gerðist á 20. öldinni á Íslandi á vegum Íslendinga sjálfra. Þar er af mjög mörgu að taka, enda hefur lítið verið skrifað um einstaka kortaflokka sem unnir hafa verið á þeim tíma, fyrir utan skrif um kortagerð Dana á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar og síðan um innlenda gróðurkortagerð. Það færi vel á því ef sjóðstjórnin fengi fleiri umsóknir á komandi árum um verkefni sem gætu orðið efniviður í ritun og útgáfu framhalds kortasögunnar, enda er af nógu að taka og mörg verkefnanna gætu hentað vel sem lokaverkefni í einhvers konar tengingu í háskólanámi milli fagsviða bókasafns- og upplýsingafræði (nú upplýsingafræði), landfræði og sagnfræði.
Þorvaldur Bragason