Landræn vefverkefni (17)

Möguleikar til að hafa aðgengi að upplýsingum um landræn (landfræðileg) gögn hafa gjörbreyst með netinu. Fjölbreytilegt efni bætist stöðugt við á vefsíðum og í kortasjám, þannig að erfitt getur reynst að hafa yfirsýn yfir nýjustu strauma og stefnur. Til þess að greina meginhópa verkefna á þessu sviði getur verið gagnlegt að horfa á landræn vefverkefni í ljósi fjögurra efnisflokka:

  • Landfræðilegar vefsíður eru margbreytilegur flokkur þar sem hefðbundinn vefhugbúnaður er notaður til að setja fram landfræðilegt efni eða upplýsingar sem hafa landfræðilega skírskotun. Vefsíður í þessum flokki eru til dæmis afritanlegar í vefsafn.is og í Wayback Machine (archive.org), en dæmi um þær eru vefsíður fyrirtækja, samtaka og stofnana sem starfa á sviði landupplýsinga.
  • Landrænir lýsigagnavefir (e. Spatial Metadatabases), eru í raun vefsíður þar sem hægt er að leita að upplýsingum um landræn gögn og gagnasett, en þar hafa upplýsingar í formi lýsigagna verið skráðar í gagnagrunn og settar fram með skipulegum hætti á netinu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Dæmi um slík verkefni hér á landi eru Landlýsing og Landupplýsingagátt LMÍ.
  • Kortasjár (e. Spatial/Geographical Portals) eru tæknilega flóknari vefhugbúnaður, yfirleitt ætlaðar til að birta landræn gögn í þar til gerðum kortaglugga á Netinu ásamt ýmsum öðrum upplýsingum sem tengjast þeim gögnum. Gjarnan er um er að ræða öflugar gagnvirkar lausnir þar sem hægt er að kalla fram fjölbreyttar upplýsingar og skoða í samhengi efni úr ólíkum gagnasettum. Þessi flokkur er mjög fjölbreytilegur og þekktustu erlendu dæmin eru án efa Google Maps og Google Earth. Innanlands er Borgarvefsjá með rótgrónustu vefverkefnum á þessu sviði. Flestar kortasjár á Íslandi byggja á hugbúnaðarlausn Loftmynda ehf. en þær hafa einkum verið unnar fyrir sveitarfélög og stofnanir.
  • Landrænar tenglagáttir, öðru nafni tenglalandgáttir (e. Catalog Geoportals), eru hugsaðar til að veita aðgang að flokkuðum upplýsingum um landfræðileg vefverkefni. Dæmi um slíka vefgátt hér á landi er landakort.is.

Í þessu margbreytilega umhverfi er gagnlegt að geta á einum stað á netinu smellt á efnisflokkaða tengla til að fá yfirlit yfir landfræðilegt efni hér á landi. Landakort.is hefur um nokkurra ára skeið gegnt því hlutverki og stefnt er að því að svo muni verða áfram. Um er að ræða starfsemi á fagsviði sem enginn einn opinber aðili hefur lögbundnu hlutverki að sinna, en er engu að síður mikilvægt og þarft í samfélaginu, eins og komið hefur á daginn í gegnum sögu verkefnisins frá árinu 2007.

Aðgengi að kortasjám og yfirsýn yfir þær skiptir máli, ekki síst vegna þess að kortasjárnar uppfærast reglulega og breytast oft útlitslega á nokkurra ára fresti. Vefslóðirnar geta breyst meðal annars þegar skipt er um hugbúnað eða þegar sveitarfélög skipta um samstarfs- og þjónustuaðila á þessu sviði. Það er því áhyggjuefni út frá sögulegu samhengi, að ekki skuli hafa verið fundnar samræmdar leiðir til að afrita að minnsta kosti útlit kortasjánna og helstu efniskafla þeirra af netinu. Sama má segja um það að engin skrá er til yfir íslenskar kortasjár frá upphafi, en margar þeirra eru aflagðar. Umræður um úrbætur í þessum málum þurfa að tengjast stefnumótun á landsvísu fyrir varðveislu landfræðilegra gagna.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .