Landrænar niðurhalsþjónustur (114)

Niðurhalsþjónustur eru meðal lykilþátta INSPIRE tilskipunarinnar. Þeim er ætlað að veita notendum landfræðilegra gagnasetta og landrænna vefþjónusta aðgang að þeim gögnum sem eru fáanleg og þá er gert ráð fyrir að notkunin og aðgengið að opinberum gögnum sé ókeypis eins og tilskipunin segir til um. Tilskipunin nær fyrst og fremst til opinberra stafrænna landfræðilegra gagna og miðar m.a. að því að minnka tvíverknað í samfélaginu, stuðla að gegnsæi, auka samstarf, bæta samhæfingu og auka samskipti með gögn, en lýsigagnavefir, skoðunarþjónustur og niðurhalsþjónustur þjóna meðal annars þeim tilgangi.

Hér á landi eru nú ýmsir möguleikar til að fá upplýsingar um landræn gagnasett og veflausnir í boði til að hlaða niður landfræðilegum gögnum. Stjórnsýslulega hafa Landmælingar Íslands það hlutverk fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að stýra innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar hér á landi. Stofnunin hefur því byggt upp ýmsar leiðir til að veita aðgengi að lýsigögnum hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum í landinu (Lýsigagnagátt LMÍ), skoðunarþjónustu til að skoða innihald tiltekinna gagnasetta (Landupplýsingagátt) og niðurhalsþjónustu fyrir landfræðileg gögn.

Niðurhalsþjónusta LMÍ veitir aðgang að skrám sem sýna helstu gagnasett Landmælinga Íslands. Til þess að komast inn á síðuna þurfti í upphafi að fá lykilorð hjá stofnuninni en annars eru engar hömlur á niðurhali. Með þessum hætti hefur stofnunin getað fylgst með því hvað mikið er sótt af gögnum og er það umtalsvert magn frá því síðan var opnuð fyrir nokkrum árum. Landmælingar Íslands hafa einnig útbúið sambærilega veflausn fyrir gögn Náttúrufræðistofnunar.

Annar opinber vettvangur hefur verið skapaður fyrir niðurhal opinberra gagna, hvort sem þau eru landfræðileg eða ekki. Það er vefsvæðið opingogn.is, sem rekið er á vegum Þjóðskrár Íslands. Þar er gerð tilraun til að veita opið aðgengi að gögnum stofnana og sveitarfélaga. Opinberir aðilar hafa verið hvattir til að nýta sér þessa upplýsinga- og niðurhalsþjónustu, en hún er enn í þróun. Niðurhal gagna er frjálst öllum og fer ekki fram nein talning á því hve miklu eða hverju er hlaðið niður og stofnanirnar geta því ekki fylgst með því hver er að hlaða niður og nýta gögnin þeirra.

Þriðji hópur niðurhalsþjónusta eru sjálfstæðar niðurhalssíður fyrir vefþjónustur og önnur gögn hjá nokkrum aðilum. Í þessum flokki eru meðal annars niðurhalssíður á vegum landupplýsingakerfis Reykjavíkurborgar (LUKR) og niðurhalssíður tengdar kortasjám sem fyrirtækið Alta hefur til dæmis unnið fyrir Ferðamálastofu og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru því ýmsar leiðir færar til að finna og hlaða niður gögnum. Nánari upplýsingar um slóðir fyrir nokkrar niðurhalssíður má meðal annars finna í gegnum forsíðu landakort.is.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .