Bætt aðgengi að gögnum á ólíkum sviðum samfélagsins einkum gegnum netið leiðir til aukinnar umræðu á öðrum sviðum um betri gögn og bætt aðgengi að þeim. Þessi umræða, til dæmis í tengslum við INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins, á sér stað innan faggreina í ýmsum löndum og á milli landa í samstafsverkefnum. Þar sem fjölþjóðleg verkefni eru skipulögð kemur yfirleitt fjármagn með styrkjum frá „stórveldum“ eins og Evrópusambandinu eða með því að nokkrir aðilar eða lönd leggja saman fjármagn til að vinna verkefnin. Verkefnin geta verið af margvíslegum toga, hvort sem þau eru hreinræktuð gagnaverkefni eða gagnaþátturinn er aðeins hluti af stærra samhengi. Orkustofnun stýrði á nokkurra ára bili viðamiklu Evrópuverkefni á sviði jarðhita „ERA-NET Geothermal“ með þátttöku Rannís og jarðhitatengdra stofnana í sjö öðrum Evrópulöndum. Verkefnið hófst árið 2012 og lauk í október 2016 með skilum á fjölmörgum skýrslum um öll möguleg málefni og margbreytilegar hliðar á þessu sérhæfða fagsviði. Innan verkefnisins var gagnahluti sem yfirleitt var rætt um sem: EGIP – European Geothermal Information Platform.
Upphaflegt markmið með gagnaumræðunni í verkefninu má segja að hafi verið að meta umfang gagnamála á sviði jarðhita og einkum hvernig væri mögulegt að ná fram meiri skilvirkni milli landa bæði í gagnaöflun, gagnaskráningu og gagnamiðlun á netinu. Gerðar voru kannanir sem birtar voru í sérstökum skýrslum og haldnar sjálfstæðar málstofur um gögn á sviði jarðhita. Starf á sviði gagnamála innan verkefnisins þróaðist eftir miðjan starfstímann í að stjórnendur vinnuhópsins á þessu sviði, sem vel að merkja voru ekki íslenskir, vildu útbúa tilraunaverkefni (EGIP – Pilot Project) og nota til þess hugbúnað sem þeir þekktu til. Um þá ráðstöfun voru skiptar skoðanir, en engu að síður var verkefnið unnið. Skrifuð var grein um hugmyndafræðina í ritrýnt tímarit og birt. Það að fara í gegnum reynsluna af gagnasöfnun og gagnamiðlun í verkefninu var mjög athyglisvert fyrir þá sem þátt tóku. Varðandi íslensk gögn kom í ljós að á þeim stutta tíma sem gefinn var þurfti að stytta sér leið til að geta komið inn einhverjum gögnum. Einföld gagnasett voru búin til og sett á vefþjón OS til tilraunabirtingar í EGIP Pilot Project og voru þau jafnframt sett fram á þeim tíma í Orkuvefsjá (enski hluti OVS) og nú í Kortasjá OS. Þetta leiddi hins vegar hugann að gagnafátækt landsins á þeim sviðum sem tilraunaverkefnið byggði á og vekur okkur til umhugsunar um hvað þurfi til þannig að raunhæf verkefni af þessum toga geti virkað vel og skilað gagni bæði innan landa sem og í samstarfi þjóða. Helstu yfirlitsgagnasettin á sviði jarðhita sem þarna voru sett fram voru: „Surface heat flow“, „Temperature at depth 1000 m“ og „Temperature at depth 2000 m“. Til að fá samræmt efni um Ísland var unnið út frá kortabókinni „Geothermal Atlas“ frá Evrópusambandinu, útgefið árið 2002 í mælikvarða 1:10 000 000, sem er eins og allir vita mjög lítill mælikvarði og gefur ónákvæmar upplýsingar.
Reynslan af EGIP Pilot Project leiddi til þess að á síðasta starfsári ERA-NET Geothermal var komið á fót fjölþjóðlegum vinnuhópi sem skyldi greina stöðuna, meta reynsluna af vinnu í gagnaverkefnunum og skila um það skýrslu fyrir lok verkefnisins. Þar skyldi sérstaklega skoðað hvað þyrfti að koma til ef kortasjá með samhæfðum gagnasettum ásamt viðeigandi lýsigögnum og gagnagrunni með öðrum jarðhitatengdum upplýsingum ættu að verða að raunveruleika. Undirritaður var í fimm manna hópi sem greindi stöðuna og vann skýrsluna.
Meginniðurstaða skýrslunnar er að ef skoðuð eru öll þau gagnasett sem óskir eru um að verði til og aðgengileg í slíkri kortasjá og gagnagrunni, þá þurfi að byggja þau á fjölþjóðlegum stöðlum. Slíkir staðlar eru hins vegar ekki til fyrir neitt þeirra gagnasetta á sviði jarðhita sem þarf að vinna. Þeir eru ekki heldur til í tæknilýsingunum 34 sem tengjast INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins um stafrænar landupplýsingar. Þar sem tæknilýsingarnar og staðlarnir eru skástir til notkunar á þessu sviði vantar í þá veigamikla efnisþætti. Til þess að leiða umræðuna á skilgreinda braut var saminn sérstakur viðauki við skýrsluna. Þar kemur fram tafla fyrir öll möguleg gagnasett á sviði jarðhita sem komið höfðu óskir um í könnununum fyrr í verkefninu að þyrftu að vera til. Í töflunni er skráð tilvísun á það hvar væri eitthvað í INSPIRE tæknilýsingunum sem tengdist viðkomandi gagnasetti á sviði jarðhita.
Það liggur fyrir að setja þyrfti upp sérstaka staðlanefnd eða nefndir skipaðar sérfræðingum frá helstu löndum sem eiga og nýta jarðhita í Evrópu. Slík nefnd eða nefndir myndu byggja á þeim grunni að töflum sem hægt væri að byggja á og semja staðla frá grunni sem fylgja hugmyndafræði INSPIRE.
Þetta dæmi sýnir okkur að þó INSPIRE tilskipunin og tæknilýsingar eða staðlar henni tengdir hafi verið samdir af færustu sérfræðingum á hverju sérsviði sem þar er lagt til grundvallar, þá eru til sérhæfðar fræðigreinar eins og jarðhiti sem hafa orðið útundan í þeirri miklu og gagnlegu vinnu sem fram hefur farið. Umgjörð INSPIRE er stórkostlegt tækifæri fyrir allar Evrópuþjóðir til að ná meiri árangri í skipulagi landupplýsingamála, samstarfi um samræmingu gagna, uppbyggingu og gagnavinnslu landfræðilegra gagna. Það á ekki síst við hér á landi. Hins vegar er ljóst að fræðisvið sem er svo öflugt sem raun ber vitni hér á landi samanborið við önnur lönd, hefur ekki verið í neins konar forgangi við útfærslu staðla og tæknilýsinga í áðurnefndri Evróputilskipunin. Þetta er örugglega ekki heldur eina sviðið. Hér er verk að vinna, skýrslan leggur línuna um næstu skref. Þó að mikið sé til af jarðhitagögnum á Íslandi vantar betri samræmda gagnagrunna og ítarlegri landfræðileg gagnasett á sviði jarðhita sem hægt er að birta opinberlega í fjölþjóðlegum verkefnum á netinu.
Þorvaldur Bragason