Landrænn rammi í gagnaleit (98)

Í lýsigagnastöðlum kemur fram hugtakið „Geographic bounding box“ sem hefur stundum verið nefnt „landrænn rammi“ á íslensku. Þeirri þýðingu hefur á einhvern hátt verið ætlað að vera lýsandi, en hugsanlega eru til betri lausnir. Hugtakið „bounding box“ kemur reyndar einnig fyrir á mörgum öðrum sviðum. Fyrir landræn gögn er um að ræða afmörkun svæðis á skjá, inn á korti, loftmynd, gervitunglamynd eða í öðru gagnasetti, með ferhyrndum ramma sem snertir ystu mörk svæðis. Þannig má með einföldum hætti búa til reit út frá staðsetningu sem gefur möguleika á leit eftir svæðum út frá hnitum sem ramminn gefur í þar til gerðum hugbúnaði eða samkvæmt afmörkun með lengdar- og breiddarbaugum. Ramminn er þó sjaldnast að sýna „að öllu leyti rétt svæði“, en hann sýnir oft í raun aðeins of stórt svæði miðað við það sem verið er að skrá, þar sem ekki er mögulegt að snúa honum. Varpanir korta, stefna fluglína í loftmyndatöku, snúningur gervitunglagagna miðað við sporbauginn og óregluleg þekja svæða á kortum eða annars konar landrænum gagnasettum koma í veg fyrir að allt geti fallið fullkomlega saman. Skekkjan er þó mis mikil og almennt talið betra að fá of stórt svæði fram við leit að gögnum í kortasjá en of lítið.

„Geographic bounding box“ kemur fyrir í Dublin Core lýsigagnasniðinu (DCMI Bounding box), ISO 19115 Core Metadata og INSPIRE Metadata Core, þar sem í öllum tilfellum er gert ráð fyrir framsetningu staðsetningar lengdar og breiddarbauga í landfræðilegum hnitum. Það eru því ekki gefin upp nákvæm hornhnit, sem myndi leiða til þess að taka þyrfti fram flóknari staðsetningarhnit (sem gæfi hins vegar réttari ramma). Þessi afmörkun á rammanum miðað við lengdar- og breiddarbauga gerir það hins vegar að verkum að mjög stór svæði sem gögn eða kort þekja ekki geta fallið innan rammans. Það á til dæmis við um afmörkun margra gagnasetta með óreglulegum mörkum. Sem dæmi um slíkt má nefna landupplýsingagögn af stjórnsýslusvæðum.

Meðan finna þurfti landræna rammann handvirkt var vinnan við það mjög tímafrek, en með nýjum verkfærum á netinu gjörbreyttist allt í slíkri gagnaöflun. Fyrirtækið „Klokan“ kynnti til dæmis fyrir nokkrum árum til leiks ókeypis hugbúnað á netinu til að afmarka landrænan ramma (Geographic Bounding Box).  Gildin eru einfaldlega fundin með því að opna yfirlitskort eða gervitunglamynd í búnaðinum, þysja að svæðinu sem kortið eða gagnasettið sýnir og afmarka kassa utan um ystu brúnir svæðisins sem um er að ræða. Hægt er að velja framsetningu með 10 mismunandi leiðum, þar á meðal samkvæmt, stöðlum eins og MARC, FGDC, ISO 19139 og Dublin Core. Þá má jafnframt velja á milli átta mismunandi grunnkorta. Þegar búið er að afrita hnitin eru þau „límd“ inn í skrár þar sem hægt er að nota þau síðar og gera leitarbær.

Í nýjum alþjóðlegum skráningarreglum fyrir bókasöfn RDA (Resource Description and Access) sem koma í stað eldri skráningarreglna AACR2, hefur verið fjallað sérstaklega um kortagögn og í ritinu „RDA – Resource description & access and cartographic resources“ er farið sérstaklega yfir reglurnar um kortaskráningu í smáatriðum. Í kortaskráningarhluta reglnanna er gert ráð fyrir skráningu landræns ramma fyrir kortaskrár bókasafna. Skrár Landsbókasafns hafa hingað til ekki haft slíkar upplýsingar, en nú verður væntanlega breyting á með hinum nýju reglum sem tekið hafa gildi hér á landi eins og í öðrum löndum. Þeir alþjóðlegu aðilar sem standa að innleiðingu reglnanna fyrir kortagögn hafa mælt með að nota nethugbúnað Klokan í þessum tilgangi. Orkustofnun hefur um nokkurt skeið notað þennan þátt í skráningu upplýsinga um landfræðilega afmörkun sinna gagnasafna og sett í lýsigagnagrunn á vegum stofnunarinnar.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .