Landsverkefni um kortaskrá og kortavefsjá (49)

Það er mikilvægt fyrir notendur korta að geta leitað í góðum samræmdum kortaskrám á Netinu auk þess að geta fundið kort eftir kortblaðaskiptingum í kortasjám. Einungis þannig er mögulegt að tryggja að þeir sem þurfa að nota kort geti verið vissir um að finna allt kortaefni sem unnið hefur verið af tilteknum landsvæðum. Verkefni á þessu sviði þurfa því að ná til alls kortaefnis sem orðið hefur til í landinu þannig að finna megi hvaða kort eru til, hvers eðlis þau eru, hver gerði þau, hvaða svæði þau sýna og hvernig megi skoða þau eða komast yfir afrit af þeim, hvort sem þau eru til stafræn eða ekki.

Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands bera lögum samkvæmt ábyrgð á varðveislu menningararfsins á þessu sviði, sem felur í sér ábyrgð á varðveislu landfræðilegra gagna. Söfnin sinna því hvort á sinn hátt samkvæmt lögum. Það er hins vegar vandamál að eðli og formbirting korta hefur þróast hratt, meðan að söfnin eru bundin af gamaldags skilgreiningum í lögum á því sem telst annars vegar útgefið, en þar er yfirleitt verið að fjalla um kort prentuð í prentsmiðju, og hins vegar óútgefið, sem er þá efni sem skilgreint er sem skjöl og getur verið allt frá filmum yfir í útprentanir og pappírshandrit. Þjóðskjalasafn skráir hins vegar ekki kort, heldur tekur einungis við fullskráðum skjalasöfnum, þar á meðal kortasöfnum frá stofnunum. Stafrænir kortagrunnar og gagnasett eru venjulega ekki með í þessari umræðu, þó þar hafi verið mestur vöxtur á liðnum árum. Söfnin hafa horft mjög til varðveisluþáttarins í hefðbundnum skjölum og útgáfum, en Íslandskortavefur Landsbókasafns er afar gagnlegt verkefni þar sem aðgengi að miklum fróðleik um eldri kort er miðlað á Netinu.

En hvað þarf að bæta? Í stuttu máli þarf einhvers konar leitarvefsíðu fyrir íslensk kort, sem byggir á sambærilegri nálgun og Gegnir.is. Íslensk kortaskrá á Netinu þyrfti að byggja á slíkri hugmyndafræði fyrir kort, þar sem leita mætti í skrá allra korta af Íslandi, hvers eðlis og hverrar gerðar sem þau væru (útgefin/óútgefin) og hvar sem þau væru varðveitt. Skrá íslenskra korta í Landsbókasafni þyrfti að vera grunnurinn að slíkri skrá, sem þarf væntanlega að varpa milli kerfa í samræmi við nýjan skráningarstaðal RDA (Resource description & access, and cartographic resources), en í núverandi skrá safnsins vantar almennt afmörkun kortblaða með staðsetningarhnitum.

Kortavefsjá með blaðskiptingum allra helstu kortaflokka á Íslandi þyrfti einnig að verða til, þannig að leita mætti að útgefnum sem óútgefnum kortum eftir reitum og afmörkuðum landsvæðum. Dæmi um slíka framsetningu hér á landi hefur mátt finna í kortasjám Orkustofnunar, en sem dæmi um erlendan hugbúnað fyrir verkefni á þessu sviði sem ná til margra landa má nefna CartoMundi í Frakklandi og Old Maps Online í Bretlandi.

Mikilvægt er að horfa til framtíðar og styðja það að söfnin vinni meira saman á þessu sviði en hingað til og stuðla að því að þau geti unnið að uppsetningu á nýjum miðlægum veflausnum fyrir kort. Fyrrnefnd verkefni; (a) leitarbær gagnagrunnur á Netinu yfir öll íslensk kort og (b) íslensk kortavefsjá, eiga þó líklega enn töluvert í land með að verða að veruleika. Í millitíðinni þarf að vinna markvisst að skráningu og söguritun um íslenska kortaflokka, því upplýsingar um kort og kortasöfn koma frá fleiri aðilum en höfuðsöfnunum tveimur, þ.e.a.s. opinberum stofnunum sem vinna með kort og aðrar landupplýsingar og síðan sveitarfélögum. Vaxandi fjöldi korta og annarra gagnasafna verður síðan einnig til hjá fyrirtækjum á markaði.

Lýsigagnagrunnar og birtingarmynd þeirra á Netinu hafa verið til fyrir stafræn landræn gagnasett hér á landi (Landlýsing og Landupplýsingagátt), en þau verkefni hafa haft skýrt tæknilegt hlutverk og eru ekki hugsuð til að birta upplýsingar í tengslum við skráningu og varðveislu eldri korta sem til eru á pappír og filmum. Tryggja verður gott aðgengi á Netinu að upplýsingum um það efni sem felst í íslenskum kortum. Til að það komist á verður að vera til opinber stefna í varðveislumálum landfræðilegra gagna.

Tilraunaverkefni um Kortavefsjá 1:25 000 – Nánari upplýsingar

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...