Með tilkomu hugmyndafræði grunngerðar landupplýsinga (Spatial Data Infrastructure) og INSPIRE verkefnis Evrópusambandsins sem nær jafnframt til allra landa á evrópska efnahagssvæðinu er skráning og birting lýsigagna lykilþáttur í gagnaaðgengi. Í þessu samhengi var árið 2012 opnaður hér á landi nýr lýsigagnavefur, Landupplýsingagátt, á vegum Landmælinga Íslands í samræmi við lög nr. 44/2011 um stafrænar landupplýsingar á Íslandi. Hugbúnaðurinn er frá bandaríska fyrirtækinu ESRI, framleiðanda ArcInfo hugbúnaðarins og byggir einkum á lýsigagnastöðlunum ISO 19115 og ISO 19139. Þar er gert ráð fyrir skráningu lýsigagna fyrir gagnasett frá stofnunum og sveitarfélögum, sem falla undir hugmyndafræði INSPIRE. Með lagasetningunni er fært í lög að Landmælingar Íslands skuli reka og sjá um lýsigagnagátt á sviði landupplýsinga. Landupplýsingagátt er ætlað að vera einföld og þægileg veflausn til að skrá og deila upplýsingum um gagnasöfn sem tengjast landupplýsingum um Ísland. Þessi verkþáttur við innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar er eitt af fyrstu atriðunum sem uppfylla þarf samkvæmt tímasettri verkáætlun þar um.
Þegar þetta er skrifað (apríl 2016) eru skráningar í gáttina 129 frá um 20 stofnunum og sveitarfélögum. Hægt er að skrá inn lýsigögn með tvennum hætti: a) færa lýsigögn beint inn úr ArcInfo, b) slá lýsigögn handvirkt í innsláttarvalmynd búnaðarins. Innsláttarformið byggir á alþjóðlegum lýsigagnastöðlum og hefur það meðal annars verið þýtt á íslensku. Eftir yfirferð innfærðra gagna eru þau birt á netinu og gerð leitarbær. Leitarþátturinn er hins vegar enn veikur hlekkur í leit að upplýsingum í gáttinni.
Hugbúnaðurinn hefur margvíslega kosti og áhugaverða virkni og er uppsetning hans samkvæmt alþjóðlegum lýsigagnastöðlum. Slíkt gefur möguleika á að streyma lýsigögnum úr landupplýsingakerfum stofnana og sveitarfélaga, en jafnframt möguleika á að streyma lýsigögnum út úr kerfinu, til dæmis inn í INSPIRE Geoportal, þar sem yfirfærðar lýsigagnafærslur frá Íslandi eru nú aðgengilegar í lýsigagnavef Evrópusambandsins á birtingarformi þess búnaðar.
Landmælingar Íslands völdu núverandi hugbúnað fram yfir búnað sem Norðurlandaþjóðirnar hafa þróað í sameiningu og notað fyrir birtingu sinna lýsigagna í tengslum við INSPIRE. Starfsmenn LMÍ hafa sagt frá því að endurskoðun á hugbúnaðarmálum fyrir Landupplýsingagátt sé til skoðunar. Ef slíkt verður raunin er mikilvægt að huga vel að betri möguleikum til leitar að völdu efni, auk þess að tryggja áðurnefnda möguleika á streymi lýsigagnafærslna inn og út úr kerfinu.
Landupplýsingar eru flókið samspil margbreytilegra þátta sem ná til allra gerða, tegunda og efnisflokka landfræðilegra gagna. Landræn lýsigögn eru grundvöllur undir skipulega notkun og aðgengi að slíkum upplýsingum. Undirbúningur að innleiðingu hugmyndafræði um grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi fór á skrið með stofnun LÍSU samtakanna 1994. Með stöðugri vinnu og kynningu á vegum samtakanna og Landmælinga Íslands í samstarfi stofnana og sveitarfélaga og gegnum kerfisbundna framsetningu upplýsinga í Landlýsingu forvera Landupplýsingagáttarinnar, var lagður grunnur að verðmætri þekkingu og heimildum um landfræðileg gagnasöfn á Íslandi og þróun þeirra. Þrátt fyrir að kominn sé nýr landrænn lýsigagnavefur á Íslandi þarf áfram að vera mögulegt að skoða efni Landlýsingar á netinu, enda viðheldur hin nýja Landupplýsingagátt ekki gagnasögu hinna ýmsu gagnasetta. Slíkar upplýsingar þarf hver stofnun hins vegar að halda utan um fyrir sín eigin gögn. Eftir lokun Landlýsingar er aðeins mögulegt að skoða efni gáttarinnar samkvæmt eldri slóð (landlysing.lmi.is) á vefsafn.is og á Interactive Wayback Machine (http://archive.org/web/web.php).
Þorvaldur Bragason