LÍSA – Samtök um landupplýsingar á Íslandi (12)

Samtök um landupplýsingar á Íslandi – LÍSA, voru stofnuð 24. mars 1994, í kjölfar tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins á sviði kortagerðar og stafrænna landupplýsinga. Unnið hafði verið að tilraunaverkefninu á tímabilinu 1991-1993 í ýmsum vinnunefndum á vegum fjölda stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja. Umhverfisráðuneytið beitti sér fyrir stofnun samtakanna með starfi sérstakrar undirbúningsnefndar, en samtökunum var ætlað að vera samstarfsvettvangur á sviði landfræðilegra gagnasafna og upplýsingakerfa, sem í raun var liður í að koma á grunngerð landupplýsinga hér á landi. Samtökin hafa verið fjármögnuð með aðildargjöldum félagsmanna og tekjum af eigin starfsemi, þ.e. af fundum, námskeiðum og ráðstefnum. Framkvæmdastjóri og eini starfsmaður LÍSU frá stofnun hefur verið Þorbjörg Kr. Kjartansdóttir, sem hefur gegnt lykilhlutverki í starfi samtakanna frá upphafi. Hún hefur haldið utan um rekstur og innra starf, meðal annars séð um ritun fundargerða vinnunefnda, tekið þátt í erlendu samstarfi fyrir Íslands hönd og leitt starfið í umboði kjörinnar stjórnar, sem í sitja nú sjö stjórnarmenn.

Eins og fram hefur komið á vefsíðu samtakanna, áður (http://www.rvk.is/lisa/) nú (www.landupplysingar.is) voru samtökunum ætluð margvísleg verkefni sem miðuðu einkum að því að efla samstarf milli þeirra sem vinna með landupplýsingar og stuðla að samnýtingu gagna, aukinni notkun og meiri útbreiðslu landupplýsinga í almannaþágu. Markmiðið var að koma á vinnureglum um samskipti og gagnaflutninga, stuðla að tæknilegri samræmingu, vinna að mótun staðla, stuðla að skilgreiningu eigna- og höfundarréttar á stafrænum gögnum, sjá til þess að gögn yrðu aðgengileg og afnotaréttur gagna tryggður. Þá var talið mikilvægt að  gæta hagsmuna Íslands í alþjóðasamstarfi, vinna að kynningar- og fræðslumálum, vera vettvangur fyrir félagsmenn til umræðna og skoðanaskipta. Aðilar að LÍSU samtökunum eru opinberar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki sem starfa á sviði landupplýsinga og voru aðilar að samtökunum um 60 þegar flest var. Nokkrar stofnanir og sveitarfélög hafa skipst á að hýsa skrifstofu samtakanna og hefur það oftast verið í 3-5 ár í senn. Skrifstofan er nú hýst hjá Veðurstofu Íslands.

Starfsemi LÍSU hefur í grunninn byggst á starfi nokkurra vinnunefnda: orðanefndar, samskipta- og staðlanefndar, lýsigagnanefndar (um tíma nefnd fagráð Landlýsingar), varðveislunefndar, menntanefndar og fleiri nefnda sem hafa starfað tímabundið. Nefndirnar hafa meðal annars skilað af sér mikilvægum verkefnum eins og Orðalista LÍSU, lýsigagnavefnum Landlýsingu og landupplýsingastaðlinum ÍST 120. Þá hafa samtökin um langt árabil haldið veglegar og vel sóttar haustráðstefnur, námskeið og fræðslu- og umræðufundi. Þá hafa á fimm ára fresti verið haldnar á vegum samtakanna hér á landi norrænar landupplýsingaráðstefnur í tengslum við GI Norden. Samtökin hafa unnið afar mikilvægt starf við að kynna notagildi landupplýsinga í samfélaginu og sem sameiginlegur vettvangur fagaðila hafa þau verið í lykilstöðu við að tengja saman starf og hugmyndir þeirra sem vinna á þessu sviði hér á landi.

Með tilkomu INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins sem sett var í lög á Íslandi 2011 (lög nr. 44/2011), fól umhverfis- og auðlindaráðuneytið Landmælingum Íslands að vinna í umboði ráðuneytisins að nokkrum verkefnum sem LÍSA hafði áður beitt sér fyrir og unnið að. Frumkvæðið í innleiðingu grunngerðar landupplýsinga hér á landi færðist um leið frá áhugamannasamtökum þar sem fulltrúar aðildarstofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja unnu í vinnutíma með leyfi sinna vinnuveitenda eða í sjálfboðavinnu að skilgreindum verkefnum í sameiginlegri þágu margra á sviði landupplýsinga, yfir í að vera á hendi einnar stofnunar sem starfaði á vegum síns ráðuneytis samkvæmt lögum. Þetta hefur haft umtalsverð áhrif á áherslur LÍSU samtakanna, þar sem búið er að taka yfir nokkur af upphaflegum verkefnum.  Samtökin ættu hins vegar að hafa næg verkefni á næstu árum og ljóst er að þau hafa eftir sem áður mikilvægt fræðslu-, samræmingar- og tengslahlutverk, þó þau hafi verið sein að bregðast við breyttri stöðu og leggja upp með nýja framtíðarsýn. Enn er ýmislegt óunnið í þágu upphaflegra markmiða sem og í tengslum við tæknibreytingar og ný sjónarmið á sviði landupplýsinga, sem falla ekki sérstaklega undir þau verkefni sem færð hafa verið til í kerfinu með lagasetningum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .