Ljósmyndir úr flugi yfir Íslandi 1919-1937 (56)

Þegar ljósmyndatæknin tók að þróast undir miðja nítjándu öldina leið ekki á löngu þar til fyrstu ljósmyndir voru teknar úr loftbelgjum, en fyrst slíkra ljósmynda er talin tekin úr lofti nálægt París í Frakklandi 1858. Elsta þekkta ljósmynd af þessu tagi sem varðveist hefur er hins vegar talin tekin yfir Boston í Bandaríkjunum árið 1860. Taka ljósmynda frá loftskipum kom síðar og myndataka úr flugvélum fór fram fljótlega eftir fyrsta flugið árið 1903. Loftmyndatökutæknin þróaðist nokkuð í fyrri heimsstyrjöldinni, en það er síðan ekki fyrr en á millistríðsárunum sem tækni fyrir töku mynda með yfirgripi vegna kortagerðar fór að þróast fyrir alvöru. Gera þarf greinarmun á þessu tvennu, þ.e. venjulegum ljósmyndum og svo loftmyndum til skoðunar í þrívídd vegna kortagerðar, en fyrstu myndirnar þeirrar gerðar, sem flestar voru skámyndir vegna kortagerðarverkefnis voru ekki teknar á Íslandi fyrr en árið 1937. Sumir hafa gert greinarmun í orðræðu á þessu tvennu með því að nefna þær fyrrnefndu loftljósmyndir og þær síðarnefndu loftmyndir.

Fyrstu ljósmyndina sem tekin var úr flugvél á Íslandi er talið að Magnús Ólafsson hafi tekið yfir Vatnsmýrinni og Tjörninni í Reykjavík í september 1919, þegar fyrsta flugvélin flaug hér á landi. Árið eftir tók Loftur Guðmundsson myndir úr flugvél yfir Reykjavík og voru nokkrar þeirra meðal annars gefnar út á póstkortum. Ekki er síðan vitað um myndatöku úr flugvélum fyrr en árið 1928, en fram til ársins 1931 voru teknar ljósmyndir úr flugvélum Flugfélags Íslands víða um land, en þó mest yfir Reykjavík. Flugvélarnar fluttu marga farþega á þessum árum og gætu því hafa verið teknar einhverjar ljósmyndir sem ekki hafa birst opinberlega.

Árin 1930 og 1931 kom loftskipið Graf Zeppelin hingað til lands og úr því voru teknar myndir að minnsta kosti sunnan Vatnajökuls og yfir Reykjavík. Ýmsir erlendir flugleiðangrar komu síðan við á Íslandi á árunum fram að seinni heimsstyrjöld og frá þeim komu ýmsar myndir, sem hafa birst á prenti.

Í ritverkinu Annálar íslenskra flugmála, eftir Arngrím Sigurðsson eru birtir tugir ljósmynda sem teknar voru yfir Íslandi á þessu tímabili og eru þær merkileg heimild. Ekki er vitað til að gerð hafi verið eða birt sérstök heildarskrá yfir ljósmyndir sem teknar voru yfir landinu á fyrstu tveimur áratugum flugs hér á landi, en einhverjar þeirra má þó finna í myndasöfnum á netinu. Víða erlendis eru til mjög áhugaverðir ljósmyndavefir sem veita aðgang að slíku myndefni. Það væri gagnlegt fyrir marga að geta skoðað myndir þessarar gerðar á vefsíðu íslensks ljósmyndasafns í náinni framtíð.

Á næstu vikum verða birtir pistlar hér á landakort.is þar sem fjallað verður um nokkra af elstu loftmyndaflokkum á Íslandi, þ.e. fram til þess tíma er Íslendingar hófu sjálfir loftmyndatöku vegna kortagerðar árið 1950.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .