Í orrustunni um Atlantshafið í heimsstyrjöldinni síðari var töluvert um veðurflug þýskra flugvéla yfir Íslandi. Heimildir um þessar flugferðir koma meðal annars fram í bók um þessi málefni þar sem lýst er slíku flugi meðal annars yfir Íslandi. Í dagbókum hernámsyfirvalda frá stríðasárunum á Íslandi er oft getið um óþekktar flugvélar sem sáust á flugi yfir landinu. Þar hafa í einhverjum tilfellum verið veðurflugmenn á ferðinni en í öðrum tilfellum hefur verið um njósnamyndatökur að ræða, eins og GX loftmyndir Þjóðverja eru dæmi um.
Ljósmyndir sem sanna þessa starfsemi hafa ekki endilega verið birtar víða í bókum. Hins vegar eignaðist loftmyndasafn Landmælinga Íslands ljósmyndir af þessu tagi á níunda áratug síðustu aldar. Það gerðist í gegnum vinnu í tengslum við leit að gömlum loftmyndum af Íslandi. Aðili sem aðstoðaði stofnunina í þessum efnum komst í samband við klúbb eldri flugmanna í Þýskalandi sem höfðu verið saman í flugsveit í seinni heimsstyrjöldinni. Nokkrir þeirra áttu myndir sem þeir höfðu tekið í flugi yfir Íslandi og fékkst leyfi til að taka afrit af myndunum til varðveislu í loftmyndasafni LMÍ. Myndirnar hafa e.t.v. ekki mikið gildi sem heimildir um landið, en þær eru til sannindamerkis um þessa starfsemi sem var talin mjög mikilvæg meðal annars fyrir kafbátahernað Þjóðverja í kringum Ísland á ákveðnu tímabili í stríðinu.
Loftmyndasafn LMÍ hefur ekki komið þessum myndum sérstaklega á framfæri hingað til þó þær hafi verið til í skjalageymslu stofnunarinnar. Það væri án efa áhugavert fyrir eitthvert ljósmyndasafnið að fá afrit af þessum myndum þannig að skrá mætti upplýsingar um þær ásamt eldri ljósmyndum sem teknar voru úr flugi yfir Íslandi á fyrstu þremur áratugum þess 1919-1949. Þær mætti svo gera aðgengilegar á netinu sem kaflann um þekktar ljósmyndir úr flugi á Íslandi. Eftir það, eða árið 1950, hófu Íslendingar sjálfir að taka loftmyndir með kerfisbundnum hætti með kortagerð í huga, þar sem hægt var að skoða allar myndir í þrívídd. Að vísu skarast nokkrir myndaflokkar loftmynda við þennan myndatökutíma eins og áður hefur komið fram. Skráning venjulegra ljósmynda sem teknar voru úr flugvélum lýtur allt öðrum lögmálum en áðurnefnd myndataka vegna kortagerðar. Venjulegar ljósmyndir teknar úr flugvélum yfir Íslandi eru margar mjög merkilegar og geta nýst á ýmsan hátt. Þær eiga að mínu mati að skoðast sem sérstakur kafli í þessari merkilegu sögu myndatöku úr flugvélum á fyrri hluta 20. aldar og verðskulda sérstaka vefsíðu eða a.m.k. sjálfstæðan kafla í vefframsetningu einhvers af núverandi myndasöfnum landsins.
Þorvaldur Bragason