Loftmyndamarkaðurinn eftir aldamótin (102)

Með tilkynningu Loftmynda ehf. haustið 2007 um nýja heildarmynd af Íslandi sem byggði á loftmyndum, eftir áratugarlanga myndatöku, urðu tímamót í sögu loftmynda og landupplýsingavinnslu hér á landi. Þar með var fram komin samsett upprétt litmynd af öllu landinu (utan Vatnajökuls) í mikilli upplausn (0.1 – 0,5 metrar), sem bauð upp á mikla og fjölbreytta notkunarmöguleika. Þetta voru einnig athyglisverð tímamót að því leyti að fyrirtæki á markaði hafði skapað sér afgerandi sérstöðu, sem átti á nokkrum árum eftir að breyta ýmsu í landslagi kortagerðar og annarra landupplýsinga á Íslandi.

Staðan á markaðnum á þessum tíma var þannig að nokkrum árum fyrr (árið 2000) hafði verið tekin stjórnvaldsleg ákvörðun í stjórn Landmælinga og umhverfisráðuneytinu um að Landmælingar Íslands skyldu hætta loftmyndatöku, en myndatakan og ljósmyndastofurekstur áttu á þeim tíma hálfrar aldar sögu innan stofnunarinnar. Landmælingar héldu hins vegar áfram að reka ljósmyndaþjónustu fyrir notendur vegna eldri myndakosts. Þá hafði fyrirtækið Samsýn ehf hafið loftmyndatöku sumarið 2000, en þar var markmiðið ekki endilega að taka loftmyndir af öllu landinu heldur mikilvægum landsvæðum bæði vegna eigin starfsemi og vegna verkefna sem fyrirtækið vann í samstarfi við stóra viðskiptavini á sviði landupplýsinga. Þarna var því orðinn til samkeppnismarkaður í einkageiranum á sviði sem hið opinbera hafði verið dregið út af.

Fram að þessu höfðu Landmælingar Íslands tekið loftmyndir af landinu og rekið sérhæfða ljósmyndastofu, hina einu sinnar tegundar hérlendis, en þar fengust afrit, snertimyndir og allt upp í mjög stórar stækkanir á filmum eða ljósmyndapappír. Eftir flutning Landmælinga á Akranes hafði stofnunin verið færð frá stærsta markaðnum, en það tók nokkur ár að vinda ofan af filmuvinnslu og koma á hágæða skönnun myndasafnsins, sem var orðin krafa markaðarins eftir mikla þróun í landupplýsingatækni og stafrænni kortagerð. Loftmyndamarkaðurinn með eftirgerð mynda úr loftmyndasöfnum hafði því á svipuðum tíma hætt að vera fyrst og fremst filmu og pappírsdrifinn og orðið stafrænn.

Árið 2005 urðu einnig þær breytingar að Samsýn hóf að taka stafrænar loftmyndir (ekki lengur tekið á filmu), en það skapaði einnig nýja kosti og fleiri tækifæri. Til dæmis var út frá hluta gagnanna mögulegt að búa til bæði litmyndir og innrauðar litmyndir eftir því sem þörf var á, sem skipti verulegu máli meðal annars fyrir gróðurrannsóknir. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á að þjóna stórum viðskiptavinum á fjölbreyttu sviði landupplýsingavinnslu, m.a loftmyndaþjónustu fyrir hluta landsins, en jafnframt byggt upp margvíslega stafræna kortgrunna.

Sumarið 2017 hætti fyrirtækið Loftmyndir ehf að taka loftmyndir á filmur og tekur nú eingöngu stafrænar loftmyndir og náði það sumar að mynda stærri landsvæði en nokkurn tíma áður á einu sumri. Þar með er loftmyndatöku á filmur að öllum líkindum hætt hérlendis.

Loftmyndasöfnin þrjú eru öll mikilvæg hvert á sinn hátt. Landmælingar Íslands geyma loftmyndir sem eru ómetanlegar til að bera saman landbreytingar á yfir 60 ára tímabili (1937-2000). Stærstur hluti myndanna er svart/hvítur meðan loftmyndir hinna safnanna eru litmyndir. Myndasafn Samsýnar hafði einnig á sínum tíma ákveðna sérstöðu með stafrænu myndatökunni. Sú sérstaða minnkar eftir því sem Loftmyndir ehf taka stafrænar loftmyndir af stærri svæðum. Samkeppnismarkaður hefur því myndast milli Samsýnar og Loftmynda ehf. Með tilkomu heildarmyndar Loftmynda ehf árið 2007 varð smám saman til nýtt markaðsmódel hjá fyrirtækinu. Hægt var að fá uppréttar stakar stafrænar loftmyndir eða stærri landshluta  og svo landið allt. Með uppsetningu stafrænu heildarmyndarinnar á vefþjóni skapaðist tækifæri til að vinna með hana í landupplýsingakerfum ýmissa aðila og einnig að byggja upp starfsemi kringum kortasjár á netinu sem fjölmörg sveitarfélög og stofnanir hafa nýtt sér. Samræming þeirrar starfsemi í hugbúnaðarlausn í tengslum við map.is hefur náð fótfestu á markaðnum, sem sá búnaður sem flestir nota.

Viðskiptamódelið hefur fært fyrirtækinu fjölda nýrra viðskiptavina sem margir eru bæði áskrifendur að loftmyndagrunni vegna innri landupplýsingavinnslu hjá hverjum og einum, en hefur einnig gert smærri sem stærri aðilum kleift að fá sérsniðnar kortasjár m.a. með hágæða myndgrunn og stafræn kort sem undirlag. Þar sem margir viðskiptavinir hafa hag af því að nýta efni hvers annars hefur jafnframt verið boðið upp á að setja upp kortasjár þar sem hægt er að birta gagnasett margra ólíkra aðila í sömu kortasjánni, hvort sem er í innri kortasjám eða í opinni birtingu á netinu. Þar þarf aðeins samkomulag aðila um hagnýtingu og/eða birtingu gagna hvers annars og samlegðaráhrifin geta verið mikil.

Þrátt fyrir mikilvægi myndgrunnsins kemur hann alls ekki að öllu leyti í staðinn fyrir upphaflegu loftmyndirnar sem hann er meðal annars gerður úr. Grunnurinn er gerður úr loftmyndum með yfirgripi og hliðarskörun sem eru „klipptar“ saman og mynda þannig eina heild. Það er hins vegar mikið myndefni sem ekki nýtist í þessu sambandi og eldri myndum sem geyma miklar heimildir er skipt út fyrir nýjar. Þegar þarf að vita nákvæmlega um tímasetningu myndatöku, til dæmis þegar verið er að rannsaka breytingar á landi sem skipta máli í ýmsum rannsóknum eða landamerkjamálum svo eitthvað sé nefnt, verður að nýta frumgögnin. Í birtingarmynd heildarmyndarinnar á netinu er í map.is hægt að sjá ártalið eða ártölin sem myndatakan er frá. Þá er auðvitað eðli málsins samkvæmt sýnilegt á mörgum stöðum að samskeyti milli mynda eru nokkuð skörp, enda viðamikið verkefni að koma á birtujöfnun milli mynda eins og gert var við heildarmyndir eftir Landsat TM gervitunglagögn af landinu á sínum tíma. Kortasjár eins og Loftmyndir ehf hafa komið upp fyrir aðgengi að eldri myndakosti, leysa hins vegar aðgengismál eldri myndakosts fyrir marga. Tækifærin til nýtingar loftmyndgagna eru ómæld. Þetta hefur markaðurinn fundið út eins og sést í síaukinni notkun.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .