Loftmyndasafn Landmælinga Íslands (80)

Loftmyndasafn Landmælinga Íslands geymir loftmyndir sem hafa í meginatriðum tvenns konar uppruna. Annars vegar loftmyndir sem teknar hafa verið á vegum stofnunarinnar sjálfrar og hins vegar myndir teknar á vegum erlendra aðila, sem síðan voru afhentar loftmyndasafni LMÍ. Safnið í heild er talið geyma um 140.000 loftmyndir og þá er átt við myndir skoðanlegar í þrívídd, teknar með sérstökum myndatökubúnaði á stórar og breiðar filmur með yfirgripi, vegna kortagerðar og annarra landupplýsingaverkefna. Erlendu myndirnar eru taldar tæpur fjórðungur myndasafnsins, en allt safnið er til bæði á loftmyndafilmum og sem pappírsmyndir. Elsti myndaflokkurinn í safninu eru loftmyndir Dana frá 1937-1938. Aðrir helstu flokkar erlendra mynda eru myndir Bandaríkjamanna 1945-1946 (AMS), 1956-1961 (DMA) og 1973 (NASA), njósnamyndir Þjóðverja 1942 (GX) og myndir Breta frá 1940-1941, alls yfir 30.000 myndir.
Ágúst Böðvarsson fyrrverandi forstjóri LMÍ hóf töku loftmynda á vegum stofnunarinnar árið 1950. Fyrst voru teknar 12×12 cm myndir 1950-1952, þá 18×18 cm myndir 1953-1974 og 23×23 cm myndir 1973-2000. Safninu er skipt í myndaflokka sem merktir eru með bókstöfum, en fjögurra stafa teljari í myndavélunum hefur ráðið merkingunni, þ.e. hámark 10.000 myndir í hverjum myndaflokki (0000-9999).
Loftmyndasafnið ásamt kortaútgáfu og sölu eftirgerða af loftmyndum var lengi uppspretta tekjuöflunar stofnunarinnar, en á nokkurra áratuga bili þóttu gerðar miklar kröfur um sértekjur í fjárlögum. Þetta olli meðal annars álagi á filmusafnið sem hefur látið á sjá vegna mikillar spólunar á filmum við eftirgerð mynda, en allt að 280 myndir eru á hverri filmu og þurfti stundum að spóla allri filmunni til að gera eina mynd. Dæmi eru um rákir eða rispur á fjölmörgum eldri filmum af þeim ástæðum.
Langstærsti hluti filmanna er svarthvítur, en aðeins nokkur þúsund myndir í safninu eru í lit. Lengst af unnu tveir ljósmyndarar við safnið allt árið við eftirgerð mynda. Myndatakan fór fram á um tveggja mánaða tímabili seinni hluta sumars þegar gróður var í blóma og snjó hafði tekið upp. Myndatakan var á þessu 50 ára myndatökutímabili framkvæmd af mörgum starfsmönnum auk Ágústar Böðvarssonar, en lengst af stjórnaði Ágúst Guðmundsson síðar forstjóri LMÍ myndatökunni. Aðrir sem einkum komu að loftmyndatöku fyrstu áratugina auk áðurnefndra voru Svavar Berg Pálsson, Egill Sigurðsson og Jóhann Þór Sigurbergsson. Síðar tók Magnús Guðmundsson við myndatökunni og síðast sá Guðmundur Viðarsson um myndatökuna áður en henni var formlega hætt árið 2000, samkvæmt ákvörðun umhverfisráðuneytisins.
Öryggismál loftmyndasafns LMÍ og einkum gæði á filmugeymslum hvað varðar hita- og rakastillingu, eru ekki eins og best verður á kosið, en mikilvægt er að skönnun safnsins sem nú er í gangi tefjist ekki og ljúki eins fljótt og mögulegt er. Safnið er vel skráð á fluglínukort og safnefnið orðið aðgengilegt að vissum hluta á vefsíðu stofnunarinnar, þar sem leita má að myndum og kalla fram bæði fluglínukort og sýnismyndir í ákveðinni upplausn.

Efniviður safnsins er ómetanlegur vegna sögulegs samhengis og verður verðgildið ekki metið til fjár. Safnið er ef svo má segja „endanlegt“  þar sem ekki bætast við það nýteknar myndir,  en fræðilega gætu eldri myndaflokkar sem taldir eru vera til erlendis bæst við safnið. Mikilvægt er að halda leit að slíkum myndum áfram, ljúka skönnun alls safnsins og koma filmusafninu í langtímavarðveislu í öruggri geymslu við bestu geymsluaðstæður þar sem er séð fyrir meðal annars góðri hita- og rakastillingu.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .