Loftmyndasafn Loftmynda ehf (78)

Með tilkomu loftmyndaflugs á vegum fyrirtækisins Loftmynda ehf árið 1996 varð til nýtt loftmyndasafn á Íslandi. Myndir hafa verið teknar á hverju ári síðan eða í rúma tvo áratugi og voru teknar yfir 50.000 loftmyndir á filmur á árabilinu 1996-2016, allt litmyndir. Filmumyndatakan fór fram með ZEIZZ RMK TOP loftmyndatökuvél í eigu fyrirtækisins, myndir á filmunum eru 23×23 cm og allt myndefni hefur verið skannað í hágæða skanna vegna stafrænnar notkunar. Filmurnar hafa því verið í geymslu og ekki notaðar nema eitthvað sérstakt komi til. Þær eru því í góðu ásigkomulagi, þar sem þær hafa verið lítið meðhöndlaðar eftir skönnunina. Fyrirtækið hefur gert samkomulag við Þjóðskjalasafn Íslands um varðveislu frumfilmanna og er það vel. Þar með ætti varðveisla þeirra að vera trygg í öruggum geymslum, þar sem hita- og rakastilling er eins og hæfir filmusöfnum. Þar sem allt myndasafnið er til skannað í háum myndgæðum til notkunar og „smámynd“  af hverri einstakri mynd er skoðanleg í kortasjá á vegum fyrirtækisins á netinu, verður hlutverk Þjóðskjalasafns fyrst og fremst að tryggja örugga framtíðarvarðveislu filmuefnis án neins konar notkunar annarra.
Árið 2017 hófu Loftmyndir ehf. töku stafrænna loftmynda og því hefur fyrirtækið hætt loftmyndatöku á filmur. Við það aukast möguleikar á fjölbreytilegri notkun mynda og nákvæmni eykst. Flatarmál loftmyndaðra svæða sumarið 2017 var það stærsta á einu ári í sögu fyrirtækisins og fjöldi mynda þetta eina sumar er 21.000 loftmyndir (RBG) sem eru jafnframt einnig til í innrauðu.  Alls geymir loftmyndasafn fyrirtækisins því yfir 70.000 loftmyndir.
Myndir safnsins þekja nú allt landið, utan Vatnajökuls og eru afrit af þeim fáanleg bæði sem stakar myndir eða samsettar af stærri svæðum. Heildarmynd af öllu landinu  varð til eftir myndatökuna sumarið 2007 og skapaði hún ný og margbreytileg tækifæri á sviði landupplýsinga á Íslandi. Flestar myndanna eru teknar úr svokölluðu miðflugi, sem er flughæð neðan við 3000 metra (nálægt 10.000 fetum). Þar fyrir utan eru 127 þéttbýlisstaðir myndaðir úr 1000-1400 metra hæð. Til að hraða því verkefni að klára að mynda allt landið voru árin 1999 og 2000 mynduð stór svæði á hálendi landsins úr 8000 metra hæð. Þeim myndum hefur síðan þá að stærstum hluta verið skipt út fyrir miðflugsmyndir. Upplausn heildarmyndar Loftmynda ehf er frá 0,1 til 0,5 metrar.
Aðgengi að upplýsingum um loftmyndir í safninu er mjög gott og hefur verið sett upp sérstök loftmyndasjá í því sambandi, en hún byggir á hugbúnaðarlausn fyrirtækisins fyrir map.is sem mörg sveitarfélög og opinberar stofnanir nýta sér við framsetningu kortagagna á netinu. Þar má með einföldum hætti velja tímabil á sérstökum tímaás. Hver mynd er táknuð með ferningi þar sem sérstakur litur er notaður innan hvers árs. Með því að smella á ferninginn koma fram lágmarks upplýsingar um myndina svo sem um númer fluglínu, myndarnúmer, flughæð, dagsetningu og ár. Þá er hægt að smella á skoðun myndar og birtist þá lítil skjámynd af myndinni þar sem sjá má meðal annars myndatökusvæðið og gæði myndarinnar þannig að hugsanlegur notandi getur gert sér grein fyrir því hvert notagildi myndar er fyrir fyrirhuguð not. Jafnframt er boðið upp á þann kost að snúa myndinni þannig að hún snúi eins og undirliggjandi kort- eða myndgrunnur í kortasjánni. Loftmyndasjá fyrirtækisins gefur því gott aðgengi að upplýsingum um hverja loftmynd í safninu um leið og til er nákvæm heildarmynd af landinu sem m.a. er hægt að sjá sem undirliggjandi grunnmynd í fjölda kortasjáa hér á landi.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .