Loftmyndasafnið – Nýtt verkefni? (130)

Loftmyndasafnið“ er vísir að nýju tilraunaverkefni, sem gæti í fyllingu tímans veitt samræmdan aðgang í kortasjá að upplýsingum um gamla flokka loftmynda af Íslandi og elstu gervitunglamyndir sem til eru hérlendis. Auk þess mætti taka með gamlar ljósmyndir sem teknar voru fyrr á tíð úr flugförum yfir landinu og gamlar þrívíddarmyndir teknar ofan af fjallstindum vegna kortagerðar. Um er að ræða mikinn fjársjóð myndefnis sem er fjölbreyttur, en um leið mjög ósamstæður. Efniviðurinn er óskannaður en að hluta til skráður með ólíkum aðferðum. Töluvert af þessu myndefni er geymt hjá Landmælingum Íslands, en einnig hjá öðrum stofnunum og söfnum hér á landi og erlendis. Þá er jafnframt þekkt úr bandarískum skrám um myndasöfn að til eru gamlir myndaflokkar af Íslandi sem ekki hafa verið fengnir til landsins.

Í kortasjánni eru settar fram hugmyndir um að birta með samræmdum hætti upplýsingar um afmarkaða og innbyrðis ólíka erlenda flokka gamalla loftmynda, gervitunglamynda og ljósmynda úr flugi. Stærstu flokkarnir telja e.t.v. um 2000 myndir, en flestir eru þó mun minni. Myndaflokkarnir eru mjög ósamstæðir og ólíkir. Stærð mynda er mismunandi, sumt til á filmum, annað eingöngu á pappír, sumt eru skámyndir annað tekið lóðrétt. Þær myndir sem eru þekktar og falla undir þessa skilgreiningu hafa komið frá Dönum, Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum, en eitthvað af skámyndum er frá Íslendingum. Tímabilið myndefnisins er fram til 1950, þegar Landmælingar Íslands hófu skipulagða loftmyndatöku hér á landi.

Stóru loftmyndasöfnin þrjú hér á landi, hjá Landmælingum Íslands, Loftmyndum og Samsýn, hafa verið byggð upp hvert með sínum hætti og eru algerlega sjálfstæð myndasöfn sem geyma ólíkan safnkost og hafa mismunandi vefframsetningu. Gömlu loftmyndaflokkarnir eru ólíkir flokkum mynda úr kerfisbundnu loftmyndaflugi af stórum landshlutum eða landinu öllu eins og stóru söfnin geyma. Þetta gamla efni þarf því allt aðra meðhöndlun, sem hægt væri að koma til móts við í „Loftmyndasafninu“ ef vilji væri til þess að koma verkefninu í framkvæmd.

Verkefni sem þetta getur ekki orðið að veruleika nema með samvinnu margra. Vinna við hvern einstakan myndaflokk krefst sérstakrar skipulagningar og rannsóknarvinnu.  Samræmd skráningarlausn fyrir ólíkar myndgerðir þarf að verða til í upphafi verkefnisins. Skráningarvinna, hnitsetning myndarmiðju allra mynda og skönnun eru grunnþættir innan verkefnisins. Heildarskipulag, afmörkun verkþátta, aðgengi að vefþjónustum með skönnuðu myndefni, samhæfing og fjármögnun eru svo lykilþættir í að allt geti gengið upp.

Efni hefur ekki verið sett inn í kortasjána ennþá þar sem engar forsenur hafa enn skapast til að hefja slíkt verkefni. Gerð er þó tilraun til að setja nokkrar myndir með skrám til að sýna hugsanlega virkni sem þarf þó að þróa. Hugmyndafræðin er auðvitað til en ekki er hægt að hefja vinnu nema fjárveitingar og vilyrði fyrir samstarfi liggi fyrir.

Málefni gervitunglagagna hafa oft verið rædd meðal annars í pistlum á landakort.is. Þá  hefur oft verið rætt um að mögulegt þurfi að verða að á einum stað megi finna upplýsingar um gervitunglamyndir sem hafa verið keyptar til landsins og þyrfti því ekki að kaupa aftur ef miðlægar upplýsingar eru til um það hvað er til í landinu. Umræða um þetta verkefni þarf að eiga sér stað áður en prufur eru settar fram. Þessi hugmynd er hér með sett fram til kynningar.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...