Loftmyndasöfn – Bætt vefaðgengi? (120)

„Loftmyndasafn Íslands“ er ekki til sem slíkt. Hugmyndin um það snýst ekki um tiltekið húsnæði eða stað þar sem einhver starfsmaður veitir upplýsingar um loftmyndir af Íslandi. Það er heldur ekki staður þar sem filmur eru geymdar og afritaðar vegna notkunar, heldur er um að ræða upplýsingafræðilegt verkefni og vefgáttir á netinu þar sem hægt yrði að fá tiltölulega samræmt aðgengi að upplýsingum um allar loftmyndir sem til eru af Íslandi og vísað væri til þess hvernig mætti fá afrit af þeim.

En hverjir þyrftu að koma að slíku verkefni? Það liggur fyrir að Landmælingar Íslands, Loftmyndir ehf og Samsýn ehf sem vörsluaðilar loftmyndasafna hér á landi þyrftu að koma að verkefni á þessu sviði. Um er að ræða eina opinbera stofnun með safn sem ekkert hefur bæst við síðan árið 2000 og síðan myndasöfn frá tveimur fyrirtækjum á markaði sem hafa verið í samkeppni sín á milli vegna töku og vinnslu loftmynda. Alls er talið að söfnin geymi hátt á þriðja hundrað þúsund mismunandi loftmyndir á filmum.

Landmælingar Íslands eiga vel skráð loftmyndasafn, sem skiptist annars vegar í loftfilmusafn og hins vegar í loftmyndasafn pappírsmynda, þar sem snertimyndir af öllu filmusafninu eru til í aðgengilegu safni. Hágæða skönnun loftfilmusafnsins hefur verið í skilgreindum farvegi á stofnuninni, en einhverjar tafir hafa orðið á því verkefni á ákveðnum tímabilum vegna bilana í tækjabúnaði, sem nú hefur verið endurnýjaður.
Samsýn ehf. tók loftmyndir fyrstu árin á loftmyndafilmur en hefur um árabil tekið eingöngu stafrænar loftmyndir og því er aðeins hluti safns fyrirtækisins til á filmum. Filmurnar hafa líklega allar verið skannaðar í góðri upplausn, miðjupunktar allra mynda eru væntanlega til, en hafa þarf samband við fyrirtækið til að fá sértækar upplýsingar um safnkostinn.
Loftmyndir ehf. hafa tekið á litfilmur og skannað allt sitt efni í mikilli upplausn vegna starfsemi fyrirtækisins, en frá og með árinu 2017 hefur allt myndefni verið tekið stafrænt. Hægt er að fá samningsbundinn aðgang að heildarloftmyndagrunni af öllu landinu, eða sérlausnir eftir þörfum hvers notanda. Fyrirtækið hefur skráð myndasafnið og gert það aðgengilegt gegnum sérstaka kortasjá á netinu þar sem hægt er að kalla fram einföld afrit af myndum með því að smella á punkta sem sýna miðju hverrar myndar.
En hvernig væri þá hægt að koma nýju upplýsingaverkefni í framkvæmd? Það er ljóst að einkafyrirtækin eiga skrár og skönnuð afrit eldri loftmynda af filmum á stafrænu formi sem hentar fyrir slíkt verkefni. Landmælingar eiga góðar skrár og fluglínukort auk þess sem nýrri hluti myndakostsins er aðgengilegur í formi skannaðra mynda á netinu. Þetta efni er hægt að nýta við að nálgast gerð miðjupunkta eða ytri afmörkun ramma fyrir myndir í myndasafni stofnunarinnar, en allar myndir sem teknar hafa verið á vegum Landmælinga eða líklega hátt í 80% safnkostsins eru skráðar á slík fluglínukort. Afmörkun eða stafræn hnitsetning yrði þó á endanum að fara fram eftir hverri einstakri mynd.
Ég teldi best að frumgagnasöfnin, fyrst um sinn allar upphaflegar loftmyndafilmur, væru varðveittar í öruggum filmugeymslum, helst á Þjóðskjalasafni Íslands, en slíkar geymslur eru einnig til hjá Kvikmyndasafni Íslands svo dæmi sé tekið. Öryggi frumgagnanna (filmanna) þarf að vera tryggt í lykilsöfnum, en jafnframt þarf að tryggja að hágæða skannað afrit sé til af hverri loftmynd áður en filmur færu í endanlegar skjalageymslur til langtíma varðveislu. Landmælingar Íslands, Loftmyndir ehf og Samsýn ehf þyrftu síðan að sammælast um að til yrðu gagnasett hjá hverjum aðila þar sem skrár væru settar upp með samræmdum kjarna skráningaratriða, þar sem myndarmiðja og stefna í myndatöku kemur fram svo snúa megi myndum sem „réttast“ miðað við kortgrunna í kortasjám. Þar með væri hægt að birta myndgögnin í takmarkaðri upplausn í sams konar eða svipað virkandi kortasjám í eigu hvers aðila fyrir sig, þar sem vísa mætti á þær í gegnum eina og sömu vefgátt, eins og gert er nú í verkefninu „landkönnun.is“.
Einfaldasta leiðin miðað við stöðuna í dag væri væntanlega að nýta sambærilega hugmyndafræði og Loftmyndir ehf byggja á og setja upp nokkur sjálfstæð verkefni á netinu, byggð á hugbúnaði sem hefur svipaða virkni. Þar sem þarna er um samkeppnisaðila sem keppa á markaði að ræða er ekki víst að samkomulag næðist um áðurnefnda nálgun. Það væri þó verðugt að unnið yrði að afmörkuðu tilraunaverkefni á þessu sviði með samræmingarmál skráningarþátta í huga.
Þá á eftir að nefna kostnaðinn, en rekstur á kortasjá þarf ekkert endilega að vera svo dýrt verkefni. Kostnaður við að setja fram hugmyndafræði, samræma og skipuleggja kemur mest fram í upphafi. Kostnaðurinn við samræmingu skráningargagna (lýsigögn) fellur síðan aðallega á þá þrjá aðila sem eiga gögnin og þurfa að útbúa gagnasett og gagnatöflur til sambærilegrar birtingar. Kostnaður fyrir hvern aðila er því minni því meira sem til er skannað með hnitsettum myndmiðjupunktum eða römmum sem afmarka myndflöt. Kostnaður yrði því líklega mestur við loftmyndasafn Landmælinga, en hann yrði aðallega við að finna miðjupunkta fyrir 140.000 loftmyndir, ítarlegar skrár eru hins vegar til. Ef þetta fyrirkomulag væri haft á, þyrfti Þjóðskjalasafn Íslands ekki að koma að vinnslu og skipulagi þessa upplýsingaverkefnis á fyrsta stigi, enda leggur safnið áherslu á að fá til varðveislu fullskráð skjala- og myndasöfn. Það þyrfti hins vegar að vera hlutlaus stjórnun og samhæfing frá upphafi í verkefninu, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Í tengslum við það sem hér hefur komið fram þarf að geta þess að til eru loftmyndaflokkar erlendis með myndum af Íslandi, sem ekki eru í áðurnefndum þremur loftmyndasöfnunum. Ef hægt verður að ná þeim til landsins má spyrja hver tæki þá myndaflokka til skráningar og hver greiddi fyrir slíka vinnu. Þá mætti einnig hugsa sér að yfirlit um „bestu“ gervitunglagögn af Íslandi væru einnig skráð í „Loftmyndasafn Íslands“ eða hliðarlausn á svipuðum grunni og þá þyrfti að skilgreina áðurnefnt verkefni með það í huga. Það er greinilega ekki vanþörf á að farið verði að huga að aðgengis- og varðveislustefnu fyrir landfræðileg gögn, í þessu tilfelli fyrir loftmyndir á Íslandi.
Framtíðarhýsing og rekstur heildarverkefnis á þessu sviði og undirverkefna þess gæti því orðið ein af tillögum hugsanlegrar nefndar um stefnumótun í varðveislumálum landfræðilegra gagna á Íslandi. Til að koma verkefninu af stað mætti setja upp tilraunaverkefni þar sem hægt yrði að meta betur samlegðaráhrif við samræmingu og miðlun upplýsinga. Þar sem samfélagslegt gildi er mikilvægasti hvatinn að verkefninu þyrfti að koma til opinber fjármögnun, en ljóst er að engum hinna þriggja áðurnefndu aðila sem eiga söfnin ber skylda til að vinna að verkefni sem þessu. Framkvæmd þess er því algjörlega komin undir velvilja og áhuga þeirra.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...