Loftmyndataka Breta á Íslandi 1940 – 1941 (58)

Við komu breska hersins til Íslands í maí 1940 hafði hernámsliðið hvorki aðgang að viðunandi kortum né loftmyndum af Íslandi. Þjóðverjar höfðu hertekið Danmörku og þar með höfðu þeir aðgang að öllum kortum, mælingum og loftmyndum hjá Geodætisk Institut í Kaupmannahöfn. Bretar þurftu því að gera sínar eigin útgáfur eftir afritum dönsku kortanna af landinu, en þær voru byggðar á sömu blaðskiptingum. Lengi var óljóst hve mikið af loftmyndum hefði verið tekið á þeim tíma sem Bretar hersátu landið 1940-1941, enda ekki aðgangur að eintökum slíkra mynda lengi vel. Það var síðan líklega á sjötta áratug síðustu aldar sem Landmælingum Íslands barst mappa sem sögð var hafa fundist í bragga á Reykjavíkurflugvelli. Í möppunni voru innlímdar um 300 svarthvítar loftmyndir af nokkrum stöðum á landinu. Bæði var um að ræða skámyndir og lóðrétt teknar myndir og var myndflötur 12×12 cm. Myndgæði voru mjög mikil, myndataka hafði farið fram úr flugi í lítilli hæð og sýndu myndirnar afar vel þá staði sem um var að ræða. Myndirnar höfðu flestar verið klipptar til og límdar saman þannig að þær sýndu stærri svæði. Glært og glansandi límbandið var hins vegar afleitt og „klesstist“ auðveldlega. Hefði verið reynt að taka það af til að geta aðgreint myndirnar hefði það rifið upp yfirborð þeirra. Því var það tekið til bragðs að gera eftirtökur af hverri síðu bókarinnar og einstaka samlímdum myndum innan hennar til þess að mögulegt yrði að búa til afrit af myndasíðum möppunnar og ná að gera eftirtökur af myndunum.

Þrátt fyrir ítarlegar fyrirspurnir og leit hefur hvorki hafst upp á pappírsmyndum eða filmum úr þessum myndaflokki erlendis. Nokkrar myndir úr myndaflokknum hafa hins vegar birst í bókinni Iceland (Geographical Handbook Series. B.R. 504) sem út kom árið 1942.

Við skoðun á númerum, dagsetningum og öðrum merkingum á þessum myndum má hins vegar ætla að um töluvert magn hafi verið að ræða, eða jafnvel yfir 5000 myndir. Hvað orðið hefur um þær er erfitt að segja, en ef þær kæmu í leitirnar yrði örugglega af því gríðarlegt gagn, þar sem gæðin hafa verið mikil, enda gátu Breta flogið lágt yfir landi, ólíkt því sem gerðist síðar með njósnamyndatökur Þjóðverja hér á landi, þar sem flughæð var mikil og upplausn mynda lítil.

Það er ólíklegt að filmum úr þessum myndaflokki hafi verið fargað viljandi. Hins vegar er illskiljanlegt að ekki skuli finnast neinar upplýsingar um myndir úr þessum flokki neins staðar þrátt fyrir stór og vel skráð myndasöfn í Bretlandi með myndefni frá þessum tíma. Spurningin er því sú hvort þær hafi glatast í flutningum milli landa eða eyðilagst með einhverjum hætti í Bretlandi. Ef þessar myndir myndu finnast yrði það án efa mikill fengur, þar sem gæði þekktra mynda eru slík að það yrði ómetanlegt fyrir alla sem fást við rannsóknir á landi og sögu á þessum tíma.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...