Loftmyndataka Þjóðverja yfir Íslandi 1942 (59)

Þegar orrustan um Atlantshafið harðnaði hóf njósnadeild þýska flughersins í Stafangri í Noregi skipulagða loftmyndatöku með öflugum myndavélabúnaði af hernaðarlega mikilvægum svæðum á Íslandi. Upplýsingar um tilvist myndanna, sem höfðu merkinguna GX, bárust ekki til Íslands fyrr en árið 1980 og var þá þegar hafist handa eftir „diplómatískum“ leiðum að fá eintök af þeim send til landsins. Þessi leit var að frumkvæði Landmælinga Íslands, en stofnuninni hafði borist tölvuskrá yfir loftmyndir af Íslandi í bandarískum myndasöfnum. Í framhaldi af bréfaskriftum komu til landsins frá bresku myndasafni alls 2082 loftmyndir í stærðinni 23×23 cm, sem höfðu flokksheitið GX (12501-12519) og voru allar teknar á 12 myndatökudögum á tímabilinu frá 2. maí til 15. október 1942. Þessar myndir voru listaðar í bandarísku tölvuskránni, en skráin geymdi reyndar upplýsingar um fleiri þýskar myndir. Hafist var þegar handa um skráningu. Þegar myndirnar komu til Íslands fylgdi þeim aðeins eitt almennt heildarkort af Íslandi þar sem sjá mátti gróft teiknaðan yfirlitsfláka með myndatökusvæðum. Verkefnið fólst því í byrjun í að finna staðsetningu hverrar einustu myndar og staðsetja á fluglínukorti.

Í hverju flugi voru notaðar tvær loftmyndavélar. Önnur var með gleiðlinsu (200 mm) og hin með aðdráttarlinsu (ýmist 500 mm eða 750 mm). Myndavélar Þjóðverja á þessum tíma, með þessum gerðum linsa voru af gerðinni Reihenbildner, þar sem myndflötur var 30×30 cm, en af númerum má ráða að níu mismunandi myndavélar hafi verið notaðar. Sést af því að um töluverðan rekstur hefur verið að ræða vegna myndatöku af svæðum sem liggja að N-Atlantshafi. Ætla má af ljósmyndum úr handbókum að myndavél með 750 mm linsu hafi verið allt að einn metri að lengd. Þar sem myndirnar sem komu til Íslands voru 23×23 cm var ljóst að þær höfðu verið gerðar eftir filmum sem voru eftirtökufilmur af pappírsmyndum sem teknar voru herfangi í stríðslok. Myndgæðin voru því farin að minnka miðað við frumfilmur, enda staðfestist það síðar, þegar slíkar myndir bárust Landmælingum Íslands frá einstaklingi sem tók þátt í myndatökuflugi a.m.k. nokkur skipti og tók fyrir sjálfan sig kópíur sem hann hafði í sínum fórum eftir stríðið og gaf loftmyndasafni LMÍ. Þær myndir voru 30×30 cm sem og myndir sem vantaði í safnið miðað við tölvuskrána, þær myndir bárust frá Bandaríkjunum í ljósriti og voru 30×30 cm.

Talið er að flogið hafi verið á flugvélum af gerðinni Junkers 88, flugsveitin (1(F)120) var hluti af deild innan þýska flughersins (Luftflotte 5) sem hafði aðsetur í Stafangri í Noregi. Aðferðafræðin gekk út á það að fljúga mjög hátt inn yfir landið þar sem minnst bar á og fljúga svo út að ströndinni og til baka í austurátt áður en hægt var að bregðast við. Tekið var á tvær myndavélarnar samtímis en vélarnar voru skrúfaðar í botn flugvélarinnar og fyrirkomulagið var að teknar voru yfirlitsmyndir með gleiðlinsunni og með aðdráttarlinsunni fengust á sama tíma mun nákvæmari myndir. Oft var flugvélinni sveiflað til þannig að fá mætti margar myndir með miklu yfirgripi og meiri nákvæmni af hernaðarlega mikilvægum stöðum. Myndatökusvæðin voru annars vegar Austfirðir og hins vegar Suður- og Suðvesturland.

Gæði myndanna voru nokkuð mismunandi, en það eru sérstaklega nokkrar myndir frá síðustu tveimur flugdögunum, sem hafa vakið nokkurn áhuga. Þær eru með texta og merkingum á þýsku þar sem verið er t.d. að greina skipalestir á Hvalfirði, þar sem einstök skip eru nefnd með nafni ásamt frekari upplýsingum um þau, einkum stærð og landi sem þau tilheyrðu. Þá eru örnefni og stefnur til ákveðinna staða gjarnan merktar inn. Þjóðverjar höfðu góðan aðgang að Íslandskortum frá því að þeir hertóku Danmörku og þar með að dönsku landmælingastofnuninni Geodætisk Institut sem vann að frágangi og lokaútgáfum korta af Íslandi í mælikvarða 1:100 000.

En hvert er þá helsta gildi þessa myndaflokks? Þar má einkum nefna að myndirnar eru elstu lóðrétt teknu loftmyndir af stærstum hluta þeirra landsvæða sem þær þekja, margar hafa litla upplausn, en aðrar eru í tiltölulega stórum mælikvarða og hafa þær töluvert meira gildi vegna betri greinihæfni. Myndirnar geyma ákveðna sögu um stöðu mála í miðju stríðinu og staðfesta að Þjóðverjar höfðu miklar upplýsingar um ýmislegt sem fór hér fram. Þetta eru því fyrst og fremst njósnamyndir þar sem fylgst var með skipalestum og samgöngumannvirkjum eins og flugvöllum og vegum.

Nokkrum árum eftir að skráningarverkefninu lauk, komst á samband við aldraðan þýskan flugmann, Hugo Löhr að nafni, sem hafði tekið þátt í þessu njósnaflugsverkefni. Hann átti nokkuð af myndum sem hann gaf loftmyndasafni LMÍ afrit af, er hann kom í heimsókn til Íslands. Um leið staðfesti hann það sem snýr að sögu loftmyndatökunnar og notkun myndanna í stríðinu. GX myndaflokkurinn er mjög nákvæmlega skráður og hafa skrár, fluglínukort og ítarlegar greiningar á verkefninu verið gefnar út í skýrslu.

Þorvaldur Bragason

(Heimild: Þorvaldur Bragason (1985). Loftmyndaflug og loftmyndir þýska flughersins af Íslandi 1942.)

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...