Loftmyndir eða gervitunglagögn? (105)

Meðan járntjaldið svonefnda, sem klauf Evrópu frá norðri til suðurs, var við lýði á tímum kalda stríðsins ríkti mikil tortryggni milli svokallaðs austurs og vesturs. Þetta teygði sig að sjálfsögðu einnig inn í korta- og landmælingageirann og jafnframt í fjarkönnunargeirann. Allt fram á tíunda áratug síðustu aldar var til dæmis umtalsverður munur á hæðarkerfi austan og vestan járntjaldsins. Það var ekki lagfært fyrr en með EUREF mælingunum um og eftir 1990, en mæling grunnstöðvanets ÍSN93 á Íslandi árið 1993 var til dæmis hluti af þeirri áætlun. Í lok síðari heimsstyrjaldar hefur verið talið að Sovétmenn hafi tekið herskildi verksmiðjur og innleitt meðal annars hjá sér tækni Zeiss á sviði loftmyndatöku. Zeiss var á þeim tíma orðið tæknilega háþróað fyrirtæki og rak meðal annars verksmiðjur sem eftir heimsstyrjöldina urðu Austur-Þýskalandsmegin. Loftmyndatökubúnaður Þjóðverja í seinna stríði  var einstakur, þar sem myndflötur hverrar loftmyndar var 30×30 cm og útskiptanlegur linsubúnaður mjög öflugur. Þekkt dæmi um þennan búnað og tækni kom í ljós hér á landi þegar þýsku njósnamyndirnar af Íslandi (GX) frá árinu 1942 komu í leitirnar og voru sendar hingað til lands í ársbyrjun 1982. Þar voru notaðar þrenns konar linsur (um 200 mm, 500 mm og 750 mm) þar sem þær lengstu (750 mm) voru nálægt einum metra að lengd og náðu einstaklega skörpum myndum þó flogið væri í mikilli hæð.

Vegna legu sinnar í Evrópu bjuggu Finnar við það að járntjaldið lá í gegnum öll austurlandamæri þeirra þ.e. að Sovétríkjunum. Það skapaði Finnum ákveðna sérstöðu innan Norðurlanda og Vestur Evrópu, enda þurftu þeir vegna þessa nábýlis að halda góðum samskiptum við voldugan nágranna. Þegar fór að losna um krumlurnar á ýmsum sviðum innan Sovétríkjanna spruttu upp fyrirtæki sem leituðu markaða vestan járntjaldsins. Eitt þeirra fékk umboðsaðila í Finnlandi til að koma á markað myndum sem teknar voru af ýmsum stöðum á jörðinni úr geimstöð Sovétríkjanna.

Af forvitni lét ég, sem forsvarsmaður loftmyndasafns Landmælinga Íslands á þeim tíma, panta nokkrar slíkar myndir af Íslandi fyrir safnið. Í fyrstu var svo sem ekki alveg ljóst hvers var að vænta, enda einungis heimildir um myndir í textaskrám. Það vakti því athygli þegar pakkinn með pöntuðum myndum var opnaður. Myndirnar voru svart hvítar eins og vænst var, en stærð þeirra og ytra form virtist kunnuglegt, þ.e. svipað og á þýsku njósnamyndunum frá 1942. Hafði því þarna líklega verið notuð meðal annars hefðbundin loftmyndatökutækni í geimstöðinni, filmumyndataka af gamla skólanum.

Þetta leiðir hugann að orðanotkun á sviði fjarkönnunar. Við tölum um loftmyndir og loftmyndatöku þegar myndatakan á sér stað með ákveðinni gerð myndatökubúnaðar sem notaður er í flugvélum eða einhvers konar flygildum. Að sama skapi tölum við um annan undirflokk fjarkönnunargagna, gervitunglagögn (gervihnattagögn/tunglgögn) þegar „myndatakan“ eða skönnunin fer fram með tæknibúnaði sem settur hefur verið um borð í gervitungl eða geimför, venjulega einhvers konar skannar en ekki myndavélar þar sem tekið er á filmur. Hvaða hugtak á þá að nota til að lýsa myndum í þessum undirflokki fjarkönnunargagna? Það er varla hægt að flokka slíkar myndir sem gervitunglagögn í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak, enda eru þær allt annars eðlis þó þær séu teknar utan úr geimnum af ýmsum svæðum á jörðinni. Þannig er líklega skynsamlegast að tala áfram um loftmyndir í þessu tilfelli, enda um að ræða slíka gerð fjarkönnunargagna þó svo fjarlægð myndatökustaðar frá jörðu sé óvenju langt yfir okkur miðað við það sem við eigum að venjast með loftmyndatöku frá flugvélum. Það skal tekið fram að Bandaríkjamenn notuðu einnig hefðbundnar myndavélar með filmum til að taka myndir úr geimförum af jörðinni og tunglinu þegar verið var að skipuleggja ferðir til tunglsins og hanna gervitungl til að afla gagna af jörðinni. Ekki er vitað um slíkar loftmyndir af Íslandi.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .