Eftir að Bandaríkjamenn tóku við af Bretum í hernámi Íslands 1941 munu þeir hafa tekið nokkuð af loftmyndum, sem lítið er þó vitað um. Að minnsta kosti eru ekki til afrit hér á landi af mörgum loftmyndum Bandaríkjamanna frá stríðsárunum á Íslandi. Heimildir um þessar myndatökur eru einkum í útprentuðum tölvulistum yfir loftmyndir af Íslandi sem virðast geymdar í bandarískum söfnum, þó ekki hafi tekist að fá eintök af nema nokkrum þeirra til landsins. Fyrsti stóri loftmyndaflokkurinn af Íslandi var myndaður sumrin 1945 og 1946 á vegum Army Map Service (AMS) í Bandaríkjunum, alls að því er talið er um 10.700 loftmyndir. Flughæðin var yfirleitt mjög mikil allt að 23.000 fet sem þýðir að viðkomandi myndir á filmunni eru í mælikvarða um 1:46 000 miðað við láglendi og sjávarmál. Loftmyndafilmurnar voru svart-hvítar þar sem hver mynd er 23×23 cm. Myndirnar eru yfirleitt með 60% yfirgripi og 20% hliðarskörun eins og algengt hefur verið í myndatökum LMÍ síðar. Af þessu er ljóst að möguleikar til að stækka myndirnar eru ekki sérlega miklir án þess að myndgæði fari að minnka umtalsvert. Þær eru því fyrst og fremst einstakar yfirlitsmyndir sem sýna nánast allt landið áður en hinar stórtæku breytingar sem við þekkjum af manna völdum fóru að koma fram á yfirborði landsins.
Filmur að myndunum voru sendar til loftmyndasafns Landmælinga Íslands fyrir margt löngu og eru þar til bæði negatífar og pósitífar filmur. Um er að ræða langar filmur, en á loftmyndafilmu geta verið hátt í 300 loftmyndir. Til að finna myndir fylgdu með til myndasafnsins svokölluð „loftmyndamosaik“ þar sem pappírsmyndum af ákveðnum landshlutum hafði verið raðað saman með mikilli skörun og teknar myndir með viðbótarupplýsingum þannig að hægt væri að skoða skýrustu myndirnar og nýta eftirgerðir þeirra af filmunum t.d. við kortagerðarvinnu.
Tilgangurinn með myndatökunni var kortagerð kortaraðar AMS af öllu Íslandi í mælikvarða 1:50 000, sem með þáverandi blaðskiptingu taldi samtals 300 kortatitla. Sú kortaröð hefur gengið undir nafninu C762 og kom hún út á árunum 1948-1950. Áhrif þeirrar kortaraðar hafa verið mikil í gegnum árin allt fram til síðustu ára.
Þar til myndataka Defence Mapping Agency (DMA) fór fram á árabilinu 1956-1961, myndir sem komust síðan í loftmyndasafn LMÍ, var myndaflokkur AMS notaður við margvísleg verkefni á landinu. Þessir tveir myndaflokkar eru grunnurinn að þeim möguleikum að skoða landbreytingar á nánast öllu landinu á lóðrétt teknum loftmyndum, nú yfir 70 ár aftur í tímann.
Það er í raun merkilegt að engar heimildir virðast til á prenti frá Bandaríkjamönnum um þessi myndatökuverkefni og sama er að segja um viðamikla kortaútgáfu þeirra sem byggði m.a. á myndaflokknum frá 1945 og 1946.
Því miður varð kortafátækt landsins til þess að gríðarlegt álag var í áratugi á þessar filmur. Þær voru notaðar stöðugt til að gera snertimyndir (kontaktmyndir) sem og stækkanir fyrir notendur, eftirgerðir sem skiptu þúsundum á hverju ári úr loftfilmusafninu. Filmunum var spólað í þar til gerðum tækjum og því miður hafa myndirnar látið á sjá sem sést einkum í formi rispa eftir endilöngum filmunum. Skönnun Landmælinga á eldri filmum var því löngu tímabær, en á stofnuninni hefur á liðnum áratug verið unnið mikið starf við að afrita loftmyndafilmur í góðum tækjum. Það var hins vegar ákveðið þegar afritunartækin komu til landsins að byrja á nýjustu myndunum. Við það fóru viðkvæmustu filmurnar aftast í röðina.
Þorvaldur Bragason