Lýsigagnastaðlar og stafræn grunngerð (11)

Hugtakið „metadata“, sem þýtt hefur verið með orðinu lýsigögn á íslensku, mun fyrst hafa sést á prenti í handbók frá NASA árið 1988, en fyrsti staðall með orðinu „metadata“ í titli, var landrænn lýsigagnastaðall frá FGDC í Bandaríkjunum árið 1994. Almenna lýsigagnasniðið (staðallinn) Dublin Core kom síðan fram árið 1995, en sniðinu er meðal annars ætlað að tengja svið bókasafna, skjalasafna, vefsamfélagið og stafræn gagnasöfn í sem flestum málaflokkum. Staðallinn hefur alls 15 atriði í kjarna en þeim má fjölga að vild eftir því sem þörf krefur. Staðallinn hefur möguleika til skráningar landrænna þátta (DCMI Point og DCMI Box). Landrænir lýsigagnastaðlar sem notaðir voru á þessum tíma voru helst;  frá FGDC í Bandaríkjunum, ANZLIC  í Ástralíu og Nýja Sjálandi og CEN/TC 287 í Evrópu. Árið 2003 tók hins vegar gildi nýr alþjóðlegur lýsigagnastaðall fyrir landræn gögn, ISO 19115 og varð fjölþjóðleg samstaða um að taka hann upp á heimsvísu, en notkun eldri staðlanna var smám saman hætt. ISO 19115 er í hópi tuga ISO staðla á sviði stafrænna landupplýsinga, en efnisatriði úr tveimur stöðlum til viðbótar, 19119 og 19139, eru samtvinnuð notkun ISO 19115 í vissum tilfellum. Í ISO 19115 er skilgreindur kjarni 22 skráningarþátta af þeim 409 sem staðallinn tiltekur og er mælt með að þau séu notuð að lágmarki við skráningu.

Þegar kom að innleiðingu INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins (Infrastructure for Spatial Information in Europe) um stafrænar landupplýsingar kom í ljós mikil áhersla á lýsigögn. Í því sambandi kom fram skilgreining á sérstakri útfærslu og framsetningu skráningarþátta sem byggði á tveimur stöðlum, ISO 19115 og 19119 (INSPIRE Metadata Implementing Rules. Technical Guidelines based on EN ISO 19115 and EN ISO 19119). Öllum Evrópuþjóðum er síðan ætlað að setja upp miðlægt í hverju landi lýsigagnagátt og vefþjónustur á Netinu, þar sem stofnunum í hverju landi er gert skylt að skrá upplýsingar (lýsigögn) um landræn gagnasett og vefþjónustur sem falla undir hina 34 efnisþætti INSPIRE tilskipunarinnar. Ekki var hins vegar gerð krafa um að birta lýsigögn á fleiri en einu tungumáli.

Umræða um grunngerð stafrænna landupplýsinga, Spatial Data Infrastructure – SDI, þróaðist samhliða á áðurnefndum tíma og jókst umræða um mikilvægi samræmingar á sviði hnattrænna gagna einkum eftir alþjóðlegu umhverfisráðstefnuna í Brasilíu 1992. Til þess að bæta gæði gagna þurfti því að huga að endurskipulagningu á öllum stigum allt frá hnattrænum gögnum (GSDI) niður í skilgreiningar gagna á landsvísu í hverju landi (NSDI). Samræming milli landa (RSDI) er einnig mjög mikilvæg, en INSPIRE tilskipunin er skilgreint afsprengi þessarar hugmyndafræði og í raun og veru er um að ræða innleiðingarverkefni um SDI í Evrópu. Lýsigögn eru lykilatriði í að koma hugmyndafræði INSPIRE í framkvæmd.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .