Lýsigögn fyrir kortaflokka, loftmyndaflokka, gervitunglagögn og kortasjár
Það vantar nýja tegund lýsigagnagrunns á Íslandi ! Gerð slíks grunns og opinber birting upplýsinga úr honum er forsenda þess að hægt verði að fá samhæfða yfirsýn yfir stóran hluta landfræðilega gagnasafna á Íslandi og það mikla efni sem þarf að skrá með samræmdum hætti á stofnunum og söfnum. Grunnurinn og birtingarmynd hans á netinu þarf fyrst og fremst að geyma og geta gefið upplýsingar um fjóra flokka landfræðilegra gagna af Íslandi: (a) prentaða kortaflokka, (b) óútgefna kortaflokka, (c) flokka loftmynda, (d) flokka gervitunglagagna, auk þess að ná yfir upplýsingar um íslenskar kortasjár, niðurhalsþjónustur og lýsigagnagáttir.
Aðrir landrænir lýsigagnagrunnar, eins og Landlýsing (2000-2014) og Landupplýsingagátt (2012-) eru allt annars eðlis og hafa fyrst og fremst tekið til nýjustu útgáfa stafrænna landupplýsingagagna og vefþjónusta á því sviði. Skörunin er því ekki til staðar, þar sem í nýja verkefninu á að skrá annars konar gögn og annað form gagna, en einnig að tengja sögulegt samhengi í vinnslu og útgáfu gagnaflokka.
Heildstæð varðveislustefna fyrir landfræðileg gögn á Íslandi er ekki til, en í tengslum við gerð hennar (sem enginn veit hvenær verður) vantar yfirlit meðal annars yfir það hvaða gagnaflokkar eru til á hverju sviði, hvar þeir eru geymdir, hver vann þá og hvenær, hver ber ábyrgð á þeim og hvaða umfang þeir hafa. Það er því nauðsynlegt að skrá slíkar upplýsingar og gera þær aðgengilegar á netinu til þess að hægt sé að sjá umfang gagnaflokka og verkefna hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja. Jafnframt kæmist á hreint hverjir hafa umsjón með og bera ábyrgð á hverjum gagnaflokki og hverjum mun bera skylda til að koma því sem fellur undir hina ósömdu landrænu varðveislustefnu á landsvísu í framkvæmd. Verkefnið tekur á mjög breiðu sviði og ekki verður séð að það falli beint undir verksvið neinnar einnar stofnunar eða safns. Það er því nauðsynlegt að finna annan farveg fyrir framkvæmd og fjármögnun, en aðferðafræðin og verkferlar liggja fyrir og því hægt að hefjast handa án sérstaks fyrirvara.
Ávinningur verkefnisins yrði einkum að:
- Yfirlit fengist yfir íslenska kortaflokka hvort sem þeir eru útgefnir eða ekki, en óútgefin kort eru víða til óskráð í miklu magni á stofnunum
- Yfirlit fengist yfir loftmyndaflokka og flokka ljósmynda sem teknar hafa verið yfir Íslandi, hvort sem það hefur verið á vegum íslenskra stofnana, íslenskra fyrirtækja, erlendra aðila eða einstaklinga
- Yfirlit fengist yfir gervitunglagögn sem til eru í erlendum gagnasöfnum og sýna Ísland, en með því væri hægt að skipuleggja söfnun valinna „mynda“ vegna samanburðarrannsókna á landinu síðar
- Yfirlit fengist yfir íslenskar kortasjár, sem orðið hafa til hér á landi, bæði þær sem hafa verið aflagðar og þær sem nú eru birtar á netinu
- Mögulegt yrði að skipuleggja hverjum bæri að gera hvað í skráningu og varðveislu landfræðilegs menningararfs þjóðarinnar og fylgja því eftir af þeim stofnunum (söfnum) sem bera þá ábyrgð.