Mikilvægi vefsíðna er oft metið út frá fjölda þeirra sem skoða tiltekna vefsíðu eða einstaka hluta hennar á ákveðnu tímabili. Mælingarnar fara fram með margvíslegum hætti. Þær geta verið gerðar með tiltölulega aðgengilegum tólum á netinu, upp í að vera gerðar með vel skilgreindum samræmdum vefmælingum, sem greiða þarf fyrir hjá viðurkenndum fyrirtækjum á því sviði. Mikilvægustu síðurnar eru gjarnan taldar þær sem flestir notendur skoða og er auglýsingagildi oft haft að leiðarljósi við slíkt mat. Í þessum hópi hér á landi eru meðal annars fréttavefir og vefsíður dagblaða. Um aðra mikilvæga vefi má lesa í niðurstöðum þeirra sem bjóða þjónustu við að fylgjast með vefsíðum og fást þar mikilvægar upplýsingar í löngum tímaröðum um einstaka vefi, en einnig mikilvægur samanburður við aðra, í mörgum tilfellum samkeppnisaðila.
En hvar eru landfræðilegir vefir eða kortasjár í þessu samhengi? Í stuttu máli eru flestir þeirra aftarlega í þeim samanburði og almennt ekki mældir í þessari samræmdu vefmælingu, enda þarf að greiða sérstaklega fyrir hana. Margir mæla sjálfir með mismunandi leiðum á netinu og meta þannig hve mikil umferð er inn á vefsíður fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þær upplýsingar liggja því ekki fyrir til samanburðar.
Ýmsir hafa haft efasemdir um það hve mikið mark er takandi á niðurstöðum ákveðinna almennra mæliaðferða á netinu, þ.e. hvað er mælt og hvernig. Slíkar tölur geta oft verið verulega háar, sumir segja óeðlilega háar. Við þá umræðu leitar hugurinn til vefverkefnis sem ég stóð fyrir ásamt fleirum á fyrsta áratug þessarar aldar. Það var landfræðilega vefgáttin Landlýsing, sem geymdi tiltölulega sérhæfðar upplýsingar (landfræðileg lýsigögn) á íslensku um landfræðileg gagnasett af Íslandi eða gagnasett af afmörkuðum landshlutum, sem til voru hér á landi á þeim tíma. Upplýsingarnar voru um 200 gagnasett frá um 30 stofnunum og sveitarfélögum. Ýmsum þótti mældar aðsóknartölur að meðaltali á dag furðulega háar fyrir svo sérhæfðan vef sem vitað var að fáir notuðu að staðaldri. Þegar farið var að rýna betur í tölurnar kom m.a. í ljós að tæpur helmingur innlita á síðuna var erlendis frá. Slíkt þótti undarlegt þar sem allt efnið var á íslensku og í raun engin not fyrir það hjá öðrum þjóðum í því formi sem það birtist. Skýringin á þeim tíma var talin sú að það teldist til dæmis innlit á síðu ef erlendar leitarvélar renna yfir vefinn. Það var því alls ekki um að ræða not á efni vefsins. Eftir þetta hef ég tekið háar tölur um aðsókn í sértækar vefsíður eða undirsíður þeirra með ákveðnum fyrirvara.
Þá leitar aftur á hugann spurningin um mikilvægið, hvort sem margir eða fáir fara inn á vefsíðurnar. Ef við ætlum að skoða mikilvægi út frá aðsóknartölum fyrir flestar kortasjár og landfræðilega vefi eða út frá samanburði við mest sóttu síðurnar á landsvísu myndu þær landfræðilegu ekki vega þungt í þeim samanburði. Við vitum hins vegar að kortasjár og margar landfræðilegar vefsíður eru mikið notaðar af ákveðnum hópum í samfélaginu og að sama skapi eru kortasjár sem sýna afmörkuð landsvæði eins og sveitarfélög landsins mikið notaðar af íbúum þeirra.
Ef við horfum á forsíðu landakort.is sjáum við til dæmis beina tengla í á annað hundrað virkar íslenskar kortasjár og tugi annarra landfræðilegra vefsíðna hér á landi. Það hefur mér vitanlega ekki farið fram neins konar talning á aðsókn að þessum vefverkefnum. Hugsanlega er kortahluti Já.is eina kortasjáin í þessum málaflokki sem einhvern tíma hefur verið mæld um lengri tíma í samræmdri vefmælingu. Þar er um mjög aðgengilega og gagnlega vefframsetningu að ræða sem eðlilegt er að margir noti.
Hér væri ef til vill áhugavert verkefni fyrir einhvern að kanna vefaðgengi og notkun kortasjáa og landfræðilegra vefsíðna. Í því samhengi kemur upp umræða um efnisinnihald, nákvæmni kortagagna, fjölda þekja, heildarþekja alls landsins eða landshluta, virkni hugbúnaðarlausna, hraði og einfalt aðgengi. Og hvað með notkun á kortasjám sem sýna alla jörðina og eru erlendar eins og Google Maps, Bing, Open Street Map og fleiri? Notkun Íslendinga á þeim er hugsanlega meiri en margra íslenskra kortasjáa. Hvernig á að skoða það í umræðunni?
Niðurstaðan er ef til vill sú að það sé ekki sanngjarnt að flokka kortasjár eða landfræðilegar vefsíður eftir mikilvægi. Það er auðvitað mælanlegt hve margir notendur fara inn á hvern vef á tilteknum degi eða yfir tiltekið tímabil. Það er líka ljóst að kortasjá Reykjavíkurborgar er meira notuð en kortasjá lítils sveitarfélags langt frá suðvesturhorninu. Þá eru heldur ekki endilega allir með áhuga á sértækum kortasjám eins og til dæmis um plöntur og dreifingu þeirra, orkumál, raforkukerfið, íslenska landgrunnið, gönguleiðir skólabarna eða kirkjugarða svo dæmi séu tekin. Við vitum hins vegar ekki fyrirfram hvenær við sjálf, börn okkar sem eru í skólum, sérfræðingar eða aðrir notendur þurfa einmitt á þessum sértæku upplýsingum að halda og hafa einmitt þörf fyrir að komast í þetta efni með þeim hætti sem hér um ræðir, þ.e. með framsetningu á kortgrunni. Þá reynast þessi vefverkefni ómetanleg og þau eru alltaf ómissandi fyrir einhvern hóp, hvort sem um er að ræða íbúa á afmörkuðu svæði eða einstaklinga með sömu þarfir og/eða áhugamál.
Mörgum finnst kostnaðarsamt að reka vefverkefni af þessu tagi þó það sé alltaf afstætt, einkum þegar horft er á notagildi við ákvarðanatökur þar sem kortagögnin geta ráðið úrslitum um það hvort taka megi nægjanlega upplýsta ákvörðun. Gögn eru víða til og verkefnin snúast þá um að viðhalda gögnum með reglubundnum hætti og setja þau þannig fram að almenningur geti nýtt sér þau.
Meirihluta þeirra gagna sem aðgengi er veitt að gegnum kortasjár hefur upphaflega verið aflað á vegum eða fyrir stofnanir eða sveitarfélög og fyrir þá vinnu hefur verið greitt með opinberu fé. Því er mikilvægt að hafa opinn aðgang. Ímynd stofnana og sveitarfélaga byggir oft á því hve vel er staðið að því að veita íbúunum aðgengi að upplýsingum sem hafa þarf aðgang að. Íbúarnir eða aðrir notendur vita hins vegar ekki alltaf um það hvað og hvar hægt er að finna það sem skiptir máli. Þess vegna er heildaryfirlit og aðgengi að öllum íslenskum kortasjám gegnum eina vefgátt eins og landakort.is, svo mikilvæg. Í þeim lista eru allir undir sama hatti óháð stærð og styrk.
Þorvaldur Bragason