Mörk svæða frá fyrri tíð (97)

Þegar birta þarf svæðistengdar upplýsingar í kortasjám verða að vera til hentug gagnasett sem sýna skiptingu lands í samræmi við þau gögn sem um ræðir. Þetta geta verið mjög ólíkar kortaþekjur eins og kjördæmi, núverandi sveitarfélög, eldri hreppar, póstnúmerasvæði, heilbrigðisumdæmi, lögregluumdæmi og sóknir svo eitthvað sé nefnt. Engin þeirra marka sem hér um ræðir eru í sjálfu sér endanleg, en misjafnt er hve oft hafa verið gerðar á þeim breytingar. Mestu breytingarnar á mörkum á liðnum áratugum hafa verið á sviði  sveitarfélagamarka, en þeim hefur fækkað úr 229 sveitarfélögum (hreppum) þegar flest var 1950 og niður í 72 (15. júní 2018). Þau mörk eiga eftir að breytast enn frekar á næstu misserum og árum með fyrirhugaðri sameiningu fleiri sveitarfélaga.

Hreppar á Íslandi 1950

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, sem birtar eru á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga, voru hreppar á Íslandi flestir eða alls 229 árið 1950. Hrepparnir voru á sínum tíma, fyrir daga GPS tækninnar, taldar hentugar einingar til að skrá upplýsingar um afmörkuð landsvæði og því eru gagnasöfn til hjá stofnunum sem miða við þá skiptingu. Á síðastliðinni öld voru hins vegar öðru hverju gerðar breytingar á mörkum milli hreppa þó ekki væri um niðurlagningu eða sameiningu að ræða. Því er afar mikilvægt að til séu vel skilgreind gagnasett um hreppa/sveitarfélagamörk miðaðar við skilgreindar tímasetningar aftur í tímann. Að minnsta kosti þarf gagnasett sem miðar við þann tíma þegar hrepparnir voru flestir. Gagnasett eins og þetta ætti helst að vinna með samræmingu og samstillingu lína við núgildandi stafrænt gagnasett eins og IS50V (1:50 000) frá Landmælingum Íslands, þar sem eitt gagnalagið sýnir stjórnsýslumörk. Nauðsynlegt er að „náttúruleg mörk“ landsvæða samanber ár, vötn og strandlína og ýmis áberandi fyrirbæri á landi falli saman og séu þau sömu í þekjunum á þeim svæðum þar sem viðmiðunin markanna á landi er enn sú sama. Í umræddu verkefni þyrfti að mínu mati að koma til samstarf Landmælinga Íslands við Samtök íslenskra sveitarfélaga.

Orkustofnun á stafrænt vektor gagnasett um gamla hreppa eins og þeir voru nálægt árinu  1950 og hefur birt það í kortsjá sinni. Ástæðan fyrir gerð þess var sú að stofnunin hefur notað eldri hreppaskiptingu fyrir afmörkun og framsetningu upplýsinga innan ákveðinna gagnasafna t.d. um borholur, og þess vegna var gagnasettið unnið á sínum tíma. Gagnasettið er hins vegar ekki miðað við eins stóran mælikvarða og IS50V (1:50 000) og því er nákvæmni í línum þess ekki eins mikil (einkum gert út frá kortum 1:100 000 og 1:500 000). Það er hins vegar ekki lögbundið hlutverk Orkustofnunar að viðhalda gagnasettum um mörk, þó stofnunin vilji stuðla að uppfærslu gagnasetts á þessu sviði vegna áðurnefndra hagsmuna.

Mikilvægt er að finna leiðir til að vinna verkefnið, sem ætti þó ekki að vera á neinn hátt erfitt í vinnslu þar sem vinnan og kostnaðurinn byggjast fyrst og fremst á því að starfsmenn áðurnefndra aðila leggi því lið, samræmi upplýsingar og lesi yfir gögn.

Skipting landsins – Önnur söguleg mörk

Í gegnum aldirnar hafa orðið til mikilvæg gögn hér á landi sem mörg hafa verið birt á prentuðu formi. Þar hefur upplýsingum verið safnað eftir landsvæðum eins og þau voru skilgreind á hverjum tíma. Meðal þessara sögulegu upplýsinga má nefna ýmis manntöl, jarðabækur frá fyrri öldum og annað sem tengt hefur verið landinu, hvort sem um var að ræða skiptingu í hreppa eða sóknir. Vitað er að sagnfræðingar sem hafa verið að vinna með mannfjöldagögn eða jarðabækur hafa haft áhuga á að geta sýnt ýmiss konar talnaefni úr slíkum gögnum á stafrænum kortum með gagnvirkum hætti í kortasjám á netinu. Eitt þeirra ártala sem er mikilvægt í því tilliti tengist manntalinu 1703, en þá munu hreppar landsins hafa verið 163.

Til þess að gera slíkt gagnasett og reyndar fleiri sem myndu þjóna svipuðum tilgangi, þarf samstarf Landmælinga Íslands við Þjóðskjalasafn Íslands, en það er nauðsynlegt til að koma inn réttum mörkum svæða frá fyrri öldum eins og þau voru á hverjum tíma. Hér væri tilvalið fyrir safnið og sagnfræðinga sem til þekkja að leita leiða til að fjármagna slíka vinnu með styrkumsókn úr einhverjum sjóði á sviði sagnfræðirannsókna. Eflaust kæmu í slíku verkefni upp umræður um þarfir fyrir að útbúa gagnaþekjur fyrir sóknamörk eða stöðu annarra marka á landinu frá ákveðnum árum frá fyrri tíð. Nýting slíkra gagnaþekja gæti skapað tækifæri fyrir nákvæmari framsetningu og birtingu í kortasjám á efni úr mörgum verkefnum sem tengjast rannsóknum og framsetningu heimilda í sagnfræði.

Ljóst er að fyrrnefnd gagnaþekjuverkefni eru innbyrðis tengd þar sem ákveðin mörk eru líklega óbreytt í þekjunum. Samstilling þeirra við núverandi gagnaþekju um stjórnsýslumörk IS50V frá Landmælingum er því mikilvæg.

Samlegðaráhrif af vinnu verkefnanna tveggja, annars vegar hreppamörk 1950 og hins vegar aðrar sögulegar gagnaþekjur, gætu því verið umtalsverð þó þau ættu að mínu mati bæði vegna eðlis heimildavinnunnar á bak við þau og vegna þeirra aðila sem að þeim þurfa að koma, að vinnast í aðgreindum verkum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .