Netaðgengi að upplýsingum um íslensk kort (48)

Með þeirri tækni sem komið hefur fram fyrir kortasjár á undanförnum tveimur áratugum hefur orðið bylting í möguleikum til að birta gagnaþekjur með afmörkun kortblaða í einstökum kortaflokkum. Tölvuskráningarkerfi eins og „Cartonet“ sem þróað var hjá Edinborgarháskóla í Skotlandi á níunda áratug síðustu aldar fyrir rafræna leit og framsetningu kortaramma í tölvukerfum safna, ruddu brautina. Einna þekktast slíkra verkefna var síðan Alexandria Digital Library í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum, þar sem hugað var að framsetningu og netaðgengi upplýsinga um allar helstu gerðir landfræðilegra gagna í sama kerfinu. Tilgangurinn var meðal annars að samræma milli ólíkra háskóla aðgengi á einum stað að fjölbreytilegum gögnum vegna kennslu í landfræði á háskólastigi. Á sama tíma var veraldarvefurinn að þróast hratt og við það opnaðist ný vídd fyrir framsetningu landrænna upplýsinga í hinum margbreytilegustu myndum, sem einkum hefur sést í hraðri innleiðingu kortasjáa á Netinu á síðustu tveimur áratugum.

Orkuvefsjá Orkustofnunar var fyrsta íslenska kortasjáin, sem veitti aðgengi að upplýsingum um kortaflokka gegnum þekjur með blaðskiptingum kortaflokkanna, þar sem fá mátti fram upplýsingar um einstök kort, flokka (Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort, alls yfir 930 titlar) og myndir af kortum, með því að smella á reiti sem sýna hvaða svæði á landinu hvert kort þekur. Jafnframt eru þar lýsigögn fyrir gagnaþekjur og fróðleikur um hina ýmsu kortaflokka. Kosturinn við þessa framsetningu er umtalsverður fyrir starfsmenn margra stofnana hér á landi, þar sem rúmur tugur íslenskra stofnana hefur nú fengið hágæða afrit (tiff) af öllum kortum OS á stafrænu formi og nýtt þau á ýmsan hátt í starfsemi sinni. Skráningarverkefnið og birtingin á netinu gerir það að verkum að þessar stofnanir og sérfræðingar þeirra, fá góða yfirsýn yfir safnkostinn án þess að þurfa að halda eigin skrár um efnið, auk þess sem þeir geta hlaðið niður einföldum útgáfum kortanna (jpg) beint af Netinu. Skrár yfir þessa sömu kortaflokka eru einnig leitarbærar á vef stofnunarinnar þar sem jafnframt er hægt að skoða kortin og hlaða þeim niður.

Í kjölfar birtingar blaðskiptinga korta í Orkuvefsjá var unnið á Orkustofnun tilraunaverkefni um kortavefsjá 1:25 000. Þar koma fram upplýsingar um kort í mælikvarða 1:25 000, sem unnin voru á vegum Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og Landsvirkjun á tímabilinu 1986-2000.

Gott aðgengi að afritum og upplýsingum um safnkost tveggja annarra íslenskra kortasafna hefur verið veitt á netinu. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn rekur sérstakan kortavef Íslandskort.is þar sem fletta má í gegnum lista yfir eldri kort, kalla fram skrár og upplýsingatexta og hlaða niður myndum af stökum kortum. Vefsíðan var sú fyrsta sem sýndi upplýsingar um íslenska kortaflokka á netinu og gefur hún einstakar upplýsingar um útgefin lykilkort í kortasögu Íslands.

Landmælingar Íslands hafa um árabil veitt aðgengi að leitarvalmynd á vefsíðu sinni þar sem mögulegt er að skilgreina leitir í skrá um kortasafn stofnunarinnar. Þar má til dæmis leita eftir kortaflokkum, mælikvarða, útgáfuári, afmörkun með hnitum og með því að slá inn leitarorð, auk þess sem þar má hlaða niður myndum af kortum.

Þó að nokkur kortasöfn séu til hér á landi, eru þau í vörslu ólíkra stofnana og safna. Flest þeirra á eftir að skrá með ítarlegri hætti en gert hefur verið. Slík skráning er til dæmis forsenda þess að hægt verði að koma upplýsingum um efni kortasafnanna á skilvirkan og samræmdan hátt til almennings á komandi árum.

Kortagerð í mælikvarða 1:25 000 (36)    Aðgengi að kortum í Orkuvefsjá (37)

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .