Notagildi Vefkortasafnsins  (129)

Með nýrri veflausn til að sýna helstu kortaflokka landsins og heildarkort af landinu skapast tækifæri til að ná markmiðum sem ekki hafa verið möguleg til þessa. Það helsta er að með Vefkortasafninu verður mögulegt

að fá heildaryfirlit yfir helstu Íslandskort og kortaflokka þar sem heildarblaðskiptingar eru útfærðar fyrir allt landið og finna jafnframt út hvaða útgáfur vantar í safnkost íslenskra kortasafna. Um leið má leita leiða til að finna slík kort og bæta þeim inn í safnkostinn, en þar með er ekki öll sagan sögð. Lykilatriði í aðgenginu er að skönnuð kort þurfa að vera komin á vefþjón með vefslóð þannig að tengja megi mynd af kortinu við skrá í hugbúnaðarhluta Vefkortasafnsins. Aðgengi að innsláttarvalmynd fyrir innsetningu skráningartexta er verkhluti sem á eftir að þróa og setja upp, þannig að viðhalda megi skránni gegnum vefviðmót hjá stjórnanda verkefnisins. Á þessu stigi eru excel skrár gerðar af Upplýsingaþjónustu landfræðilegra gagna og þeim komið fyrir af Alta.

En hvað þarf til að koma verkefni sem þessu betur af stað?

Ekkert verkefni sprettur upp af engu, enda eru alltaf einhverjar fyrirmyndir og þróun sem byggt er á. Það sama á að sjálfsögðu við um Vefkortasafnið. Frá því að ég var í grunnnámi í landfræði við Háskóla Íslands með upplýsingafræði sem hliðargrein hef ég haft upplýsingaaðgengi landfræðilegra gagna í huga í mörgum verkefnum. Reynsla frá fag- og verkefnastjórnun innan Landmælinga Íslands og Orkustofnunar auk samstarfsverkefna innanlands sem utan á líkum sviðum hefur auk meistaranáms á þessu sviði 2005-2007 ýtt undir hugsanir um að leysa verkefni sem þetta í þágu samfélagsins. Ég hef í fyrri pistlum á landakort.is og í bókunum „Kortasöfn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“, sem birta efnisflokkaða pistla frá tímabilinu 2015-2019,  margoft komið inn á nauðsyn stefnumörkunar og bent á ýmis mikilvæg verkefni á þessu sviði. Það verður ekki endurtekið hér en bent á nokkur atriði sem hafa vísað leiðina.

Erlendis var hugmyndafræðin um landgagnasafnið (e. The Geolibrary) um og eftir síðustu aldamót ráðandi í allri umræðu um aðgengi gagna sem geymd voru í landfræðilegum söfnum. Þar voru verkefni eins og Cartonet og Alexandria Digital Library leiðandi verkefni við að birta upplýsingar um safnkost korta í dreifðum söfnum, en umræða um nauðsyn aðgengis að upplýsingum um fleiri tegundir landrænna gagna kom einnig þar inn. Þróun landupplýsingakerfa og netsins á liðnum áratugum hefur skapað ný tækifæri á þessu sviði og hefur helst verið horft til framsetningar safnkosts korta í vefverkefnunum Carto-Mundi og Old Maps Online sem fyrirmynda, en bæði nota Dublin Core lýsigagnasnið sem skráningarform.

En framsetning efnis kortasafna á netinu er í eðli sínu ekki einfalt fyrirbrigði. Það er auðvitað hægt að setja fram skrár á netinu en við viljum geta gengið lengra. Við viljum geta farið inn í kortasjá, þysjað inn á svæðið sem við viljum skoða, smella og fá fram það sem til er, burtséð frá því hvar það er til, hver ber ábyrgð, hverrar gerðar kortin eru eða hver borgar brúsann við framsetninguna. Við erum orðin vön góðu aðgengi að alls konar efni á netinu en gerum okkur yfirleitt ekki grein fyrir því að samstarf stofnana er stundum lítið sem ekkert og ekki bundið í lög að þeim beri eitthvert hlutverk við gagnamiðlun landfræðilegra gagna. Samfélagið kallar samt á aðgengið, en við stingum yfirleitt hausnum í sandinn og vonum að umræðan líði hjá, sem hún gerir auðvitað ekki.

Ég sá áhugaverða og framkvæmanlega lausn á þessu máli þegar ég kynntist kortasjárhugbúnaði Alta, sem notaður var fyrir Landgrunnsvefsjá og vefsjá Kortasafns Orkustofnunar. Stofnunin hafði áður verðið með framsetningu korta í eldri kortasjárhugbúnaði frá Gagarín ehf. auk annarrar kortasjár um kort fjögurra íslenskra stofnana í mælikvarða 1:25 000 unnin í sama hugbúnaðarumhverfi.

Þau kort voru skráð í gagnagrunn Orkustofnunar þar sem skrá þurfti hornhnit hvers kortblaðs í grunninn, fyrst eins og þau voru skráð á hornum hvers kortblaðs og síðan var þeim hnitum varpað yfir í Ísnet 93 hnitakerfið sem þurfti til að geta birt reiti í kortasjá. Þar sem kortahnitin voru annað hvort Lambert hnit eins og Orkugrunnkortin hafa eða landfræðileg hnit eins og kort í mælikvarða 1:25 000 byggja á, voru dálkarnir í grunninum 24 og þurfti alltaf að fylla út 16 þeirra. Þetta flókna og yfirgripsmikla verkefni vann Hilmar Sigvaldason fyrrum starfsmaður Orkustofnunar.

Til að komast hjá þessari miklu reiknivinnu í nýju verkefni var því nauðsynlegt að finna aðra leið. Hún byggðist á því hvort hægt væri að lykla skrár og landupplýsingaþekjur með númeri kortblaðs. Með því að fá heildarblaðskiptingar kortaflokka í landupplýsingaþekjum og tengja við þær samræmdar kortaskrár og veftengla á skannaðar myndir af kortunum af vefþjónum væri málið leyst. Kortaþekjur og skrár fengust hjá Orkustofnun eins og fjallað er um í síðasta pistli (128) og vefslóðir á tiltekin kort úr safni Landsbókasafns, Orkustofnunar og Landmælinga Íslands voru notaðar sem prufa í byrjun. Árni Geirsson hjá Alta tók hugmyndinni vel og gerð var tilraun í samstarfi við hann þar sem ýmsar flækjur leystust farsællega. Önnur vinna við skipulag og skráningu var unnin í frítíma undirritaðs.

Þó að varðveislumál eins og hér um ræðir séu ekki tilheyrandi og falli ekki undir umræðu um INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins, er þó í þessu verkefni mikilvæg hugmyndafræðileg samsvörun, sem er kjarni í báðum málaflokkunum.  Sérhver ábyrgðarstofnun gagna verður að sjá um sín eigin gögn, bæði hvað varðar skráningu, skönnun og birtingu skannaðra mynda á vefþjónum sem hægt er að tengja við úr öðrum vefverkefnum.

Margar stofnanir hafa gefið út og unnið kort sem falla undir heildarblaðskiptingar kortaflokka af landinu eða hafsvæðunum í kring um landið. Má þar nefna mikinn fjölda útgefinna prentaðra korta frá Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun sem á gróður- og jarðakort ásamt jarðfræðikortum af landinu og Sjómælingum sem eiga kort af landgrunni og hafsvæðum, en síðan eru einnig ýmsar erlendar kortaraðir frá Bandaríkjamönnum, Bretum og fleiri þjóðum. Ýmis grunnkort önnur en orkugrunnkortin (Raforkumálastjóri, Orkustofnun, Landsvirkjun og Rarik), sem voru fjölfölduð en ekki prentuð, má finna í söfnum Skipulagsstofnunar, Landsvirkjunar, Vegagerðarinnar, Orkuveitu Reykjavíkur auk fleiri aðila sem eru ekki til lengur eins og Verkfræðideild Varnarliðsins. Þessi kort eru að því best er vitað lítt eða ekki skráð hvað þá skönnuð og ef þau hafa verið skönnuð er það líklega einföld skjalaskönnun sem er ekki í gæðum sem þarf í verkefni sem þessu. Þessar stofnanir þurfa hvata til að fara í gegnum sín söfn og koma skráningu og skönnun þeirra á það stig að þau geti orðið aðgengileg í Vefkortasafninu. Þar sem blaðskiptingarnar eru nú til yfir allt landið í helstu kortaflokkum og mælikvörðum þarf ekki að skrá flókin staðsetningarhnit heldur einungis reitanúmer, sem er geysilegur tímaparnaður og einföldun í allri skráningu. Það er ekki seinna vænna að gerður verði forgangsraðaður listi yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði í samfélaginu þar sem hugað er að stjórnun, samstarfssamningum og ákvörðun um það hver á að gera hvað.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .