Út er komin hjá Námsgagnastofnun aukin og endurskoðuð útgáfa af Kortabók handa grunnskólum. Bókin er átta síðum stærri en fyrri útgáfa. Bætt hefur verið við opnukorti af Íslandi fremst í bókinni og kort yfir landshlutana eru ítarlegri og auðveldari aflestrar en áður. Nokkrum þemakortum hefur verið bætt við alþjóðlega hlutann, m.a. um sólkerfið. Þá eru nafnaskrár ítarlegri en í fyrri útgáfum. Bókin er sem fyrr unnin í samstarfi við Liber – útgáfuna í Stokkhólmi en Íslandskort eru að mestu fengin frá Landmælingum Íslands og Jean-Pierre Biard kortagerðarmanni. Á bókarkápu er kort Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út í hollensku kortasafni árið 1590. Kortið var lengi undirstaða þeirra myndar sem birtist af landinu, skreytt fjölda mynda af ófreskjum og sæskrímslum og er skemmtilegt að bera það saman við nútíma kort og myndir.