Ný lýsigagnagátt LMÍ (119)

Meðal lykilstoða INSPIRE tilskipunarinnar á sviði stafrænna landupplýsinga í Evrópu eru samræmdar lýsigagnagáttir sem veita eiga upplýsingar til almennings um landfræðileg gagnasett í hverju landi álfunnar. Landmælingar Íslands hafa sem leiðandi aðili í innleiðingunni fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sinnt þessum þætti.  Forsagan nær þó lengra en til núverandi tilskipunar um stafræna grunngerð landupplýsinga. Fyrst var starfsemi stofnunarinnar á sviði lýsigagna byggð upp í samstarfi við LÍSU samtökin í verkefninu Landlýsingu frá árinu 1997, sem leiddi til uppsetningar vefgáttar verkefnisins árið 2000. Eftir gildistöku laga um grunngerð stafrænna landupplýsinga 2011 var sett upp lýsigagnagátt hjá LMÍ sem fékk heitið „Landupplýsingagátt“. Með tímanum var hætt að uppfæra efni Landlýsingar og fyrsta gátt LMÍ tók alfarið við, en hún notaðist við ESRI Geoportal Server. Núverandi búnaður lýsigagnagáttar LMÍ er í opnum hugbúnaði, Geonetwork, og var með breytingunum meðal annars stefnt að því að fá notendavænna viðmót og auðvelda tengingar gagna við notkun á vefþjónustum.
Á upphafssíðu lýsigagnagáttarinnar eru efnisflokkar INSPIRE tilskipunarinnar lagðir til grundvallar. Þar má velja beint upplýsingar um þau gagnasett sem falla undir hina ýmsu efnisflokka tilskipunarinnar og sést fjöldi þeirra á upphafssíðunni, auk þess sem leita má eftir gagnasettum, vefþjónustum og gagnaflokkum. Lýsigögn fyrir nýjustu gagnasettin sem skráð eru eða lýsigagnafærslur sem hefur síðast verið breytt, koma síðan fram neðst á upphafssíðunni.
Starfsmenn opinberra stofnana og sveitarfélaga hafa sjálfir það hlutverk að setja inn lýsigögn sem birtast í lýsigagnagáttinni, en þar má setja inn öll helstu skráningaratriði eins og þau koma fram í stöðlum og reglum tilskipunarinnar. Uppfærslur eiga svo að færast inn eftir því sem við á og eftir því sem gagnasett uppfærast og er það á ábyrgð eigenda gagnanna. Tengd þjónusta er „Landupplýsingagátt“ sem er í raun kortasjá þar sem skoða má eðli og útlit gagna. Niðurhal á gögnum úr vefþjónustum hefur stöðugt orðið aðgengilegra. Má þar einkum nefna niðurhalsþjónustur Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar, Reykjavíkurborgar og reyndar fleiri.
Haustið 2019 voru skráningar fyrir landfræðileg gögn yfir 260 samkvæmt lýsigagnagáttinni. Stærstu gagnaflokkarnir (INSPIRE flokkun) voru á sviði landnotkunar og landflokkunar, jarðfræði, vatnafars, vernaðra svæða, og gróðurs og vistgerða svo eitthvað sé nefnt. Aðgengi að upplýsingum er mjög gott og virkni vefgáttarinnar skilvirk m.a. þegar kemur að leit.
Landmælingar Íslands hafa öðru hverju gert kannanir á því hvernig eignarhaldi og þróun á sviði landfræðilegra gagnasetta í landinu er háttað. Þar hefur komið fram að mun fleiri landfræðileg  gagnasett eða gagnaþekjur eru til hjá stofnunum og sveitarfélögum en skráð hafa verið lýsigögn fyrir og hefur verið hvatt til þess að upplýsingar þar um verði settar inn í lýsigagnagáttina. Við að sjá upplýsingar með svo skýrum og vel skilgreindum hætti um gögn stofnana og sveitarfélaga fer oft af stað þróun í skipulagi gagna hinna ýmsu aðila. Slíkt getur bæði leitt til fækkunar og fjölgunar gagnasetta.
Lýsigagnavefir eru lykilþættir í stafrænni grunngerð landupplýsinga í öllum löndum. Með þeim fæst meðal annars  heildarsýn yfir skilgreind landfræðileg gögn, möguleikar verða til meiri skilvirkni, samræmingar og samþættingar gagna, en það ætti að bæta gæði gagna, auka möguleika á miðlun upplýsinga og draga úr tvíverknaði í samfélaginu.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...