Nýlega komu út bækurnar „Kortagögn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“. Um er að ræða rafbækur þar sem birtir eru alls 123 pistlar af vefnum landakort.is frá tímabilinu 2015-2019 og hefur þeim verið endurraðað í efnisflokka með stuttum inngangsköflum. Auk þess eru birtar heimildaskrár við hvern kafla ásamt orðskýringum í viðauka. Í bókunum koma fram hugleiðingar höfundar um stöðu landfræðilegra upplýsingamála hér á landi. Það er þekkt staðreynd að kort, loftmyndir og gervitunglagögn geyma verðmætar upplýsingar um Ísland og eru heildstæðustu heimildirnar sem til eru um það hvernig yfirborð landsins hefur þróast og breyst. Á tímum hraðfara landbreytinga af völdum manna og náttúru er gott aðgengi að landfræðilegum gögnum talið ómetanlegt, einkum þegar bera þarf saman ný kortagögn við eldra efni.
Þrátt fyrir að margt hafi verið vel gert á þessu sviði ríkir stefnu- og aðgerðaleysi í varðveislumálum landfræðilegra gagna á Íslandi, sem sést oft á því að kortagögn liggja á einhverjum stöðum undir skemmdum, jafnvel óskráð og gætu glatast. Nú er svo komið að það þarf vitundarvakningu til að snúa þessari þróun við, þannig að gagnaöryggi sé tryggt og opnara aðgengi verði í gegnum netlausnir að öllum helstu upplýsingum um hinn landfræðilega menningararf Íslendinga. Markmiðið með útgáfu bókanna er að koma af stað meiri umræðu um aðgengis- og varðveislumál landfræðilegra gagna hér á landi. Tilgangurinn með samantektinni og endurröðun efnisins er einnig að auka þekkingu á landfræðilegum upplýsingamálum meðal þeirra sem þurfa að taka þátt í umræðunni og þeirra sem jafnframt þurfa að taka ákvarðanir í stjórnkerfinu á áðurnefndu sviði.
Þegar ákveðið var að birta pistlana af landakort.is í bókarformi var valið að þeir kæmu út í tveimur rafbókum. Í fyrrnefndu bókinni „Kortagögn og málefni kortasafna“ (1), má lesa pistla um kort og ýmis málefni sem tengjast kortagögnum, kortaflokkum og kortasöfnum á einhvern hátt, en þar er um að ræða 60 pistla. Síðarnefnda bókin „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“ (2) birtir 63 pistla um fjarkönnunargögn (loftmyndir og gervitunglagögn) og skipulag stafrænna landupplýsinga, en í mörgum tilfellum tengist umfjöllun um þau málefni INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins á sviði landfræðilegs gagnaskipulags og stafrænnar grunngerðar landupplýsinga.
Rafbækurnar eru fáanlegar í vefverslun Amazon, amazon.com > Kindle Store, þaðan sem hægt er að hlaða þeim beint niður á Kindle lesbretti eða spjaldtölvur eins og Ipad og lesa þær þar í Kindle appi. Gerð voru nokkur eintök af bókunum í formi pappírskilja og eru þær til hjá höfundi, fyrir þá sem hafa áhuga á hefðbundnara bókarformi (thbr hjá centrum.is).
Þorvaldur Bragason