Þegar eigendur kortasjáa, hvort sem það eru stofnanir, sveitarfélög eða fyrirtæki, standa frammi fyrir því að þurfa að skipta um hugbúnað til birtingar landfræðilegra gagna sinna eru oft ýmsar leiðir færar. Hugbúnaður gengur yfirleitt úr sér með tímanum og margt í umhverfinu breytist hratt. Hugbúnaðarfyrirtæki sem áður voru áberandi hafa horfið af þessum markaði og ný vaxið og komið í staðinn. Ef litið er á lista yfir opnar íslenskar kortasjár á netinu eru flestar byggðar á hugbúnaði frá Loftmyndum ehf, en jafnframt eru margar kortasjár unnar í tengslum við Samsýn umboðsaðila ESRI (ArcInfo) á Íslandi. Alta ehf hefur svo nýlega komið inn á þennan markað, en fyrirtæki eins og Gagarín og Snertill hafa horfið af honum þó af mismunandi ástæðu.
Til að útskýra hvaða staða getur komið upp hjá viðskiptavinum fyrirtækjanna má nefna dæmi frá Orkustofnun, þar sem nýlega hefur þurft að loka þremur kortasjám (Orkuvefsjá, Landgrunnsvefsjá og Kortasjá 1:25 000), en þær notuðu 10-15 ára gamlan hugbúnað sem var síðast uppfærður árið 2010. Þó flest megi segja gott um Flashmap hugbúnaðinn frá Gagarín sem notaður var, þá var hann ekki nothæfur lengur vegna hraðrar þróunar nýrri netlausna. Sem dæmi um takmarkanir má nefna að á endanum var aðeins hægt að opna kortasjárnar á netinu í gömlum vafra, Internet Explorer, en ekki í vöfrum eins og Chrome, Firefox, Edge og Safari. Auk verulegra takmarkana við framsetningu upplýsinga var ekki talið nógu traust að nota hugbúnaðinn, þannig að vegna öryggis í tölvukerfi stofnunarinnar þurfti að loka honum.
Landfræðileg gagnasett sem birt eru á netinu í kortsjám af ýmsum gerðum, geta birst í ólíkum hugbúnaðarlausnum með mismunandi útliti. Margar eldri kortasjár byggðu á formskrám (shp skrám) sem settar voru inn í hugbúnaðarpakkann og þurfti alltaf að skipta um gagnaskrár þegar breytingar voru gerðar á einhverju í gagnasettinu. Mörgum fannst gagnlegt við þetta fyrirkomulag að auðvelt var að halda til haga skilgreindum útgáfum gagnasettanna sem birt voru. Þessi háttur var til dæmis hafður í kortasjám sem byggðu á hugbúnaði Gagarín. Gögnin eru nú yfirleitt sett út á vefþjón og ef þeim er breytt getur uppfærslan birst þess vegna strax, eða eftir því hvernig uppfærslutíðni er stillt af. Utanumhald um lýsigögn fyrir útgáfur hvers gagnasetts vill þá hins vegar fara úr skorðum.
Orkustofnun valdi fyrir nokkrum árum samstarf við Loftmyndir ehf um uppsetningu nýrrar kortasjár (bæði til birtingar á netinu og á innri vef) fyrir landupplýsingagögn stofnunarinnar og hefur það samstarf verið farsælt. Jafnframt er aðgengi að loftmyndagrunni Loftmynda ehf fyrir vinnslu stofnunarinnar á eigin gagnasettum. Í innri kortasjánni eru nýtt samlegðaráhrif þar sem hægt er að fá leyfi annarra viðskiptavina fyrirtækisins til að skoða þeirra gögn með eigin gögnum OS í lokaðri kortasjá, sem skiptir miklu máli við ýmis verkefni stofnunarinnar. Helstu gagnaflokkar sem veittur er aðgangur að í hinni opnu kortasjá á netinu eru: borholur, leyfisveitingar, nytjavatn (vatnsból, grunnvatnshlot og vatnsverndarsvæði), virkjanir, kortasafn, mörk landsvæða, Rammaáætlun 3 og ýmis sértækari gögn stofnunarinnar. Fleiri gagnaflokkar eru í vinnslu og munu bætast við.
Kortasjár stofnana hafa ólík hlutverk og geta haft mismunandi vægi, þess vegna mismikið eftir verkefnum og áherslum stjórnvalda. Til að geta lokað eldri kortasjám er nauðsynlegt að efni þeirra sé afritað útlitslega og jafnframt þarf að setja gagnasettin fram í öðrum hugbúnaði, þannig að mögulegt sé að fá aðgengi að öllu sem áður var opið og nýta upplýsingar sem þar voru birtar, með svipaðri virkni og áður. Þetta á bæði við um efni Landgrunnsvefsjár og Kortavefsjár 1:25 000. Í Landgrunnsvefsjá voru birtar ítarlegar upplýsingar um Drekasvæðið og landgrunnið. Þegar sérleyfin sem gefin voru út vegna olíuleitar voru ekki lengur í gildi minnkaði þörfin fyrir efni sjárinnar. Þar var hins vegar gríðarlegur fróðleikur saman kominn sem talin var ástæða til að hafa aðgengilegan áfram í nýrri Landgrunnssjá. Í þessu sambandi var farið í samstarf við ráðgjafafyrirtækið Alta, sem hafði kynnt á markaðinn nýjan kortasjárhugbúnað. Sá búnaður þótti henta fyrir þetta verkefni, en sú niðurstaða að semja við Alta tengdist tilraunaverkefni sem fyrirtækið hafði gert við að færa efni kortavefsjár 1:25 000 ásamt öðrum upplýsingum um kortasafn OS yfir í sameiginlega kortasjá fyrir „Kortasafn OS“. Upplýsingar um kortasafn OS eru einnig í hinni opnu kortasjá Orkustofnunar, sem unnin er í samstarfi við Loftmyndir ehf.
Með þessum breytingum er það talið hafa tekist að yfirfæra landfræðileg gögn stofnunarinnar, sem áður höfðu verið birt í eldri vefsjám, yfir í nýjar hugbúnaðarlausnir, sem eru að lágmarki jafngóðar eða betri en eldri leiðir. Þó að eldri kortasjár Orkustofnunar hafi verið útlitsafritaðar með skjámyndum af birtingarmynd þeirra á netinu, situr eftir sú staðreynd að við vitum ekki lengur um útlit flestra þeirra kortasjáa hér á landi sem teknar voru í notkun og lokað aftur einhvern tíma á síðustu tveimur áratugum.
Þorvaldur Bragason