Orðalisti LÍSU (13)

Eitt af fyrstu verkefnum LÍSU samtakanna (Samtaka um landupplýsingar á Íslandi) eftir stofnun þeirra árið 1994, var að stofna orðanefnd. Í orðanefndina völdust strax í upphafi valinkunnir sérfræðingar sem hófu markvissa vinnu á reglubundnum vikulegum fundum við að þýða og skrá í sérstakan orðalista öll helstu heiti sem voru notuð eða þurfti að nota við vinnslu landfræðilegra gagna og nýta við starfsemi á sviði landupplýsinga hér á landi. Orðanefndin hefur eins og samtökin sjálf starfað í rúma tvo áratugi.

Sýnilegasti afrakstur nefndastarfsins er „Orðalisti LÍSU“ en það var lengi tölvulisti sem einn nefndarmaður hélt utan um, en listinn var fáanlegur bæði á íslensku og ensku. Orðanefndin hefur einnig á ýmsum tímum fengið sértækari verkefni sem hún hefur leyst af hendi og orð og hugtök úr þeirri vinnu hafa síðan skilað sér inn í orðalistann. Þekktustu dæmin þar um eru svonefndur 100 orðalisti og INSPIRE orðalisti LÍSU (200 orða listi) sem unnir voru á tímabilinu 2005-2008.

Orðalistinn hefur verið aðgengilegur á vefsíðu LÍSU samtakanna í um áratug. Hann hefur verið uppfærður reglulega, framsetning hans á vefsíðu LÍSU hefur síðan verið skilgreind með ákveðnari hætti sem netútgáfa og hefur nú fengið útgáfunúmer á vefsíðunni. Listinn hefur verið uppfærður með reglubundnum hætti síðan, þannig að auðveldara er nú en áður að vitna í hann sem heimild. Orðalistinn hefur lengi verið aðgengilegur á Netinu sem hluti af orðabanka Íslenskrar málstöðvar.

Orðanefnd LÍSU hefur lagt mikla vinnu í gerð orðalistans sem taldi þegar mest var yfir 8000 orð og hugtök. Í seinni tíð hefur verið lögð áhersla á að vinna með ákveðin orð innan listans og meðal annars samræma þýðingar. Þó nefndarmenn hafi lagt á sig ómælda vinnu, hefur því miður verið minna um að nefndin fengi viðbrögð og umræður um orðalistann og efni hans eins og hún hefur oft óskað eftir. Því eru í listanum þýðingar orða sem hafa ekki komist í almenna notkun og í einhverjum tilfellum eru í daglegu tali hugsanlega notuð önnur heiti sem æskilegt hefði verið að samræma áður en orð náðu fótfestu, en erfiðara er að vinna til baka.

Orðalistinn er fyrst og fremst listi með þýðingum á orðum, en ekki hugsaður til að sýna þýðingar á skilgreiningum hugtaka. Þegar kom að umræðu um grunngerð landupplýsinga hér á landi sem LÍSU samtökin beittu sér fyrir allt frá upphafi samtakanna og síðan innleiðingu INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins sem leitt var í lög á Íslandi árið 2011 (nr. 44/2011) kom upp þörf fyrir þýðingar á ýmsum skýrslum og skjölum í tengslum við tilskipunina. Það verkefni var falið þýðingarþjónustu Utanríkisráðuneytisins sem notaði orðalistann að einhverju leyti en kom jafnframt með tillögur að breyttri orðanotkun sem voru mörgum framandi við fyrstu sýn. Höfðu einhverjir sérfræðingar á orði að með þessum nýju orðum væri jafnvel erfitt að skilja textann sem þýddur hafði verið. Við nánari skoðun kom í ljós að þó við sem höfum tamið okkur að nota ýmis íslensk orð fyrir ákveðin verkefni eða fyrirbæri innan sviðs landupplýsinga, þá er ekki endilega innbyrðis samræmi milli þeirra. Dæmi um það misræmi sem upp kom var um lykilhugtakið „spatial“ sem orðanefnd LÍSU hafði þýtt með „stað“ sbr. „staðgögn“ og síðan tillaga þýðingarmiðstöðvarinnar sem lagði til að „spatial“ yrði þýtt sem „land“ sbr. „landgögn“. Þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir hvaða lausn verður á málinu, en hins vegar eru hin þýddu INSPIRE skjöl komin í umferð og þýðingarnar verða varla dregnar til baka.

Það er okkur mjög mikilvægt að eiga góðan orðalista fyrir landfræðileg orð og hugtök, sbr. orðalista LÍSU, en þegar fram koma aðrar tillögur að orðanotkun sem gefnar eru út opinberlega í skýrslum eins og frá þýðingarmiðstöð á vegum stjórnvalda á „áhugamennskan“ undir högg að sækja. Það er mikilvægt að farið verði yfir það misræmi sem hugsanlega hefur skapast við þessa nýju framsetningu, en jafnframt er nauðsynlegt að huga að sjónarmiðum sem liggja til grundvallar hugmyndafræði kerfisbundins efnisorðalykils. Einungis þannig eignumst við samhæfðan farveg fyrir lykil- og efnisorð í faginu og styðjum jafnframt með því  þá mikilvægu iðju að eiga alltaf til íslensk orð um helstu hugtök á sviði landfræðilegra upplýsinga.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .