Örfilmur og skráning loftmynda LMÍ (91)

Um 1980 var talið að fjöldi loftmynda í myndasafni Landmælinga Íslands væri orðinn nálægt 100.000 loftmyndir, en elstu myndirnar voru frá árinu 1937. Ljósmyndavinnsla úr safninu (snertimyndir og stækkanir) stóð á þeim tíma undir veigamiklum hluta af sértekjuöflun stofnunarinnar sem byggðist á tiltölulega hárri sértekjukröfu í fjárlögum. Safnið var á þeim tíma eina loftmyndasafn landsins og átti svo eftir að vera enn um sinn næsta hálfan annan áratuginn. Forsvarsmenn stofnunarinnar á þeim tíma fóru því að leita leiða til að bæta aðgengi að upplýsingum um myndasafnið til að auðvelda hinum fjölmörgu notendum þess að finna þær myndir sem hentuðu fyrir hin ólíku verkefni þeirra. Vinnsla loftmyndanna fór fram á mjög svo sérhæfðri ljósmyndastofu stofnunarinnar þar sem störfuðu í fullu starfi tveir ljósmyndarar. Á hverju sumri voru síðan á tveggja mánaða tímabili teknar myndir sem sérpantaðar höfðu verið af notendum eða þá að flogið var með kerfisbundnum hætti til að endurnýja loftmyndasafnið með nýjum myndum. Yfirleitt voru teknar 3000-5000 loftmyndir á ári, flestar svarthvítar.

Ágúst Guðmundsson þáverandi deildarstjóri og síðar forstjóri LMÍ réð undirritaðan til starfa árið 1980 til að byggja upp og skipuleggja örfilmuskráningarkerfi sem byggði að hluta á kanadískri og bandarískri fyrirmynd. Á þessum tíma var tölvutæknin í árdaga og fyrstu einkatölvurnar að koma á markaðinn. Það var því mögulegt að slá myndaskrár inn á tölvutækt form, en hentug tækni til skönnunar var ekki komin fram. Því var brugðið á það ráð að setja upp kerfi þar sem byggt var á örfilmutækni fyrir skoðun á myndunum og byggt á notkun örfilmuspjalda í lestækjum fyrir slíkt efni (A6 örfilmuspjöld). Slíkt fól í sér mikla skráningar-, ljósmyndunar- og útgáfuvinnu, enda markmiðið að auðvelda notendum loftmyndanna aðgengið á þann hátt að þeir fengju sent til sín skráningarefni og gætu þess vegna pantað myndefni án þess að þurfa að koma á skrifstofu Landmælinga í Reykjavík.

Hugmyndafræðin byggði á tvenns konar skrám, annars vegar fluglínuskrá í tímaröð og þar með um leið í númeraröð og hins vegar skrá í sömu röð samkvæmt hinum 87 kortblöðum Atlasblaða í mælikvarða 1:100 000 sem stofnunin gaf út. Skrárnar voru síðan gefnar út ásamt yfirlitskorti um þekju myndatökusvæða, í árlegri skýrslu. Fluglínukort voru teiknuð inn á Atlasblöð 1:100 000 og síðan ljósmynduð á 35 mm litfilmur. 35 mm filmunum var síðan raðað inn í þar til gerð gegnsæ sýrufrí plastslíður í stærðinni A6 þar sem rými var fyrir átta kort á hverju spjaldi. Hver einasta loftmynd var síðan ljósmynduð á 16 mm örfilmu. Til þess að sjá á hverri mynd á örfilmunni helstu atriði um myndina var smíðaður sérstakur ljósakassi til að lýsa gegnum filmurnar með „dimmer“ á lýsingunni þannig að taka mætti örfilmurnar á staðlaða örfilmumyndavél og stilla ljósmagn síðan eftir ljósmæli. Þau atriði sem ljósmynduð voru með loftmyndafilmunni voru upplýsingar um: myndaflokk, stærð, brennivídd linsu, flughæð og númer myndar. Þrjú fyrstu atriðin breyttust ekki innan ársins (stundum þó myndaflokkur, sem hljóp á 10 000 númerum), flughæð breyttist nokkuð á milli flugferða en nýtt númer þurfti að setja inn fyrir hverja mynd. Til þess var smíðaður stafrænn teljari þar sem auðvelt var að breyta númeri við hverja mynd.

Til þess að búa til masterspjöld til útgáfu var örfilman klippt niður í búta með 12 myndum á. Bútarnir voru síðan límdir á sérstök spjöld, 60 myndir alls þar sem ljósnæma lagið á filmunni sneri út, sem var mikilvægt vegna myndgæða í fjölföldun. Þannig urðu til masterspjöld með 60 loftmyndum á. Síðan var settur texti á glærar filmur og filmuræmurnar með textanum límdar efst á masterspjaldið. Masterspjöldin voru síðan send til fjölföldunar í Sviss og voru gerð 20 eintök af hverju spjaldi. Mismunandi litur var á titilrönd hinna útgefnu spjalda sem nefnd voru „fisjur“ (e. microfiche) og voru fjórir litir notaðir eftir ákveðinni röð til að aðgreina útgáfur hvers árs frá annarri. Útgáfan stóð í tíu ár frá 1981-1990. Þegar henni var hætt hafði 571 titill komið út, alls um 33.000 loftmyndir.Titlar örfilmuspjalda innan eins árs urðu flestir 95 talsins árið 1985.

Á þessum tíma  voru tvær meginaðferðir notaðar í örfilmutækni. Vesicular aðferð var notuð í bankakerfinu, þar sem færslubækur, reikningsyfirlit og fleira var fjölfaldað til notkunar og hins vegar Diazo aðferð, sem meðal annars var notuð til fjölföldunar á loftmyndaspjöldunum. Seinni aðferðin gaf möguleika á að birta ljósmyndir án þess að skerpan færi forgörðum, en fyrri aðferðin gerði það ekki og gaf ekki möguleika á að aðgreina grátóna. Stærð fjölfaldaðra spjalda var A6 og voru notuð sérstök lestæki til að fletta og skoða innihald þeirra. Fyrir efni bankanna var notað eitt tæki, en fyrir skráningarefni Landmælinga var gert ráð fyrir tveimur lestækjum. Annað var til að skoða kortið með fluglínunum, en hitt til að skoða loftmyndirnar. Þar sem loftmyndirnar voru teknar með flugstefnur í „mismunandi áttir“ þurfti að hafa prisma á linsu lestækisins sem gaf möguleika til að snúa loftmyndinni í 360° og leggja myndirnar þar með eins upp og kortið. Prentuð voru síðan pöntunarblöð á „transparent“ pappír þannig að leggja mátti slíkt blað á skjáinn, merkja inn hornpunkta og kennileiti og ramma sem viðskiptavinurinn óskaði að láta stækka fyrir sig.

Framleiðsla bankakerfisins fyrir sín innri not var mikil að vöxtum áður en tölvutæknin tók yfir, en það var án efa mesta framleiðsla örfilmuspjalda (vesicular) sem nokkru sinni hefur verið unnin á Íslandi. Útgáfa Landmælinga á efni með ljósmyndagæðum er hins vegar viðamesta útgáfa örfilmuspjalda (diazo) sem ætluð var til almennra nota hér á landi í þeim tilgangi að auka upplýsingaaðgengi að ákveðinni tegund gagna í samfélagslegri eigu og miðla um landið. Viðamesta myndataka landsins á örfilmur (rúllur) fór á þessum tíma annars vegar fram á Landsbókasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands vegna aðgengis að safnkosti á lestrarsölum safnanna og hins vegar hjá Fasteignamati ríkisins til innri nota stofnunarinnar, þar sem efniviðurinn var einkum skjöl og samningar. Í öllum tilfellum var tekið á 16 mm spólur og þær fjölfaldaðar til innri nota á stofnununum. Jafnframt voru til fyrirtæki á markaði sem buðu þjónustu á þessu sviði. Umfang þessarar starfsemi í landinu var það mikil að innan Skýrslutæknifélags Íslands var sett upp orðanefnd til að fjalla sérstaklega um orðanotkun í örfilmutækni, en nefndin birti íslenskt-enskt og enskt-íslenskt orðasafn í sérhefti tímarits félagsins á þessum tíma (Tölvumál 1985, 10(2)).

Skráningarefni LMÍ var dreift á helstu viðskiptastofnanir og til ákveðinna stórra sveitarfélaga á 10 ára tímabili. Þrátt fyrir mikinn metnað og vinnu varð reynslan sú að fólk lagði ekki á sig að setja sig inn í að finna myndir sjálft. Það hélt því áfram að hringja eða koma á skrifstofu LMÍ, á þeim tíma í Reykjavík, þar sem hægt var að skoða snertimyndir (23×23 cm) af öllum myndum. Með áherslubreytingum á stofnuninni um 1990 var þessari myndatöku örfilmanna síðan hætt. Aðferðafræði skráningarinnar var hins vegar notuð áfram bæði til að skrá myndir aftur í tímann og eins fram til ársins 2000 þegar stjórnvöld ákváðu að LMÍ skyldu hætta loftmyndatöku. Allt safnið er nú skráð á sama hátt og hefur þessi sama aðferðafræði verið notuð. Aðgengi að skönnuðum kortum og loftmyndum er nú komið á netið og er þar byggt eftir sem áður á þessu kerfi. Þegar litið er til baka verður að telja hér um mjög metnaðarfulla tilraun til upplýsingamiðlunar að ræða, þar sem aðgengi sérfræðinga og almennings var í forgrunni. Þróun tölvutækninnar, landupplýsingakerfi og netið  gerðu þessa eldri aðferð hins vegar úrelta. Grunnhugmyndafræði miðlunar og upplýsingaaðgengis gengur þó í gegn og með nýrri tækni koma ný tækifæri.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .