Orkugrunnkort (34)

Margar stofnanir og sveitarfélög á Íslandi búa yfir kortagögnum af alls konar formum og gerðum, sem orðið hafa til í starfseminni á löngum tíma. Aðgengi að gögnunum er oft takmarkað og jafnvel fáir sem vita um tilvist þeirra. Þessi gögn hafa mörg hver upphaflega verið kort á pappír eða filmum, jafnvel ekki formlega gefin út þrátt fyrir að vera hluti af stórum kortaflokkum og hafa síðar verið skönnuð og vigruð til notkunar í landupplýsingakerfum. Einn þessara kortaflokka eru svokölluð Orkugrunnkort, tækni- og framkvæmdakort (e. plans) sem unnin voru í ýmsum mælikvörðum af svæðum á hálendi Íslands á seinni hluta 20. aldar. Kortatitlarnir, sem eru töluvert á áttunda hundraðið, voru hvorki prentuð kort með hefðbundnum hætti né formlega útgefin, heldur samkóperuð á filmur eða pappír með ýmsum hætti eftir þörfum þeirra sem þurftu að nota þau. Af þessum sökum voru kortin aldrei skráð miðlægt eða varðveitt til birtingar, en með kortaskráningarverkefni Orkustofnunar á árunum 2009-2012 varð mikil breyting í varðveislu og aðgengi þessa kortaflokks.

Vinna við landmælingar og kortagerð vegna rannsókna fyrir virkjanir á hálendi Íslands og síðan framkvæmdir vegna þeirra, hófst á vegum Raforkumálaskrifstofunnar um miðja síðustu öld.  Eftir að Raforkumálaskrifstofan var lögð niður um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hélt verkefnið áfram á vegum Orkustofnunar, en einnig hjá Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins (RARIK). Kortagerðin stóð síðan yfir fram undir síðustu aldamót eða í fjóra áratugi (1958-1998), en mælingar fóru að stórum hluta fram á vegum Landmælingadeildar Orkustofnunar undir stjórn Gunnars Þorbergssonar. Áður höfðu ýmis kort svipaðrar gerðar verið unnin á Teiknistofu Orkustofnunar og eru þau til í Teikningasafni OS.

Kortin byggðust einkum á loftmyndum frá Landmælingum Íslands, en endanleg kortavinnsla var að mestu unnin hjá fyrirtækjunum Forverk og Hnit á Íslandi, Svenska kraftkontoret og VIAK í Svíþjóð og Wideröe í Noregi. Um er að ræða grunnkort sem einkum var ætlað að sýna hæðarlínur, hæðarpunkta og vatnafar. Alls voru þekktir 755 titlar úr þessum kortaflokki í upphafi skráningarinnar, en komið hefur í ljós síðar að þeir eru nokkru fleiri.

Flest kortanna voru gerð í þremur mælikvörðum 1: 20 000, 1:5000 og 1:2000, byggð á ákveðnu rétthyrndu reitakerfi. Nokkuð var síðan unnið af kortum í mælikvarða 1:25 000, en minna í 1:50 000 og 1:10 000, aðeins eitt kort er í 1:100 000.  Þessi tegund korta var ekki gefin út í eiginlegum skilningi heldur fjölfölduð á filmur og pappír í nokkrum eintökum. Af þeirri ástæðu var m.a. ekki vitað nákvæmlega hvort öll kortin eða afbrigði þeirra væru til á Orkustofnun, en kort hafa verið fengin að láni til skönnunar þar sem vitað hefur verið um tilvist þeirra annars staðar. Kortaflokkur þessi hefur í heild verið nefndur Orkugrunnkort, en sá hluti hans sem gerður var í mælikvarða 1:20 000 á vegum Raforkumálastjóra og Orkustofnunar hefur í daglegu tali verið nefndur OS kort.

Almenn yfirsýn yfir Orkugrunnkort byggðist einkum á skýrslu Gunnars Þorbergssonar frá 1988, en þegar fyrst var farið að huga að skráningu kortaflokksins kom í ljós að í safni OS voru ekki til eintök af öllum kortunum og voru þau því fengin að láni á filmum frá öðrum stofnunum vegna skönnunar. Ákveðið var að hefja vinnu við sérstakt skráningarverkefni sem hafði það að markmiði að fá fram ítarlegar skrár yfir öll kortin, skanna þau síðan í hárri upplausn (tiff) sem ætti að nægja meðal annars til uppréttingar og vigrunar fyrir landupplýsingavinnslu. Að lokum var markmiðið að birta upplýsingar á netinu og tengja þær við blaðskiptingar kortanna í gagnaþekjum í kortasjá Orkustofnunar, Orkuvefsjá, þannig að kalla mætti bæði fram upplýsingar úr kortaskrám og fá fram myndir af kortunum sjálfum á léttara formi (jpg). Þannig var aðgengi að upplýsingum opnað fyrir alla og möguleiki skapaðist til að stofnanir gætu fengið afrit allra kortanna í hágæðaskönnun, sem hefur orðið raunin á, en hægt er að leita að öllu efni í Orkuvefsjá.

Þá var eitt af markmiðum skráningarverkefnisins að gera það mögulegt síðar að finna út hvort til væru fleiri óþekkt afbrigði kortanna. Flest kortanna sýna hæðarlínur, vatnafar og mælipunkta, en einnig eru þar oft sýndir vegir eða slóðar og örnefni. Aðeins um 40% kortanna fylla að fullu út í kortrammann. Skráð var í Oracle gagnagrunnstöflu og staðsetningargögn byggð upp í  landupplýsingakerfi. Út frá þeim voru síðan gerðar formskrár (shp) til birtingar í Orkuvefsjá. Í hugbúnaði kortasjárinnar er auðvelt að meðhöndla upplýsingar og bæta inn lýsigögnum og fróðleik um kortin. Uppfærsla skráa og kortaþekja í þekktum gagnagrunns- og landupplýsingakerfum er lykilatriði í viðhaldi upplýsinganna og gefur möguleika til að nýta þau í mun víðari tilgangi. Í þessu verkefni var í fyrsta skipti í íslenskri kortasjá hægt að skoða heila kortaflokka með því að smella á reiti innan kortblaðaskiptingar og fá með því fram lýsigögn um gagnasöfn, skrár með ítarefni og myndir af kortum. Þessi aðferðafræði er nýtanleg fyrir fleiri stofnanir, en samsafn slíkra gagna frá mörgum stofnunum gæti orðið grunnur að sérstakri kortavefsjá á landsvísu, óháð því hvaða hugbúnaður yrði notaður til þeirrar framsetningar. Til að koma til móts við stærri notendahóp er allt efni kortasjárinnar sett fram bæði á íslensku og ensku.

Orkugrunnkortunum var einkum ætlað að sýna hæðarlínur, hæðarpunkta og vatnafar. Á þeim eru þó margvíslegar aðrar upplýsingar eins og vegir og vatnaflákar í fljótum og stöðuvötnum. Flest kortanna voru gerð í þremur mælikvörðum 1: 20 000 (235), 1:5000 (219) og 1:2000 (234). Nokkuð var síðan gert af kortum í 1:25 000 (50), en minna í 1:50 000 (12) og 1:10 000 (4), aðeins eitt kort er í 1:100 000. Kort í mælikvörðum 1: 20 000, 1:5000 (16 kort af sama svæði og á einu korti 1:20 000) og 1:2000 (100 kort af sama svæði og á einu korti 1:20 000)  byggja á blaðskiptingu OS, en kort í mælikvarða 1:50 000 og 1:25 000 (4 kortblöð þekja sama svæði og eitt kort 1:50 000) byggja á blaðskiptingu Landmælinga Íslands. Kort 1:2000 og 1:5000 eru með eins metra hæðarlínubili, kort í mælikvarða 1:20 000 og 1:25 000 eru með 5 metra hæðarlínubili og kort í mælikvarða 1:50 000 og 1: 100 000 eru með 20 metra hæðarlínubili.  Í Orkuvefsjá fellur um tugur Orkugrunnkorta utan reitakerfa og blaðskiptinga sem sýndar eru á öðrum yfirlitsþekjum Orkugrunnkorta og eru þau því sýnd í Orkuvefsjá með sérstakri þekju.

Yfir 90% titlanna er í þremur algengustu mælikvörðunum 1: 20 000, 1:5000 og 1:2000 og er áþekkur fjöldi titla í hverjum mælikvarðaflokki. Hins vegar er mjög mismunandi hvaða áherslur hver hinna fjögurra stofnana hefur lagt upp með innan flokkanna þriggja. Öll kortin eru til hjá OS sem tiff og jpg skrár auk þess að vera til útprentuð á pappír.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .