Þegar Orkuvefsjá yfirtók hlutverk Gagnavefsjár að hluta varð til sérstakur birtingarstaður upplýsinga um staðtengjanleg gögn um Ísland í málaflokkum sem eingöngu eru á ábyrgð Orkustofnunar. Ástæðurnar fyrir breytingunum voru bæði þær að endurskipuleggja þurfti allt Gagnavefsjárverkefnið þar sem hugbúnaðurinn var ekki lengur uppfærður hjá framleiðanda og að Orkustofnun (OS) var orðin ein um rekstur Gagnavefsjár sem í byrjun var sameiginlegt verkefni margra. Þegar ákvörðun var tekin um breytingar höfðu tveir upphaflegir samstarfsaðilar af fjórum í Gagnavefsjárverkefninu (Vatnamælingar, sem áður voru hluti Orkustofnunar en nú innan Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun), dregið sig út úr því, en stofnanirnar hættu að viðhalda gögnum sínum í Gagnavefsjá þar sem þau áttu að birtast í Náttúruvefsjá. Eftir stóðu þau gögn sem stjórnsýsluhluti Orkustofnunar og ÍSOR höfðu séð um en ÍSOR kom, er þarna var komið sögu, hvorki að uppfærslu eigin gagna né að fjármögnun. Orkuvefsjá var opnuð á Netinu í júní 2010.
Hugbúnaðurinn sem Orkuvefsjá nýtir þróaðist upphaflega innan samstarfsverkefnis fyrirtækja og stofnana um Náttúruvefsjá. Í Orkuvefsjá er eins og Landgrunnsvefsjá OS notuð íslensk hugbúnaðarlausn (Flashmap) frá Gagarín, en eftir að stofnunin hafði látið þróa hugbúnaðinn með ýmsum viðbótum fyrir Landgrunnsvefsjá, t.d. fyrir tvö tungumál, birtingu staðsetningarhnita og meðhöndlun opinna (gegnsærra) reita svo eitthvað sé nefnt, var sú hugbúnaðarútgáfa í raun jafnframt tilbúin fyrir Orkuvefsjá, að öðru leyti en því að viðmiðskerfið þurfti að vera ÍSN93, eins og verið hafði í frumgerð Náttúruvefsjárinnar. Breytingar hugbúnaðarins fyrir þessi verkefni voru í raun tiltölulega lítil viðbót og reyndist verkefnið mjög hagkvæmt miðað við aðra kosti í stöðunni á þeim tíma.
Eins og gerist um landræn gagnasett stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja, er vinnsla nýrra útgáfa þeirra og gerð lýsigagna fyrir þau viðvarandi verkefni, enda úreldast gögn fljótt að öðrum kosti. Þegar búið var að yfirfara og uppfæra þau gögn sem töldust á ábyrgð Orkustofnunar í Gagnavefsjánni voru þau flutt yfir í hið nýja hugbúnaðarumhverfi til birtingar.
Helstu gagnaflokkar í Orkuvefsjá eru á sviði raforku, jarðhita og nytjavatns, auk þess sem ítarlegar upplýsingar eru um eldri kortaflokka Orkustofnunar og leyfisveitingar á vegum stofnunarinnar. Kortasjáin birtir bæði upplýsingar úr vektor gagnasöfnum og rastamyndir sem aðgengilegar eru gegnum vefþjónustur, ásamt fróðleik, lýsigögnum og ítarefni. Í upphafi var áherslan lögð á gögn um raforkuver, notkun jarðhita (gróðurhús, fiskeldi, iðnaður og sundlaugar) og upplýsingar um kort unnin vegna orkurannsókna og orkuframkvæmda auk vatnafars- og jarðfræðikorta stofnunarinnar. Síðar hafa bæst við gögn um nytjavatn, leyfisveitingar og borholur. Einu utanaðkomandi gögnin eru SPOT heildargervitunglamynd af Íslandi, en einnig eru birtar tvær hæðarmyndir sem unnar voru fyrir Orkustofnun.
Þegar Gagnavefsjá var aflögð lokaðist um tíma aðgangur að upplýsingum um staðsetningu á borholum sem þar hafði verið. Ekki þótti viðunandi að opna sömu gagnaþekjuna í Orkuvefsjá, þar sem skekkja í ýmsum eldri hnitum kom mun skýrar í ljós á nákvæmari myndgrunni. Ákveðið var að setja tímabundið upp vefsvæði til að notendur utan stofnunarinnar gætu skoðað staðsetningar á borholum eins og þær hafa verið settar í grunninn, en vitað er að sum hnit eru ekki ekki nægilega nákvæm. Nú er unnið að yfirferð á eldri hnitum og að söfnun nýrra. Borholugögn hafa verið í Orkuvefsjá frá árinu 2015, en mögulegt hefur verið að leita í skrá um alla borstaði á vefsíðu OS. Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá eru á tveimur tungumálum og í tveimur útgáfum. Önnur útgáfan er opin á netinu, en hin er notuð á innra neti, meðal annars til að þróa gagnaþekjur og prófa útlit áður en þau gögn sem teljast tilbúin eru birt almenningi. Í innri vefsjánum er jafnframt efni sem eingöngu er ætlað til nota í daglegum störfum starfsmanna OS.
Þorvaldur Bragason