Fyrsta loftmyndaflug á Íslandi þar sem teknar voru loftmyndir lóðrétt með yfirgripi og hliðarskörun í myndatöku eftir fyrirfram skipulögðum samsíða fluglínum var flug herkortastofnunar Bandaríkjanna AMS (Army Map Service) á árunum 1945 og 1946. Sami háttur var hafður á rúmum áratug síðar þegar bandaríska kortastofnunin DMA (Defence Mapping Agency) skipulagði kerfisbundna myndatöku á tímabilinu 1956-1961. Bæði myndatökuverkefnin tengdust upplýsingaöflun fyrir kortagerð af Íslandi í mælikvarða 1:50 000 (C762 og C761). Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var farið að huga að því að formfesta skipulag fyrir loftmyndatökuflug Landmælinga Íslands. Undirliggjandi þáttur var m.a. fyrirhuguð blaðskipting réttmyndakorta (orthokorta) sem stofnunin var að hefja vinnu við í mælikvarða 1:10 000. Fluglínurnar þurfti að skipuleggja þannig að myndirnar hittu sem best á kortrammana í blaðskiptingunni. Í slíkum verkefnum var því yfirgrip milli aðliggjandi mynda innan sömu fluglínu allt að 80-90%. Ágúst Guðmundsson stýrði loftmyndatöku Landmælinga Íslands á þessum tíma og beitti hann sér fyrir því að útfæra fluglínur fyrir allt landið og skipuleggja myndatökur bæði fyrir kortagerðartengd verkefni stofnunarinnar sjálfrar og myndatökur fyrir aðrar stofnanir inn á þetta skipulag þegar því varð við komið.
Kerfið byggðist á því að allt landið skyldi myndað úr 5486 metra hæð (18.000 fet), þ.e. láglendi á fimm ára fresti og hálendi á 10 ára fresti. Stefna fluglínanna í háflugi var austur vestur. Þá var gert ráð fyrir lágflugi yfir helstu þéttbýlisstaði landsins úr 2200 metra hæð (um 7200 fet) á þriggja ára fresti, þar sem stefna fluglínanna var mismunandi og miðaðist við legu byggðanna í landinu. Þetta verkefni gekk nokkuð vel eftir, en stundum varð veðurfar í vissum landshlutum á myndatökutímabilinu til þess að færa varð verkefni á milli ára, en flugvél var yfirleitt samningsbundin fyrir visst magn flugtíma á tveggja mánaða tímabili síðsumars og kostnaðarsamt að lengja tímabilið eða fjölga flugtímunum. Þannig varð stundum eilítið lengra á milli myndatöku af sumum landshlutum vegna skýjafars, en slík tilfærsla jafnaði sig út miðað við lengri tímabil. Skipulag myndatökunnar var loks birt í skýrslu eftir að það hafði í reynd verið notað í rúma tvo áratugi.
Þegar Loftmyndir ehf hófu loftmyndatöku hér á landi árið 1996 kom fyrirtækið sér upp skipulagi fyrir kerfisbundna loftmyndatöku. Þetta skipulag gerði ráð fyrir háflugi sem fór fram nokkur fyrstu árin, en var fljótlega fært að mestu yfir í milliflug í um 3000 m hæð (um 10.000 fet), meðal annars til að ná meiri myndgæðum út úr myndatökufluginu. Fluglínur eru oftast í norður suður en það er þó breytilegt eftir landshlutum. Fyrirtækið vinnur eftir áætlun um að mynda dreifbýli og láglendi á 1-7 ára fresti en hálendið er endurnýjað þegar breytingar verða sem kalla á uppfærslu myndanna. Allt landið er myndað á þennan hátt og tekur það til alls dreifbýlis, láglendis og hálendis að Vatnajökli undanskyldum. Öll byggð, helstu bæjarfélög og sumarbústaðasvæði eru mynduð úr lágflugi í um 1400 metra (4.500 fet) hæð og er miðað við myndatökur af þeim á 1-4 ára fresti.
Samsýn ehf hefur stundað reglubundna loftmyndatöku mest af suður- og vesturhluta landsins auk stórra svæða norðanlands og nær myndatakan einnig til allra þéttbýlisstaða í lægri flughæð, en myndasafn fyrirtækisins geymir myndir sem sýna um þriðjungs landsins á tímabilinu 2000-2015.
Af þessu má sjá að til eru nokkur „sett“ mynda af landinu þar sem hægt er að bera saman myndefni og fylgjast með landbreytingum af völdum manna og náttúru. Þessi fjársjóður myndefnis er ómetanlegur og mun geta nýst samfélaginu vel um langa framtíð. Fyrir hinn almenna notanda hvort sem hann er sérfræðingur á opinberri stofnun, starfsmaður sveitarfélags eða fyrirtækis á markaði, bóndi eða annar notandi slíkra gagna svo eitthvað sé nefnt, þá er mikilvægt að koma upp leið til að geta leitað að þessu efni með sambærilegum hætti, helst gegnum samræmdar vefgáttir eða jafnvel lausnir sem byggja á sama hugbúnaði. Aðgengi að gögnunum/myndunum sjálfum og kaup mynda- eða gagna fer síðan alltaf fram gegnum eiganda þeirra og/eða vörsluaðila. Nú er komin fram ný vefgátt „landkönnun.is“ þar sem hægt er meðal annars á einum stað að nálgast ýmsar upplýsingar um íslensku loftmyndasöfnin. Vefgáttin ætti að auðvelda notendum að finna hvert þeir eiga að leita og sjá yfirlit yfir myndir og svæði, en framsetning upplýsinganna hjá þeim þremur aðilum sem halda utan um loftmyndasöfnin er með ólíkum hætti. Meiri samræming væri því mjög til hagsbóta fyrir notendur.
Þorvaldur Bragason